Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Seljum heita vatnið því kjarnorkan er að koma!

- viðtal við Örn Steinsson fyrrum vélstjóra í dælustöðinni við Varmá í Mosfellsbæ
Örn hóf störf í dælustöð Hitaveitu Reykjavíkur við Varmá um það leyti sem dælurnar voru settar í gang og vann hann þar samfleytt í 40 ár, þar af þrjátíu og þrjú ár undir stjórn Höskuldar Ágústssonar, stöðvarstjóra. Blaðamaður Íbúans heimsótti Örn sem nú er áttatíu og sex ára gamall og býr á Hrafnistu í Reykjavík.
Þú varst vélstjóri í dælustöðinni við Varmá. Í hverju fólst þín vinna?
Örn Steinsson vélstjóriÉg stjórnaði dælunum sem voru drifnar áfram af rafmagnsmótorum og dældu vatninu til Reykjavíkur. Það voru vaktir allan sólarhringinn í stöðinni og voru vaktaskipti lengi vel kl. fjögur að nóttu. Húsið hér fyrir ofan var byggt til þess að við gætum verið sem næst stöðinni en þar bjuggu tveir vélstjórar í öðrum enda hússins og stöðvarstjóri í hinum helmingnum. Þetta þótti nú frekar langt frá Reykjavík í þá daga.
1. desember 1943 byrjuðum við að dæla í hús í Reykjavík. Frá 1. nóvember dældum við í sjálfar Elliðaárnar til þess að hreinsa pípurnar. Eftir það fórum við að dæla inná geymana í Öskjuhlíðinni.
Hvernig var umhorfs í Mosfellssveit þegar þú komst hingað?
Þetta var alveg yndisleg sveit. Hér voru eingöngu sveitabýli. Merkustu býlin í Reykjadalnum voru Reykir, Sólvellir, Akrar og síðan Helgafellsbýlið.
Voru hverirnir áberandi á yfirborðinu?
Það bar svo sem ekki mikið á hverunum. Það þurfti að bora eftir vatninu. Til að byrja með niður á 250 m dýpi.  Í dag eru holurnar mun dýpri. Svo var hætt að bora á Reykjum og vatn sótt yfir í Mosfellsdalinn. Þar var vatnið töluvert heitara. Upp við Reyki runnu litlir, heitir lækir. Það voru bændurnir sem fengu hugmyndina að því að bora eftir vatninu. Þeir sáu náttúrulega vatnið koma heitt upp úr jörðinni.
Í upphafi voru þetta svona 83° C en hitastig lækkaði smám saman og var komið niður í 80°C þegar ég hætti.
Var mikil gufa í Reykjahverfi?
Það fylgdi því mikil gufa þegar borað var eftir vatninu. Hún kom upp af sjálfu sér. Það varð að hleypa hitanum út. Sérstaklega þegar hlýtt var í veðri var vatninu hleypt í ána og þá fylltist allt af gufu. Það var voða mikil rómantík í sambandi við þetta.
Voru gufuböð í sveitinni?
Nei, það var ekkert svoleiðis en það var útisundlaug við Álafoss og þar fóru menn stundum í bað.
Kynntist þú þýskum líffræðingi sem var að vinna að hverarannsóknum í Reykjahverfinu ?
Já, honum Schwabe. Hann sat oft og kjaftaði við okkur niðri í stöð. Hann spáði því að vatnið myndi vera orðið kalt eftir 50 ár. En það reyndist ekki rétt.
Schwabe var mikið að grúska og mældi hann vatnsmagnið í hverunum og gerði rannsóknir á lífverum í vatninu. Við vorum með lítinn pott sem heitt vatn var látið renna í. Í því voru einhverjar verur og var hann að kanna hve mikinn hita þær þyldu. Fræðimenn úr bænum komu vikulega og gerðu úttekt á þessu. Þetta var mjög merkilegt fyrirtæki.
Manstu hvað þið dælduð miklu vatni til Reykjavíkur?
Dælustöðin var mikill happagripur fyrir Reykvíkinga. Við dældum í upphafi um 300 lítrum á sekúndu. Eftir því sem við boruðum dýpra þeim mun meira og heitara var vatnið. Fyrst var það látið renna upp af sjálfu sér en það var ekki nóg. Var því brugðið á það ráð að blása í holurnar lofti til þess að reyna að lyfta vatninu upp. Súrefnið olli hins vegar vandræðum og tærði rörin. Því voru settar dælur í holurnar.
Það er oft talað um að það hafi verið svo mikil mengun af kolareyk á veturna áður en að hitaveitan kom.
Já, ég var vélstjóri á sjó áður en ég fór að vinna í dælustöðinni. Séð utanað var alveg kolsvartur mökkur yfir Reykjavík. Eftir að hitaveitan kom bar sáralítið á mengun.
Ertu sammála því að heita vatnið sé undirstaða velmegunar á Ísland ? 
Já, ég er nú ansi hræddur um það. Kolainnflutningurinn datt bara alveg niður eftir að hitaveitan kom. Ýmis vandamál komu þó upp. Það var t.d. ekki nægilegt vatn til að hita upp alla borgina. En síðan fóru þeir að bora dýpra. Það gekk ekki vandræðalaust að finna stærri bor en á endanum tókst það. Gamli borinn var kallaður Gullborinn. Hann hafði verið nýttur til að bora eftir gulli á svæðinu þar sem Reykjavíkurflugvöllur er núna. 
Fengu Mosfellingar heitt vatn strax eða kom það seinna?
Þeir fengu ekki vatnslögn fyrr en löngu seinna. Mig minnir að Reykjabændur hafi selt sín heitavatnsréttindi á sextíu þúsund. Það var allt sem þeir fengu.
Hljóðaði samningurinn ekki upp á hundrað og fimmtíu þúsund? 
Þeir fengu bara sextíu þúsund fyrir heita vatnið. Svo fór Hitaveitan að kaupa í Mosfellsdalnum. Það voru læti út af því. Það voru margir sem að vildu ekki selja heita vatnið. Ég man eftir almennum fundi sem haldinn var í sveitinni. Þar stóð Kristinn á Mosfelli upp og sagði: “Við skulum bara selja þetta sem allra fyrst því að kjarnorkan er að koma!  Þetta verður allt saman úrelt!”
Ameríski herinn hafði aðsetur í sveitinni.  Höfðuð þið einhver samskipti við hermennina?
Fyrst þegar við komum voru hér hermannabraggar út um allt. Það var kallað melurinn þar sem þeir bjuggu.  Það var kunningsskapur við einn og einn og það þurfti sérstakan passa til að fara í gegnum “kampinn”  til þess að komast að stöðvarhúsinu og ef fara þurfti til Reykjavíkur.
Síðan kom Reykjalundur. Þeir byrjuðu starfsemi í hermannabröggum en þar var  lækningastofa og nokkur rúm sem sjúklingar voru látnir liggja í ef að þeir voru veikir. Svo var þetta drifið upp. Þarna voru eingöngu berklasjúklingar og höfðum við mikið samneyti við þá. Þeir sem höfðu fótavist komu gangandi hingað niður eftir. 
Hvenær hófst skógræktin?
Dælustöðin v Varmá í MosHitaveitan byrjaði á því að planta trjám meðfram ánni og upp með veginum sem liggur upp að Reykjalundi. Við fengum viðurkenningu frá hreppnum fyrir góða umhirðu hér á svæðinu. Síðan fór Reykjalundur að planta hinum megin við veginn. Oddur læknir var mikill hugsjónamaður. Hann var mjög góður við okkur og við leituðum alltaf til hans þegar við vorum veikir.
Hvernig var félagslífið?
Félagslífið var ágætt.  Það voru haldin vetrarböll eða hjónaböll. Það þótti merkilegt þegar Hlégarður var byggður og voru Mosfellingar ákaflega stoltir af samkomuhúsinu sínu.
Svo var heilmikið um að vera við ullarverksmiðjuna að Álafossi?
Það breyttist mikið þegar herinn kom. Hann yfirtók þetta allt saman. Það var ekki hægt að fara í sundlaugina því hermennirnir voru þar öllum stundum og einhvern veginn lamaðist allt eftir að herinn fór. Það breyttist hugsunarhátturinn.
SP

Viðtalið var tekið í byrjun nóvember 2007 og birt í Íbúanum, fréttablaði Varmársamtakanna


Nýr miðbær í Reykjavík

Viðtal við Margréti Harðardóttur arkitekt um tillögu Studio Granda, Gullinsniðs og Argos að nýju miðbæjarskipulagi í Reykjavík
Margrét Harðardóttir arkitektUndanfarin misseri hefur mikið verið rætt um skipulag miðbæjar Reykjavíkur og þá sérstaklega hvernig og hvort hægt sé að gera hann meira aðlaðandi fyrir fólk. Svipuð umræða hefur átt sér stað í Mosfellsbæ og er endurskoðun miðbæjarins nú hafin. Arkitektastofan Studio Granda hefur getið sér gott orð fyrir hugmyndaauðgi og fallegar byggingar og tóku arkitektar stofunnar nýverið þátt í hugmyndaleit um skipulag miðbæjar Reykjavíkur. Þrjár stofur unnu í sameiningu að hugmyndinni sem varð hlutskörpust en alls tóku 6 aðilar þátt í leitinni sem snerist um umgjörð Lækjartorgs, frá Tryggvagötu að Skólastræti.
Margrét Harðardóttur rekur ásamt eiginmanni sínum, Steve Christer, Studio Granda en þau eru m.a. arkitektar að Ráðhúsi Reykjavíkur og húsi Hæstaréttar. Blaðamaður Íbúans bankaði upp á hjá Margréti til að forvitnast nánar um þær hugmyndir sem liggja að baki tillögunni að nýjum miðbæ í Reykjavík og hvaða ráð hún gæti gefið Mosfellingum í tengslum við nýtt miðbæjarskipulag.
- Hvaða hugmyndir liggja að baki ykkar tillögu að skipulagi  miðbæjar Reykjavíkur?
Saga Reykjavíkur er mjög mikilvæg fyrir okkar menningu. Okkar vinna snérist því um að varðveita, skynja og styrkja sögu miðbæjarins frá gamalli tíð til 20. aldar. Við leituðum uppi byggingar, gleymda staði og starfsemi sem hafa einhvern styrk í sér fólginn fyrir mannlífið í borginni.  Okkar markmið var að vekja þennan borgarhluta af Þyrnirósarsvefni. Í miðbænum er ótrúlega góður efniviður og hægt að laða fram mjög góða hluti ef maður bara veitir þeim eftirtekt. Við ákváðum að þvinga borgina ekki í eitthvað sérstakt horf. Reykjavík hefur vaxið mjög óskipulega. Það ægir öllu saman, misstór hús frá mismunandi tímum standa hlið við hlið. Það hefur alltaf verið litið á þetta sem eitthvað hræðilegt en þetta er okkar raunveruleiki, okkar menning, okkar borg. Við lítum á margbreytileikann sem styrk og við ætlum ekki að afmá hann. Þetta er það sem okkar samfélag hefur skilið eftir sig og er þess vegna mikilvægt. Gallar eru hluti af okkar eðli og því mikilvægt að byggðin endurspegli þá áfram.
Við gerðum tillögur um hvar ætti að byggja nýtt, hvar ætti að vernda eða færa til fyrra horfs. Einnig um hvar nauðsynlegt væri að bæta við en halda samt í upprunalega gerð húsa. Það muna enn margir eftir gamla Nýja bíói og Rósenbergkjallaranum sem var mjög vinsæll staður. Við lögðum til að endurgera húsið frá grunni. Þetta er mjög skrýtin bygging og ennþá leifar eftir af henni. Það er því hægt að ná henni til baka aftur. Hún á sér djúpar rætur og minningar í samfélaginu þannig að það hefur líka tilgang.
Miðbæjarskipulag í ReykjavíkGamla Landsyfirréttarhúsið, Austurstræti 22, á sér merkilega sögu en í gegnum tíðina hefur húsið verið afskræmt. Þetta hús er eina konungshöllin sem Íslendingar hafa átt því þegar Jörundur Hundadagakonungur steypti Trampe greifa gerði hann húsið að konungshöll.  Við höfum ekki tekið afstöðu til þess í hvaða formi húsið verður endurbyggt en við höllumst að því að færa það aftur til þess horfs sem það var þegar Jörundur Hundadagakonungur bjó hér og ríkti yfir Íslandi árið 1809. Það á engin önnur þjóð svona látlausa, litla konungshöll.
En þessi umræða er viðkvæm því það er mikill ábyrgðarhluti að fara til baka í tíma. Við erum ekki í öllum tilfellum hlynnt því en teljum samt nauðsynlegt að horfa til fortíðar þar sem tengingin við framtíðina er í gegnum fortíðina. Það er mjög mikilvægt að borgir fái að halda áfram að þróast eins og þessi hús hafa alltaf gert en það getur verið ástæða til að leyfa sumum húsum að stöðvast í tíma. Landsyfirréttur er það hús sem fer lengst til baka í tíma í tillögunni. Tilgangurinn með húsaverndun er að leyfa fólki að skynja gamla tíma. Hús búa yfir einstökum mætti til að ná til fólks og vekja upp tilfinningu fyrir liðinni tíð.
Sum hús hækkum við en höldum þeim samt í þeirri mynd sem þau voru svo sem Austurstræti 20 og Lækjargötu 2. Nú bera húsin í kring þau ofurliði. Sömu sögu er að segja um Hafnarstræti 18. Við enda Lækjartorgs, andspænis Forsætisráðuneytinu, leggjum við til nýbyggingu sem er í mælikvarða og fínleika eldri húsanna og tengist mjög heillegri götumynd í Hafnarstræti. Vestan við Lækjartorg, næst húsi Héraðsdóms, leggjum við til stærri nýbyggingu með minni úr húsum sem voru þarna fyrir svo sem Thomsensmagasíni sem þótti merkilegt hús í gamla daga, sem síðar varð hótel Hekla og Smjörhúsinu. Við vorum jafnvel að hugsa um að gömlu húsin gætu verið holrúm inn í nýju byggingunni og þaðan lægi leið niður í rými undir Lækjartorgi og áfram upp inn í stóran bakgarð við Hafnarstræti.  Við lögðum til að þar yrði Kolaportið sem hefði tengingu við starfsemina undir torginu.
Lækurinn er einn af þessum gömlu minnum sem gáfu byggðinni svolítið líf. Við ákváðum að þrengja Lækjargötu aftur því hún er óþarflega breið. Við breikkum gangstéttina að vestanverðu og rennur lækurinn meðfram henni. Gert er ráð fyrir bílastæðum áfram, minni akreinum og hægari umferð í gegn. Þetta er mikilvæg tenging norður suður, en með breytingunum myndast skemmtilegra svæði fyrir gangandi vegfarendur.
Eitt aðal trompið okkur er garður Árna Thorsteinssonar sem er á bakvið Hressó. Þar var mjög merkilegur skrúðgarður, einn af þeim fyrstu í Reykjavík. Í garðinum sem nú er í algjörri órækt er gamall hlynur og mjög falleg bergflétta upp við vegg. Við leggjum til að garðurinn verði endurvakinn og að allt húsasundið á milli Pósthússtrætis og Lækjargötu verði gert almennilega upp. Í garðinum hittust menn eins og Steinn Steinar og Tómas Guðmundsson og báru saman ljóð sín þegar garðurinn átti sitt blómaskeið. Þetta er einn af þeim stöðum þar sem hægt er að finna skjól en svæðið ber vott um vanrækslu og hér eru tækifæri gjörsamlega vannýtt. Við leggjum til gönguleið í gegnum þessa bakgarða sem margoft er búið að tala um en aldrei hefur verið gert neitt í. Við sjáum fyrir okkur að allar húshliðar sem snúa að þessari bakhlið opnist út að gönguleiðinni. Til þess að hugmyndin virki þurfa verslanir og önnur þjónusta að opna út í bakgarðinn. Svæðið er töluvert stórt og skjólsælt og því hægt að sitja úti.
- Hvernig þróast þetta áfram? Verða þessar hugmyndir að veruleika?
Um það ríkir óvissa eins og er. Norðurhluti svæðisins er orðinn hluti af samkeppni sem Landsbankinn stendur fyrir og er því ekki lengur inni í heildarmyndinni.
Við teljum að deiliskipulag sé í rauninni ekki gott verkfæri til að þróa skipulag. Það sýnir bara brotabrot af því sem þarf, er einungis skýringarmynd sem hefur ekkert með það að gera hvernig borgin þróast. Til að gera gott skipulag þarf sátt meðal eigenda sem eru margir á þessu svæði og skipulagsyfirvalda. Þeir þurfa að vera algjörlega samstíga og sjá sameiginlegan hag sinn í því að samræma aðgerðir. Það sem okkur fannst svo gott var að fulltrúar húseigenda sátu í dómnefnd. Við héldum að það væri komin á sameiginleg sátt fjármagnsins og pólitíkusanna um að byggja á þessum grunni en sú sátt hélt því miður ekki lengur en í tvær vikur.
Mikilvægt er að ná almennri sátt um skipulag. Íbúasamtök eins og Torfusamtökin og íbúar sem hafa áhuga á umhverfinu þurfa að vera með í ráðum og mjög mikilvægt er að rekstraraðilar á svæðinu taki líka  þátt. Þegar þessi grunnur að sátt er kominn er hægt að byrja vinnuna við skipulagið og við erum laus við hið hefðbundna rifrildi sem setur allt á annan endann.
Það þarf mikið til að axla ábyrgðina á nýju miðbæjarskipulagi og það er borgarskipulagið sem þarf að hafa frumkvæði að því að fá alla með. Fyrri borgarstjórnarmeirihluti hélt að mínu mati mjög vel á þessu máli og sýndi mikinn styrk. Við vonum bara að nýi meirihlutinn sýni sama styrk.

... Framhald sjá viðhengi! sp

Viðtalið var tekið í byrjun nóvember 2007 og birt í Íbúanum, fréttablaði Varmársamtakanna


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mosfellsbær elur enn á ágreiningi við íbúa

Brú yfir Varmá ofan ÁlafossEf marka má frétt á mos.is virðast bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ ætla að halda áfram uppteknum hætti og ala á ágreiningi við bæjarbúa um skipulagsmál en á heimasíðu bæjarins er sett fram sú ófyrirleitna staðhæfing að Varmársamtökin hafi endurvakið hugmynd um brú yfir Álanes.
Eins og segir í greininni "Sjónarspil í stað samráðs" hér neðar á blogginu sendu Varmársamtökin í byrjun árs 2007 inn athugasemd vegna deiliskipulags 3. áfanga byggðar í Helgafellslandi þar sem beðið var um að brúin væri tekin af skipulagi. Þessu hafnaði skipulagsfulltrúi í umboði bæjarstjórnar 10. apríl sl. í bréfi til samtakanna.

Í bréfinu sem Varmársamtökin sendu Mosfellsbæ segir í kaflanum Vegagerð við Varmá:
”Akvegur úr Helgafellshverfi yfir Varmá við Álanes stangast á við aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 og því ástæða til að taka hann endanlega út af uppdrætti. Tengibraut yfir Varmá á þessum stað var tekin út af aðalskipulagi við endurskoðun 2002."

Í svari Mosfellsbæjar er þessari tillögu hafnað á eftirfarandi forsendum dags. 10. apríl 2007:
"Það er rétt að tengibraut á þessum stað var felld út úr aðalskipulagi við síðustu endurskoðun. Í aðalskipulaginu var hins vegar í stað hennar gert ráð fyrir "safngötu sem fellur betur að umhverfi Álafosskvosar og árinnar," eins og segir í útgefinni greinargerð aðalskipulagsins, bls. 45.
Nefndin telur óvarlegt á þessu stigi að falla frá gerð þessarar safngötu, en telur jafnframt rétt að þörf fyrir fyrirgötuna verði endurmetin síðar, eftir að hverfið hefur byggst upp."

Áróðursbragð bæjaryfirvalda þess efnis að Varmársamtökin hafi endurvakið hugmyndir um að leggja brú yfir Álanes (Reykjalundarskóg) staðfestir ennfrekar þá skoðun að bæjarstjórnarmeirihlutinn ætli enn að ala á ágreiningi við bæjarbúa um skipulagsmál í stað þess að leysa þau á skynsamlegan hátt.
Á vef Mosfellsbæjar segir að bæjaryfirvöld og Helgafellsbyggingar hafi orðið sammála um að vegurinn væri óþarfur í kjölfar þess að Varmársamtökin hafi vakið upp hugmyndina um að leggja veg yfir Varmá við Álanes/Reykjalundarskóg. Skjalfest sendur hins vegar að samtökin lögðu til í febrúar að vegurinn yrði tekin út af skipulagi og fá síðan í apríl það svar að bæjaryfirvöld geti ekki fallist á þá tillögu. Hvers vegna í ósköpunum var hugmynd okkar hafnað fyrst þið voruð henni sammála? Er það embættismönnum bæjarins virkilega sæmandi að bera þau ósannindi á borð fyrir bæjarbúa að brú sem er á skipulagsuppdrætti sé hugmynd Varmársamtakanna og það á heimasíðu Mosfellsbæjar?


Samningur Mosfellsbæjar stangast á við aðalskipulag

Gröfur við ÁlafosskvosVarmársamtökin vilja koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við hlustendur Ríkisútvarpsins vegna fréttar í morgunútvarpi 12. desember.

Í morgunútvarpi Rúv kl. 8 var skýrt frá því að samningur Mosfellsbæjar við landeigendur í Helgafellslandi tengdist ekki ágreiningi íbúa við bæjaryfirvöld um skipulagsmál. Þessu til áréttingar vilja Varmársamtökin koma því að framfæri að samningur Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar staðfesti svo ekki verður um villst að íbúar hafi haft ærna ástæðu til að kvarta undan vinnubrögðum Mosfellsbæjar í skipulagsmálum og komi því þeim ágreiningi sem uppi eru í bæjarfélaginu mikið við. Strax í 1. gr. samningsins framselur Mosfellsbær skipulagsvald sitt til verktakans en þar segir m.a.: "Mosfellsbær skal afgreiða til kynningar án verulegra tafa tillögu að deiliskipulagi fyrir hvern verkhluta fyrir sig, eftir að endanleg deiliskipulagstillaga hvers áfanga liggur fyrir að mati beggja samningsaðila." Með því að gera deiliskipulagstillögur að samningsatriði við einkaaðila  framselur Mosfellsbær skipulagsvaldið frá bæjarfélaginu til verktakans. Skv. samningnum  á umfang deiliskipulags að ráðast af viðkomandi verkhluta. Frumkvæði að deiliskipulagningunni er því ekki á hendi bæjarfélagsins heldur verktakans.
Í sömu grein er einnig gerður samningur um að byggja skuli u.þ.b. 1020 nýjar íbúðir. Þessi tala stangast á við gildandi aðalskipulag sem gerir ráð fyrir 816 íbúðum. Fjölgun íbúða er síðan staðfest í 4. gr. samningsins en þar segir: "Að lágmarki skal greitt fyrir 1020 íbúðir á svæðinu eða minnst kr. 714 000 000 ... . " Í 15. gr. er samkomulagið staðfest ennfrekar en þar segir: "Forsendur samkomulags þessa eru þær að nauðsynlegt skipulag hvers áfanga nái fram að ganga enda skuli Mosfellsbær afgreiða skipulag á öllum stigum án óeðlilegra tafa." Þetta þýðir að umsamin aðalskipulagsbreyting er sett sem skilyrði fyrir samningnum. Enginn fyrirvari er í samkomulaginu um að hún nái ekki fram að ganga, heldur er sett sem skilyrði að Mosfellsbær vinni eftir samkomulaginu og afgreiði nauðsynlegt skipulag hvers deiliskipulagsáfanga án óeðlilegra tafa. Fyrirvari í 15. gr. er því settur til að vernda hagsmuni Helgafellsbygginga, ekki Mosfellsbæjar og rétt íbúa til þátttöku í skipulagsferlinu.
Skv. lögum skal vinna deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags auk þess sem kynna verður fjölgun íbúða fyrir bæjarbúum áður en íbúðafjölda er breytt í aðalskipulagi. Ljóst er að Mosfellsbær virðir ekki þessi ákvæði laganna áður en hann gengur til samninga við verktaka.
Ákvæði samnings Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar um lagningu fráveitu fyrir Helgafellshverfi og kostnað við hana geta vart verið skýrari. Í 3. gr. samningsins segir orðrétt: "Félögin skulu einnig veita aðgengi fyrir lagningu dreifikerfis vatns- og hitaveitu frá skilgreindum tengistað og að heimæðum húsa, en Mosfellsbær kostar alla lagningu þessara veitna og í því sambandi mun Mosfellsbær leita leiða til að ná samningum við undirverktaka félaganna um uppbyggingu vatns- og hitaveitu samhliða annari uppbyggingu á svæðinu.
... Mosfellsbær mun sjá um og kosta stofnlagnir fráveitna að skilgreindum tengistöðum á svæðinu sem og tengingar svæðisins við núverandi gatnakerfi bæjarins, sbr. fskj. 3. Mosfellsbæ er skylt að sinna framkvæmdunum samhliða því að félögin vinna að framkvæmdum á hverju svæði."
Eins og þessi tilvitnun ber með sér brýtur sú staðhæfing bæjaryfirvalda, að kostnaður við veituframkvæmdir í vegstæði tengibrautarinnar sé alfarið á hendi verktakans, í bága við samninginn. Þetta ósamræmi þurfa bæjaryfirvöld að skýra fyrir skattborgurum í Mosfellsbæ.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún í síma 866 9376

Tenging á frétt hér
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item181916/


Sjónarspil í stað samráðs

- Gluggað í samninga Mosfellsbæjar við landeigendur  

Helgafellsbraut í byrjun júlí 2007Varmársamtökin fengu í síðasta mánuði aðgang að samningum bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ við landeigendur um uppbyggingu í Helgafellslandi. Voru samningar þessir undirritaðir 2. júní 2006, sama dag og Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir innsigluðu meirihlutasamstarfið í kjölfar sveitarstjórnarkosninga.

Samningar Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar
Samningar þessir sýna svo ekki verður um villst að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ þurfa að taka verklagsreglur í tengslum við skipulagsgerð og samskipti við íbúa til rækilegrar endurskoðunar – svo ekki sé meira sagt. Hafa bæjaryfirvöld í þessu máli bæði farið á svig við skipulagslög og sannleikann í málflutningi sínum. Er þar fyrst að nefna að samningurinn var undirritaður hálfu ári áður en deiliskipulag Helgafellsvegar tók gildi en það gerist ekki fyrr en 2. janúar sl. Sem þýðir að samkomulagið var frágengið áður en ágreiningur við íbúa var útkljáður og úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafði úrskurðað um réttmæti skipulagsins. Í annan stað kveður samningur hins nýbakaða meirihluta á um fimmtungs stækkun byggðar í Helgafellslandi, úr 816 nýjum íbúðum í 1020, í trássi við gildandi aðalskipulag – og án nokkurra fyrirvara. Í þriðja lagi er samið um að Mosfellsbær sjái um að leggja stofnlagnir og aðrar lagnir á eigin kostnað að hverfinu í samstarfi við undirverktaka Helgafellsbygginga. Í fjórða lagi er gerður samningur um lagningu tengibrautar um Álafosskvos sem Helgafellsbyggingar, eins og kunnugt er, samþykktu að fjármagna.

Brú yfir Varmá ofan ÁlafossÍ fimmta lagi gerir Mosfellsbær samning um að leggja brú yfir Varmá ofan Álafoss þar sem segir: "Mosfellsbær skal bera fulla ábyrgð og kostnað af hönnun, byggingu og frágangi akstursbrúar yfir Varmá, ... .” (bls. 2)

 

Ágreiningur magnaður upp með rangfærslum
Hið síðastnefnda hrekur þær þrálátu rangfærslur bæjaryfirvalda, að hugmyndin um brú yfir Varmá ofan Álafoss sé frá Varmársamtökunum komin, en þessu er m.a. haldið fram í umhverfisskýrslu sem Mosfellsbær lét vinna í vor. Sannleikurinn er sá að þegar þriðji áfangi deiliskipulags Helgafellslands var kynntur íbúum fóru samtökin fram á að bæjaryfirvöld tækju brú á þessum stað út af skipulagi en því var hafnað. Þessi staðreynd kom þó ekki í veg fyrir að þáverandi bæjarstjóri, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnar og fleiri úr þeirra röðum þrástöguðust á því að samtökin vildu leggja veg í gegnum Reykjalundarskóg en hann á sér djúpar rætur í hjörtum Mosfellinga. Höfum við ítrekað reynt að hreinsa okkur af þessum áburði og bent á að þar sem vegurinn er staðsettur þarna skv. aðalskipulagi sé eðlilegt að sýna hann á uppdráttum af svæðinu, íbúum til glöggvunar. En allt kom fyrir ekki, meirihlutinn hélt sig við sínar rangfærslur og á endanum kærðu samtökin bæjarstjórn fyrir valdníðslu til úrskurðarnefndarinnar. Ljóst er að samningurinn sem Ragnheiður gerði á fyrsta degi samstarfs við Karl tekur af allan vafa um hvaðan hugmyndin að vegi yfir gamla sundlaugarstæðið í Varmá ofan Álafoss er ættuð. Þegar íbúar mótmæltu ólöglegri vegagerð í Álafosskvos í vor, héldu bæjaryfirvöld fast í þá skýringu, að einungis væri verið að leggja fráveitu. Fór þar fremstur í flokki formaður skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson, núverandi bæjarstjóri. Fyrirrennari hans, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, vílaði heldur ekki fyrir sér að halda því fram í sjónvarpi að lagnagerðin væri alfarið á ábyrgð framkvæmdaaðila. Á samningnum má hins vegar sjá – svart á hvítu - að verið var að vinna verkið fyrir Mosfellsbæ. Höfundur Reykjavíkurvíkurbréfs sá 18. ágúst sl. ástæðu til að taka þennan blekkingarleik bæjaryfirvalda til umfjöllunar: "Hinn almenni borgari á kröfu á því, að umræður um þessi mál fari fram á málefnalegan hátt og að rétt orð séu notuð um það, sem verið er að gera. Þess vegna er skynsamlegra fyrir þá, sem ráða ferðinni hjá Mosfellsbæ, að segja hreint út að þeir hafi lagt vinnuveg til þess að greiða fyrir umferð til og frá byggingarsvæði en að vegur sem blasir við allra augum sé lagnaframkvæmd! Það er ágætt að vera fyndinn en gamanið getur stundum orðið grátt."

Skaðabótaskylda Mosfellsbæjar
Heyrst hafa þær raddir að Mosfellsbær hafi með ótímabærri undirritun samningsins gert bæjarfélagið skaðabótaskylt gagnvart landeigendum í Helgafellslandi. Lýðræðislegur réttur íbúa til áhrifa var því framseldur Helgafellsbyggingum áður en skipulagsferlinu lauk. Í stað þess að koma hreint fram og skýra vonlausa samningsstöðu fyrir íbúum kusu bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að magna upp ágreining í bæjarfélaginu með misjafnlega augljósum blekkingum. En hver var tilgangurinn? Er bærinn skaðabótaskyldur gagnvart þeim hagsmunaaðilum sem hunsaðir voru í samningnum? Eða voru sjónhverfingarnar bara til að sýna því fólki sem vill láta náttúru, ásýnd og sögu Mosfellsbæjar njóta vafans, lítilsvirðingu? Já – eins og höfundur Reykjavíkurbréfsins sagði: “Það er ágætt að vera fyndinn en gamanið getur stundum orðið [of] grátt."

sp

Samningur Mosfellsbæjar v landeigendur - útdráttur


Hver á umhverfið? - Stefnumót við framtíðina

Framtíðarlandið efnir til opins morgunfundar miðvikudaginn 5.  desember frá kl. 9 til 10 í fundarsal Norræna hússins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, verður sérstakur gestur fundarins en að lokinni tölu hennar verða pallborðsumræður.

Í pallborði sitja eftirtaldir, auk umhverfisráðherra:

  • Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar
  • Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur
  • Fundarstjóri er Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og meðlimur í  sérfræðingaráði Framtíðarlandsins.

Umfjöllunarefni fundarins er staða lýðræðis-, skipulags- og umhverfismála með hliðsjón af Árósasamningnum. Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Á fjórða tug ríkja í Evrópu eru aðilar að samningnum og hafa öll Norðurlöndin fullgilt hann nema Ísland. Þar sem samningurinn tryggir að almenningur og félagasamtök sem starfa að umhverfismálum eigi lögvarða hagsmuni þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið má telja að fullgilding hans myndi breyta miklu fyrir frjáls félagasamtök.

Fyrir alþingiskosingar í vor lýsti Samfylkingin yfir vilja til að staðfesta Árósasáttmálann og því er forvitnilegt að vita hvort umhverfisráðherra muni beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að hann verði  fullgiltur. Að sama skapi er áhugavert að ræða hvaða áhrif fullgilding hans muni hafa,  t.d. á umhverfi orkufyrirtækja og umhverfismála almennt á Íslandi. Staða frjálsra félagasamtaka á Íslandi myndi að líkindum taka stakkaskiptum t.a.m. hvað varðar gjafsóknir og hverjir geta kallast lögaðilar að málum en einnig hvað varðar fjárstuðning til þess að kanna og kynna mál – t.d. andstöðu við fyrirhuguð álver og virkjanaáform.

Það hlýtur að vekja athygli að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa fullgilt samninginn þrátt fyrir að öll önnur lönd í kringum okkur hafa gert það..  Eiga komandi kynslóðir það ekki skilið að ákvarðanir um stórframkvæmdir og röskun á umhverfi séu teknar á opinn og gagnsæjan hátt?

Fundurinn á erindi til allra sem eru áhugasamir um lýðræðis-, skipulags- og umhverfismál.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband