28.12.2007 | 21:10
Seljum heita vatnið því kjarnorkan er að koma!
- viðtal við Örn Steinsson fyrrum vélstjóra í dælustöðinni við Varmá í Mosfellsbæ
Örn hóf störf í dælustöð Hitaveitu Reykjavíkur við Varmá um það leyti sem dælurnar voru settar í gang og vann hann þar samfleytt í 40 ár, þar af þrjátíu og þrjú ár undir stjórn Höskuldar Ágústssonar, stöðvarstjóra. Blaðamaður Íbúans heimsótti Örn sem nú er áttatíu og sex ára gamall og býr á Hrafnistu í Reykjavík.
Þú varst vélstjóri í dælustöðinni við Varmá. Í hverju fólst þín vinna?
Ég stjórnaði dælunum sem voru drifnar áfram af rafmagnsmótorum og dældu vatninu til Reykjavíkur. Það voru vaktir allan sólarhringinn í stöðinni og voru vaktaskipti lengi vel kl. fjögur að nóttu. Húsið hér fyrir ofan var byggt til þess að við gætum verið sem næst stöðinni en þar bjuggu tveir vélstjórar í öðrum enda hússins og stöðvarstjóri í hinum helmingnum. Þetta þótti nú frekar langt frá Reykjavík í þá daga.
1. desember 1943 byrjuðum við að dæla í hús í Reykjavík. Frá 1. nóvember dældum við í sjálfar Elliðaárnar til þess að hreinsa pípurnar. Eftir það fórum við að dæla inná geymana í Öskjuhlíðinni.
Hvernig var umhorfs í Mosfellssveit þegar þú komst hingað?
Þetta var alveg yndisleg sveit. Hér voru eingöngu sveitabýli. Merkustu býlin í Reykjadalnum voru Reykir, Sólvellir, Akrar og síðan Helgafellsbýlið.
Voru hverirnir áberandi á yfirborðinu?
Það bar svo sem ekki mikið á hverunum. Það þurfti að bora eftir vatninu. Til að byrja með niður á 250 m dýpi. Í dag eru holurnar mun dýpri. Svo var hætt að bora á Reykjum og vatn sótt yfir í Mosfellsdalinn. Þar var vatnið töluvert heitara. Upp við Reyki runnu litlir, heitir lækir. Það voru bændurnir sem fengu hugmyndina að því að bora eftir vatninu. Þeir sáu náttúrulega vatnið koma heitt upp úr jörðinni.
Í upphafi voru þetta svona 83° C en hitastig lækkaði smám saman og var komið niður í 80°C þegar ég hætti.
Var mikil gufa í Reykjahverfi?
Það fylgdi því mikil gufa þegar borað var eftir vatninu. Hún kom upp af sjálfu sér. Það varð að hleypa hitanum út. Sérstaklega þegar hlýtt var í veðri var vatninu hleypt í ána og þá fylltist allt af gufu. Það var voða mikil rómantík í sambandi við þetta.
Voru gufuböð í sveitinni?
Nei, það var ekkert svoleiðis en það var útisundlaug við Álafoss og þar fóru menn stundum í bað.
Kynntist þú þýskum líffræðingi sem var að vinna að hverarannsóknum í Reykjahverfinu ?
Já, honum Schwabe. Hann sat oft og kjaftaði við okkur niðri í stöð. Hann spáði því að vatnið myndi vera orðið kalt eftir 50 ár. En það reyndist ekki rétt.
Schwabe var mikið að grúska og mældi hann vatnsmagnið í hverunum og gerði rannsóknir á lífverum í vatninu. Við vorum með lítinn pott sem heitt vatn var látið renna í. Í því voru einhverjar verur og var hann að kanna hve mikinn hita þær þyldu. Fræðimenn úr bænum komu vikulega og gerðu úttekt á þessu. Þetta var mjög merkilegt fyrirtæki.
Manstu hvað þið dælduð miklu vatni til Reykjavíkur?
Dælustöðin var mikill happagripur fyrir Reykvíkinga. Við dældum í upphafi um 300 lítrum á sekúndu. Eftir því sem við boruðum dýpra þeim mun meira og heitara var vatnið. Fyrst var það látið renna upp af sjálfu sér en það var ekki nóg. Var því brugðið á það ráð að blása í holurnar lofti til þess að reyna að lyfta vatninu upp. Súrefnið olli hins vegar vandræðum og tærði rörin. Því voru settar dælur í holurnar.
Það er oft talað um að það hafi verið svo mikil mengun af kolareyk á veturna áður en að hitaveitan kom.
Já, ég var vélstjóri á sjó áður en ég fór að vinna í dælustöðinni. Séð utanað var alveg kolsvartur mökkur yfir Reykjavík. Eftir að hitaveitan kom bar sáralítið á mengun.
Ertu sammála því að heita vatnið sé undirstaða velmegunar á Ísland ?
Já, ég er nú ansi hræddur um það. Kolainnflutningurinn datt bara alveg niður eftir að hitaveitan kom. Ýmis vandamál komu þó upp. Það var t.d. ekki nægilegt vatn til að hita upp alla borgina. En síðan fóru þeir að bora dýpra. Það gekk ekki vandræðalaust að finna stærri bor en á endanum tókst það. Gamli borinn var kallaður Gullborinn. Hann hafði verið nýttur til að bora eftir gulli á svæðinu þar sem Reykjavíkurflugvöllur er núna.
Fengu Mosfellingar heitt vatn strax eða kom það seinna?
Þeir fengu ekki vatnslögn fyrr en löngu seinna. Mig minnir að Reykjabændur hafi selt sín heitavatnsréttindi á sextíu þúsund. Það var allt sem þeir fengu.
Hljóðaði samningurinn ekki upp á hundrað og fimmtíu þúsund?
Þeir fengu bara sextíu þúsund fyrir heita vatnið. Svo fór Hitaveitan að kaupa í Mosfellsdalnum. Það voru læti út af því. Það voru margir sem að vildu ekki selja heita vatnið. Ég man eftir almennum fundi sem haldinn var í sveitinni. Þar stóð Kristinn á Mosfelli upp og sagði: Við skulum bara selja þetta sem allra fyrst því að kjarnorkan er að koma! Þetta verður allt saman úrelt!
Ameríski herinn hafði aðsetur í sveitinni. Höfðuð þið einhver samskipti við hermennina?
Fyrst þegar við komum voru hér hermannabraggar út um allt. Það var kallað melurinn þar sem þeir bjuggu. Það var kunningsskapur við einn og einn og það þurfti sérstakan passa til að fara í gegnum kampinn til þess að komast að stöðvarhúsinu og ef fara þurfti til Reykjavíkur.
Síðan kom Reykjalundur. Þeir byrjuðu starfsemi í hermannabröggum en þar var lækningastofa og nokkur rúm sem sjúklingar voru látnir liggja í ef að þeir voru veikir. Svo var þetta drifið upp. Þarna voru eingöngu berklasjúklingar og höfðum við mikið samneyti við þá. Þeir sem höfðu fótavist komu gangandi hingað niður eftir.
Hvenær hófst skógræktin?
Hitaveitan byrjaði á því að planta trjám meðfram ánni og upp með veginum sem liggur upp að Reykjalundi. Við fengum viðurkenningu frá hreppnum fyrir góða umhirðu hér á svæðinu. Síðan fór Reykjalundur að planta hinum megin við veginn. Oddur læknir var mikill hugsjónamaður. Hann var mjög góður við okkur og við leituðum alltaf til hans þegar við vorum veikir.
Hvernig var félagslífið?
Félagslífið var ágætt. Það voru haldin vetrarböll eða hjónaböll. Það þótti merkilegt þegar Hlégarður var byggður og voru Mosfellingar ákaflega stoltir af samkomuhúsinu sínu.
Svo var heilmikið um að vera við ullarverksmiðjuna að Álafossi?
Það breyttist mikið þegar herinn kom. Hann yfirtók þetta allt saman. Það var ekki hægt að fara í sundlaugina því hermennirnir voru þar öllum stundum og einhvern veginn lamaðist allt eftir að herinn fór. Það breyttist hugsunarhátturinn.
SP
Viðtalið var tekið í byrjun nóvember 2007 og birt í Íbúanum, fréttablaði Varmársamtakanna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:57 | Facebook
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.