Arkitektónísk ráðgáta í Álafosskvos

Helgafellsvegur tengdur KvosSkipulag Álafosskvosar var til umræðu á fundi sem Mosfellsbær hélt með íbúum í Listasal Mosfellsbæjar í gær. Áslaug Traustadóttir arkitekt kynnti tillögur að skipulagi og svaraði fyrirspurnum fundargesta.
Góðu fréttirnar eru að bæjaryfirvöld virðast ætla að vinna skipulagstillögu um kvosina í samvinnu við íbúa og var stofnaður fjögurra manna rýnihópur sem vinna á með arkitektum að nýrri tillögu. Á fundinum var varpað fram þeirri spurningu hvaða vægi tillögur íbúa og rýnihóps fengju við afgreiðslu tillögunnar og er þeirri spurningu enn ósvarað.

Slæmu fréttirnar eru þær að of lítið pláss er fyrir vegtengingu inn í Álafosskvos frá Helgafellsvegi og engin góð lausn í sjónmáli. Eini möguleikinn að mati arkitekts er að leggja tengistút frá núverandi Álafossvegi upp á Helgafellsveg á móts við Álafossveg 21 (lítið einbýlishús á bökkum Varmár við brúna sem Sigurjón Pétursson á Álafossi byggði).
Gallinn á þeirri tengingu er að þarna er mikill hæðarmunur og mun tengingin verða erfið aðkomu og spilla landslagi Kvosarinnar ennfrekar en orðið er. Gatnamót í kvosinni munu leiða af sér mikla hávaðamengun auk þess sem loftmengun vegna kyrrstöðu bíla við gatnamót magnast mjög.
Áður voru uppi tillögur um að tengja Álafossveg við Helgafellsveg fyrir utan byggðina í Kvosinni. Þar sem landslag er afar óhentugt til vegagerðar og vegurinn of nærri Varmá hefur verið horfið frá því skipulagi.
Ljóst er að arkitektar eru enn að velta fyrir sér hvernig tengja megi Álafosskvos við Helgafellsveg nú eftir að búið er að malbika tengibrautina. Þykir mönnum það ansi seint um rassinn gripið og í rauninni staðfesta þá gagnrýni sem Varmársamtökin hafa haft í frammi um bútasaum bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ í skipulagsmálum.

Búið er að þrengja með þeim hætti að Álafossvegi að þar geta bílar ekki lengur mæst. Hefur ófremdarástand skapast við innkeyrsluna og vilja sumir fá úrlausn mála strax en aðrir fara sér hægt og vanda til verksins. Á fundinum var spurt um afdrif húsanna sem liggja neðst í Brekkulandi og Helgafellsbyggingar hafa leyst til sín. Eðlilegt væri að nota það svæði til að rýmka fyrir vegagerð utan kvosarinnar. Bæjarstjóri upplýsti hins vegar á fundinum að verktakinn væri búinn að sækja um leyfi til að byggja tvö einbýlishús á annarri lóðinni en að húsið á hinni lóðinni fengi að standa.

Ljóst er að íbúar í Mosfellsbæ eru margir hverjir forviða yfir því verklagi sem hér hefur verið lýst enda spurði íbúi að Álafossvegi 21 arkitektinn hvernig hægt væri að klúðra málum með þessum hætti.

sp

Útimarkaður Álafosskvos 300
Litla húsið er Álafossvegur 21 en gert er ráð fyrir gatnamótum (tengistút) úr Kvosinni upp á Helgafellsveg til hliðar við húsið vinstra megin. Myndin var tekin áður en tengibrautin var lögð og sést hún því ekki á myndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband