Björninn unninn í umhverfismálum

Mikill áfangi náðist í umhverfismálum á Íslandi á dögunum þegar ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ákvað að fullgilda Árósasamninginn en með innleiðingu hans fá m.a. umhverfisverndarsamtök skýlaust umboð til að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda í umhverfismálum.

Árósasamingurinn er alþjóðlegur samningur sem Íslendingar undirrituðu á ráðherrafundi um umhverfi í Evrópu fyrir 11 árum. Allar þjóðir Evrópusambandsins og Norðurlanda hafa innleitt hann í sína löggjöf en á Íslandi hefur framkvæmdin hingað til strandað á vilja ráðherra í Sjálfstæðisflokknum til að aðlaga íslensk lög að samningnum.

Árósasamningurinn byggir á markmiðum sjálfbærrar þróunar sem ætlað er að tryggja rétt núlifandi og komandi kynslóða til að lifa í heilbrigðu umhverfi. Með samningnum öðlast réttindi í umhverfismálum því sömu stöðu og önnur mannréttindi, þ.e. fullnægjandi umhverfisvernd verður undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda s.s. heilbrigðis og velferðar. 

Réttindin sem Árósasamningurinn tryggir almenningi eru þríþætt: (1) aðgangur að upplýsingum um umhverfismál; (2) þátttaka í ákvarðanatöku og (3) aðgangur að réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila..

Mikill fengur er í því fyrir umhverfissamtök að ríkisstjórnin skuli nú ætla að hrinda Árósasamningnum í framkvæmd hér á landi. En hingað til hafa slík samtök haft mjög takmörkuð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda í umhverfismálum.

Ástæða þess að Ísland hefur enn ekki fetað í fótspor Evrópuþjóða er að fyrrum dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, stóð í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum á réttarfarsreglum til að tryggja rétt almennings til að bera undir dómstóla eða annað óháð úrskurðarvald ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið. Í ráðherratíð sinni þrengdi Björn t.d. ákvæði í lögum um gjafsókn en skv. þingsályktunartillögu um samninginn er almenningi nú opnuð aðild að slíkum málum honum að kostnaðarlausu.

Hingað til hefur rétturinn til að kæra verið bundinn við eignarrétt eða verið háður því að kærandi hafi aðra lögvarða hagsmuni sem verið hafa afar þröngt skilgreindir. Með breytingunni verður því stigið stórt skref í þá átt að bæta réttarstöðu samtaka sem láta sig umhverfisvernd varða.

Mikilvægt er að stjórnkerfið virði og fylgi eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar þannig að yfirlýsingin öðlist annað og meira en táknrænt gildi. Gangi það eftir ætti björninn að vera að fullu unninn!

Sigrún Pálsdóttir

Heimild: Tillaga til þingsályktunar, 126. löggjafarþing 2000-2001. Þingskjal 1032.

Skýrsla Árósanefndar

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband