Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Jarðýtur gegn lýðræði

Eftir Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndísi Schram
Höfundar svara að bragði grein Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, sem birtist í Mbl. í gær.

Ragnheiði Ríkharðsdóttur, sem situr sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar í skjóli Vinstri grænna, er margt til lista lagt. Þeir sem fylgjast með fréttum, sáu hana í gærkvöldi í beinni útsendingu í gervi útkastara fyrir framan safnaðarheimili Lágafellskirkju. Á þessum fundi ætlaði bæjarstjórinn að reyna að koma vitinu fyrir íbúa Álafosskvosar, sem að undanförnu hafa margir hverjir orðið að leita áfallahjálpar vegna meinbægni bæjarstjórans. En bæjarstjórinn taldi ráðlegra að vinsa sauðina frá höfrunum, verðuga frá óverðugum,  og brá sér þess vegna í gervi útkastarans til að stugga burt grunsamlegum persónum og fréttasnápum.
Í Morgunblaðinu í dag (8.feb.) bregður bæjarstjórinn sér í gervi lýðræðispostulans, þar sem einum er kennt en öðrum bent.  Þar boðar hún lýðræðisleg vinnubrögð, virðingu fyrir skoðunum annarra og umhyggju fyrir umhverfinu. Bara að bæjarstjórinnn gæti nú tollað í þessu vingjarnlega gervi út sólarhringinn. Það væru þá mikil og góð umskipti miðað við reynslu meðlima Varmársamtakanna hingað til af viðskiptum við bæjarstjórann.
Á undanförnum misserum hafa Varmársamtökin, sem kunnugt er, freistað þess að bjarga Álafosskvosinni, starfseminni þar og umhverfi Varmár, frá stöðugri ágengni bæjarstjórnarmeirihlutans. Að fenginni biturri reynslu af samskiptum við bæjarstjórnarmeirihlutann almennt, og bæjarstjórann sérstaklega, hafa samtökin tekið saman eftirfarandi spurningalista. Svörin leiða í ljós fremur óaðlaðandi mynd af ólýðræðislegum vinnubrögðum og virðingarleysi fyrir skoðunum annarra. Spurningarnar varða kjarna málsins og eru eftirfarandi:

1. Hefur verið  haft samráð á öllum skipulagsstigum ferlisins?
2. Er kynning á framkvæmdum í samræmi við lagaskyldu?
3. Hafa bæjaryfirvöld tekið tillit til breytingatillagna Varmársamtakanna?
4. Hefur verið haft tilskilið samráð við Umhverfisstofnun?
5. Hefur yfirlýst stefna Mosfellsbæjar um aðgengi að náttúru- og útivistarsvæðum verið virt?
6. Hefur tilskilin hverfisvernd samkvæmt aðalskipulagi verið virt?
7. Er þess gætt, að hávaðamengun fari ekki yfir leyfileg mörk?
8. Voru kannaðir aðrir kostir á legu tengibrautar en um Álafosskvos?
9. Var tekið tillit til sérstæðrar atvinnustarfsemi í Álafosskvos við gerð skipulagsins?
10. Hafa áætlanir um umferðartengingar við Vesturlandsveg verið kynntar íbúum?
11. Var orðið við tillögum Varmársamtakanna um rannsókn á áhrifum framkvæmdanna á velferð íbúa og umhverfi?
12. Taka skipulagstillögur um Helgafellsland mið af nálægð byggðarinnar við náttúruna?
13. Hefur tengibraut um Álafoss verið í aðalskipulagi Mosfellsbæjar í aldarfjórðung?
14. Er ástand Varmár í takt við sett markmið í aðalskipulagi?
15. Er þess gætt, að lífríki og vatnabúskapur Varmár spillist ekki við framkvæmdirnar?

Stutta svarið við öllum þessum spurningum er því miður einfalt. Svarið er nei. Lengri svör verða látin bíða um sinn.  Þau svör lýsa því miður í löngu máli tómlæti, tillitsleysi, vanrækslu á sjálfsögðum skyldum sveitarstjórnarmanna í meirihluta Mosfellsbæjar og virðingarleysi fyrir skoðunum annarra. Bæjarstjóra Mosfellsbæjar er vissulega margt  til lista lagt, en af einhverjum ástæðum virðist henni láta betur að siga stórvirkum vinnuvélum á friðsama mótmælendur, en að  hlusta af virðingu á rökstudd sjónarmið annarra.


Hert öryggisgæsla í safnaðarheimili

Sú var tíðin að regla var í sveitum að hafa kirkjur opnar. Þannig var það réttur hvers og eins að leita skjóls í húsi "Hans" ef sorg bar að garði eða ef fólki lá mikið á hjarta og vildi leita æðri styrks og krafts. Klukkan fimm í dag var boðað til fundar í safnaðarheimilinu út af máli sem hefur vakið upp umræður og tilfinningar meðal Mosfellinga og reyndar meðal fólks víða um land.  

Í sjónvarpsfréttum sem settu Álafosskvosina í brennidepil þjóðmálanna kom fram að vinnuvélar hafi verið fjarlægðar vegna þess að ekki hafi verið búið að gefa út framkvæmdaleyfi á tilteknum stað í skógarlundi við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi. Jafnframt kemur fram í viðtali við bæjarstjóra að ætlunin sé að funda með Varmársamtökunum og íbúum um málið. Endanlega hönnun brautar o.fl.

Einungis sumir íbúar Álafosskvosar fengu bréf um kynningarfundinn. Hinsvegar var ekkert fundarboð sent á Varmársamtökin eða aðila í stjórnkerfi Mosfellsbæjar sem málið varðar. Upphaf fundarins og undirbúningur verður það sem er fréttnæmt en ekki inntak hans. Í "kirkjudyrunum" stóðu byggingafulltrúi og bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Þau voru þar með krossinn í baksýn að velja út þá sem væru velkomnir á fundinn og hverjir væru það ekki. Fréttamanni sjónvarps var vísað á braut með kuldalegum hætti og þeim sem gátu gert nægjanlega góða grein fyrir sér hleypt inn.

Ef bæjarstjórn hefur góðan málstað að verja, afhverju var þá ekki boðað til opins og almenns fundar með bæjarbúum. Efnt til skynsamlegrar umræðu um það hvernig hægt er að sameina uppbyggingu bæjarins og verndun söguminja og útivistarmöguleika. Inntak fundarins var frekar þurrt og langdregið. Kynning landslagsarkitekts og verkfræðings á hljóðmengun og legu fyrirhugaðrar tengibrautar um Álafosskvos. Fréttamennirnir geta því verið þakklátir fyrir hlut byggingafulltrúans og bæjarstjórans að ná að búa til spennufrétt úr engu.

Nú ef fundur á vegum bæjarfélagsins í safnaðarheimili undir kirkjulegum táknum fær ekki að opna á farveg umræðunnar hjá almenningi í bænum, þá verða aðrir að búa til annað tækifæri til þess, á öðrum stað. Varmársamtökin hafa boðað til almenns borgarafundar um málið í Þrúðvangi, Álafosskvos á laugardaginn klukkan tvö. Fundurinn er öllum opinn.

Gunnlaugur B. Ólafsson


Umhverfisstofnun stendur við alvarlegar viðvaranir sínar

Í dag áttu Varmársamtökin áhugaverðan fund með forstjóra og sérfræðingum Umhverfisstofnunar þar sem fram kom að stofnunin stendur við þær alvarlegu athugasemdir sem hún í tvígang gerði við deiliskipulag tengibrautar um Álafosskvos en umsagnirnar voru unnar að beiðni Skipulagsstofnunar og síðan Umhverfisráðuneytisins. Á fundinum staðfestu fulltrúar Umhverfisstofnunar það mat Varmársamtakanna að hvorki sveitarfélög né ráðuneyti væru þess megnug að fella úr gildi lög um náttúruvernd eins og skilja má á yfirlýsingu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur bæjarstjóra í Mosfellsbæ í dag.

Umhverfisstofnun benti í umsögnum sínum um lagningu tengibrautar um Álafosskvos ítrekað á að Mosfellsbæ bæri að fara að lögum um náttúruvernd. Varmá er frá upptökum til ósa á náttúruminjaskrá og eru ósar hennar auk þess friðlýstir. Þar sem framkvæmdasvæðið liggur að ánni sem rennur eðli málsins samkvæmt í sjó við friðlýsta árósa Varmár í Leirvogi ber Mosfellsbæ að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en gefið er leyfi til framkvæmda við Varmá.

Bagalegt er til þess að vita að bæjarstjóri Mosfellsbæjar skuli leggja allt kapp á að sniðganga lög um náttúruvernd en markmið þeirra er háleitt, þ.e. að koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Engin mótvægisaðgerðaáætlun var unnin af Mosfellsbæ í aðdraganda framkvæmdanna í Helgafellslandi, frekar en endranær. Af hverju var sérfræðingum ekki falið að vinna slíka áætlun? Aur og drulla rennur nú í stríðum straumum frá framkvæmdasvæði Helgafellsbygginga í Varmá. Í leysingum um síðustu helgi tók áin á sig lit jökulsár. Afleiðingar þessa aurburðar eru súrefnisskortur sem kæfir líf í ánni. Hefði ekki verið skynsamlegra að leita sér ráðgjafar til að koma í veg fyrir þessi umhverfisspjöll?
Að mati Varmársamtakanna er tími til kominn að bæjarstjóri Mosfellsbæjar láti sér segjast og fari að dæmi Garðbæinga sem leituðu sér ráðgjafar í umhverfismálum þegar byggð við Urriðavatn var skipulögð. Nágrönnum okkar er greinilega öðruvísi farið enn Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Þeir láta sér annt um náttúruna og gerðu það eina rétta við undirbúning framkvæmda, þ.e. að leita til sérfræðinga til að útiloka möguleikann á meiriháttar umhverfisslysi fyrirfram.

Náttúruspjöll eru nú það sem koma skal í Mosfellsbæ! Hvílík skammsýni!

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news Eftirfarandi athugasemd er þaðan:

Jón Sævar Jónsson skrifaði
Þessi umræða er öll nokkuð merkileg. Ljóst er að aðkoma að fyrirhuguðu byggingarsvæði hefur verið á skipulagi um mjög langt skeið EN það sem hefur breyst er að græðgin hefur tekið völdin. Þeir sem keyptu landið vilja græða sem mest og til þess varð að þétta byggðina eða allt að sexfalda. Þess vegna þarf að reiknað með 10 þúsund bílum á dag á móti kannski 1500-2000 bílum. Það munar um minna. Og þarna brugðust bæjaryfirvöld íbúum. Gáfu eftir fyrir græðginni. Menn skulu einnig hafa það í huga að skipuleggjandi svæðisins er og hefur verið aðalráðgjafi bæjarins um skipulagsmál síðastliðin 20 ár. Eins er þessu farið með vestursvæði Mosfellsbæjar. Þétting til að græða. Er þetta sveit í borg? Svo vitnað sé í nýlegan kosnigaáróður. Í sjálfu sér er ekki við landeigendur að sakast menn eru jú í viðskiptum til að græða. En við kjósum fulltrúa til að gæta hagsmuna okkar íbúanna í bland við hagsmuni verktakanna. Þétting byggðar er í samræmi við yfirlýstar skoðanir núverandi formanns skipu!
lags- og byggingarnefndar sem fram komu á borgarafundi um vestursvæðið. 

Kynningarfundur um mannvirki sem framkvæmdir eru núþegar hafnar við

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa boðað til kynningarfundar um hönnun tengibrautar sem íbúar stöðvuðu framkvæmdir við fyrir viku. Halda á fundinn í dag kl. 17 í safnaðarheimili Lágafellssóknar.
Ekki er um almennan kynningarfund að ræða því aðeins hafa nokkrir útvaldir íbúar Kvosarinnar fengið fundarboð. Finnst íbúum nokkuð einkennilega staðið að fundarboðinu þar sem framkvæmdir eru hafnar sem þýðir að hönnun mannvirkisins hlýtur að liggja endanlega fyrir.

Varmársamtökin hafa frá upphafi deilu um legu tengibrautarinnar fordæmt ólýðræðisleg vinnubrögð bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Ekkert samráð var haft við íbúa og heldur ekkert tillit tekið til athugasemda þeirra varðandi legu tengibrautarinnar. Bæjarstjórn hefur varið sinn málstað með því að fullyrða að tengibrautin hafi verið á aðalskipulagi frá 1983. En hvernig getur það verið réttlæting fyrir legu tengibrautar, sem þjóna á 1200 íbúða byggð og 10 000 bílum á sólarhring, að fyrir tuttugu og fjórum árum var sett safngata sem anna átti umferð frá 200 íbúða hverfi inn á skipulag. Íbúðafjöldi hefur 6 faldast og úr safngötu sem lagar sig að landslagi er orðið heljar mannvirki með stórbrotnum hljóðvarnarveggjum. Hvað er líkt með þessu tvennu?

Í ofanálag hefur allt lagaumhverfi tekið stökkbreytingum. Búið er að setja lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingalög, náttúruverndarlög, lög um varnir gegn mengun vatns, reglugerð um varnir gegn hávaða o.s.frv. Eigum við bara að láta þessar framfarir réttarríkisins sem vind um eyru þjóta? Og hanga í réttlætingu á einhverju skipulagi sem stangast á við öll þessi lög. Aðalskipulög taka dagfarslegum breytingum og eiga líka að gera það.
Og hvað um þá samfélagsþróun sem orðið hefur í Kvosinni sl. 15 ár? Skiptir hún engu máli? Úr gömlu iðnaðarhverfi sem var í algjörri niðurníðslu er orðið til sérstakt samfélag sem m.a. einn af yfirmönnum Ferðamálastofu segir vera skólabókardæmi um sjálfbæra þróun. Hvað með Ríó?

Og yfirhöfuð til hvers er fólk í pólítik sem ekki vill þjóna hagsmunum íbúa? Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur ekki verið tilbúin til samráðs við umbjóðendur sína um legu tengibrautarinnar en látið hafa eftir sér að íbúum verði boðið að skreyta hávaðavarnarmannvirkin sem af framkvæmdinni leiða. Ætli það sé tilgangurinn með fundarboði dagsins í dag?

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


Hvern vernda lögin?

Vegna yfirlýsinga bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að framkvæmdir í Álafosskvos standist lög.

Varmársamtökin furða sig á að framkvæmdir við Álafosskvos geti allar
talist löglegar.  Varmáin er moldarbrún á litinn enda er  mikið rask vegna
framkvæmda í hlíðinni fyrir ofan ána.  Áin er ekki vöktuð (til að meta
lífsskilyrði í ánni)  og engar mótvægisaðgerðir eru sýnilegar á
framkvæmdasvæðinu.  Er slíkt eðlilegt og löglegt á svæði sem hallar að
Varmá sem er á náttúruminjaskrá?  Hvaða vernd gefa náttúruverndarlög og
lög um mat á umhverfisáhrifum?  Vernda þau máske rangan aðila?

Sigrún Guðmundsdóttir og Ævar Örn Jósepsson fyrir Varmársamtökin

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


Á flæmingi undan lögunum

Haft var eftir bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Ragnheiði Ríkharðsdóttur í fréttum í kvöld að lögmaður bæjarins hefði komist að þeirri niðurstöðu að þar sem umhverfisráðherra hafi úrskurðað að lagning tengibrautar um Álafosskvos "bryti ekki í bága við náttúruminjaskrá" hafi Mosfellsbæ ekki borið skylda til að óska eftir umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Bæjarstjóri fer með rangt mál. Úrskurður Umhverfisráðuneytisins snerist ekki um hvort lagning tengibrautar "bryti í bága við náttúrminjaskrá". Hann varðaði kæru Varmársamtakanna á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að vegagerð í Álafosskvos þyrftu ekki að fara í umhverfismat.

Nú hefur komið í ljós að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur staðið að hönnun og
heimilað tengibraut sem þjóna á um og yfir 10 000 bílum á sólarhring steinsnar frá vatnsfalli sem vegna sérstöðu sinnar er á náttúrminjaskrá. Þetta hefur bæjarstjórnin gert án þess að gæta að lögskipuðu ferli sem ætlað er að koma í veg fyrir náttúruspjöll. Hlutverk Umhverfisstofnunar er að gæta þess að friðhelgi landssvæða sem eru á náttúruminjaskrá sé ekki rofin.

Nú hefur verið upplýst að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur ekki leitað eftir lögbundinni umsögn Umhverfisstofnunar um framkvæmdir í Álafosskvos.
Og hver eru viðbrögð bæjarstjórnar þegar hún eru minnt á þessa skyldu?
Jú, þau eru að tefla fram skoðun lögmanns á yfirsjón sinni til að freista þess að gefa athöfnum sínum blæ lögmætis. Viðbrögð bæjaryfirvalda eru táknræn fyrir framkomu þeirra í þessu máli frá upphafi, þ.e. "finnum leiðir til þess að komast fram hjá þessu náttúru- og umhverfisverndarkjaftæði".

Eftir stendur að Umhverfisstofnun hefir vakið athygli á því að bærinn hefur farið fram í þessu máli án þess að gætt hafi verið þeirra lagaákvæða sem gilda um framkvæmdir á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá.

Í eyrum þeirra sem láta sér annt um Álafosskvos hljómar hin nýstárlega túlkun bæjarstjóra á stjórnsýslureglum eins og ávísun á áframhaldandi umhverfisspjöll við Varmá. En á meðan ekki hefur verið leitað lögbundinnar umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir rofi á friðhelgi Varmár stendur sú friðhelgi óröskuð. Allur gröftur og landröskun í Álafosskvos án þess að gætt hafi verið ákvæða þeirra laga sem Umhverfisstofnun ber að framfylgja er lögleysa fyrir utan að vera siðferðilega óverjandi.

Markmið laga og reglugerða á sviði umhverfis- og skipulagsmála er að vernda nátturuperlur og menningasöguleg svæði sem skipta þjóðina máli.

Markmið Varmársamtakanna er að standa vörð um sama málstað.

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
Sími 866 9376

P.S.

Í UPPHAFI SKYLDI ENDINN SKOÐA

AF FRAMKVÆMDASVÆÐI HELGAFELLSBYGGINGA RENNUR
NÚ AUR OG DRULLA Í STRÍÐUM STRAUMUM ÚT Í VARMÁ. EFTIRLIT ER EKKERT OG GREINILEGT AÐ EKKI HAFA VERIÐ GERÐAR RÁÐSTAFNIR TIL AÐ KOMA Í VEG FYRIR UMHVERFISSPJÖLL. HÆTTA ER Á AÐ ALLUR FISKUR OG GRÓÐUR KAFNI Í ÁNNI.
VARMÁRSAMTÖKIN HAFA GERT HEILBRIGÐISEFTIRLITI KJÓSARSVÆÐIS VIÐVART.

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


Um hroka og heigulshátt

Það mun vera leitun á byggðu bóli á Íslandi, þar sem mannanna verk eru jafnólundarlega upp á kant við sköpunarverk náttúrunnar og í Mosfellsbæ. Það þarf ekki að príla hátt í hlíðar Helgafells til að skynja búsæld Reykja- og Mosfellsdals. Þar hefur verið víða gott undir bú. Varmá og Leirvogsá liðast um blómlegt undirlendið. Útsýnið er fagurt og fjallasýn háleit. Við erum hérna á fornum söguslóðum.

Í samanburði við þetta sköpunarverk náttúrunnar verður að játa, í nafni sannleikans, að mönnunum hafa verið mislagðar hendur við að reisa sín mannvirki í sátt við umhverfið. Þjóðvegurinn – Vesturlandsvegur – klýfur byggðarlagið í tvennt. Út um bílrúðuna blasir við vegfaranda kjarni vaxandi bæjarfélags: Kentucky Fried Chicken, Esso-bensínstöð (með samráði) og amrísk vídeóspóluleiga. Hraklegra getur það varla verið. Þetta er eins og sýnishorn af sjónmengun. Hvaða mannvitsbrekkur voru það, sem hugkvæmdist að hrinda hugmyndum sínum um mannlegt samfélag í framkvæmd með þessum hætti? Amrísk bílaborg þar sem þú fyllir tankinn og hámar í þig ruslfæðið inn um bílgluggann og pikkar upp innantóma afþreyingarspólu um leið og þú forðar þér burt af staðnum. Er þetta ekki síðbúin hrollvekja um Mr. Skallagrímsson in the deep south?

Úr því að svona slysalega hefur til tekist um meintan hjartastað byggðarlagsins, ber þeim mun brýnni nauðsyn til að varðveita hið fagra og smáa, sem leynist þó í þessum dal úr alfaraleið. Það er Álafosskvosin á bökkum Varmár. Þar er að finna lítið þorp, sem er upprunalegt og ekta. Mannabyggð sem reis einhvern veginn í réttum hlutföllum og í sátt við umhverfið. Þar er að finna minnismerki um iðnsögu Íslendinga, sem Samtök iðnaðarins ættu reyndar að sjá sóma sinn í að viðhalda og varðveita. Allt reis þetta á bökkum Varmár, sem var aflvaki iðjuverksins og er nú á náttúruminjaskrá frá upptöku til ósa. Þetta er eini staðurinn í Mosfellsbæ, þangað sem útlendir ferðalangar leggja leið sína sér til yndisauka. Og til þess að komast í námunda við sjálfa Sigur Rós, sem gert hefur garðinn frægan í leit að kyrrð og ró. Er til of mikils mælst, að þessi litla perla verði a.m.k. látin í friði af þeim eyðingaröflum, sem hafa breytt Mosfellsbæ í amríska hraðbrautarbúllu? Er það virkilega til of mikils mælst?

Það eru engin rök í þessu máli, að vitlausar tillögur um að eyðileggja þetta umhverfi hafi verið á dagskrá bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í aldarfjórðung. Þeim mun lengri tíma hafa menn haft til að hugleiða mistökin og forðast slysin. Þeir sem vilja koma Helgafellslandinu í verð, geta að sönnu gert það, án þess að þurfa endilega að eyðileggja söguminjar og náttúruperlur í leiðinni. Það eru alltaf til aðrar leiðir, þótt þær kunni að vera ögn dýrari í framkvæmd. Vandinn er ekki tæknilegur. Vandinn er siðferðilegur. Vandinn felst í því, að þeir sem taka völd sín sem sjálfgefin og telja sig yfir það hafna að hlusta á venjulegt fólk, sem lætur sér annt um umhverfi sitt, geta ekki viðurkennt mistök sín. Valdstjórn, valdhroki, valdníðsla, það er þessi hvimleiði sjúkdómur, sem herjar á bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, og bitnar nú á því fólki, sem vill koma fyrir hann vitinu og forða slysum, sem ekki verða afturkölluð. Valdbeitingin í þessu máli er ekki bara siðlaus, hún er líka löglaus. Fyrrverandi meðlimur í Bandalagi jafnaðarmanna á tíð Vilmundar heitins Gylfasonar, eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri er, ætti að kannast við þau orð og láta þau verða sér víti til varnaðar. Og bæjarfulltrúi Vinstri grænna, Karl Tómasson, sem um daginn faldi sig á bak við gardínur, þegar konur í Varmársamtökunum stöðvuðu ofbeldið, ætti að manna sig upp í að standa við sannfæringu sína og samflokksmanna sinna. Það er spurning um trúverðugleika.

Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson
(höfundar eru nýbúar í Mosfellsbæ)

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


Tengibraut og almenn tengsl í Mosó

Í útvarpsfréttum RÚV kl. 18.00 í gær sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ um stöðvun framkvæmda við tengibraut í Álafosskvos: „Bærinn vill vinna málið í sátt við íbúa". Í Blaðinu í morgun spilar hún svo út næsta spili og þá kemur í ljós að Varmársamtökin teljast ekki til þeirra íbúa sem hún vill vinna í sátt við. Þar að auki notar Ragnheiður persónulegan harm, fjölskyldu hér í bænum sem málinu er algjörlega óviðkomandi, til að kasta rýrð á samtökin á svo ónærgætinn hátt að undirritaðri er um og ó.

Ég hef búið í Mosfellsbæ í meira en áratug, tók þátt í að stofna hér Heklurnar-kvennakór, er félagi í hestamannafélaginu Herði, á dætur sem stunda hér skóla, leikskóla, tónlist og íþróttir. Eiginmaður minn rekur hér fyrirtæki og hér á ég marga góða vini og kunningja. Það kom því flatt upp á mig sá dómur bæjarstjórans að við í Varmársamtökunum, sem ég tók þátt í að stofna, værum ekki í tengslum við „bæinn og bæjarbúa". Nú þætti mér gaman að vita hver hin réttu tengsl við bæinn og bæjarbúa skyldu vera og óska eftir svari við því. Jafnframt bendi ég á þann möguleika að tengsl bæjarstjórans við bæjarbúa séu ekki eins og þau eiga að vera. Mér datt í hug að bæjarstjórinn sé að vísa til þess að í Varmársamtökunum er fólk sem er nýflutt í bæinn og þá er spurning af hverju er verið að leggja svo mikla áherslu á að byggja ný hverfi hér í Mosfellsbæ? Munu þau ekki bara fyllast af fólki sem ekki er í neinum tengslum við bæinn eða bæjarbúa? Það er náttúrulega hægt að vona að þetta sé ungt fólk sem er á kafi í því að byggja, eigi lítil börn og þurfi að vinna það mikið að það hafi ekki tíma til að standa í því að taka þátt í lýðræðislegum samtökum og hafa áhrif á umhverfi sitt.

Hannes Sigurgeirsson hjá Helgafellsbyggingum sagði líka í kvöldfréttum sjónvarps á RÚV að tengibrautin væri nauðsynleg forsenda hinnar nýju byggðar í Helgafellshverfi að hún væri byggð á áralöngum rannsóknum sérfræðinga og stofnana. Varmársamtökin hafa farið fram á það við bæjaryfirvöld að fá að skoða þau gögn sem hljóta að hafa hrannast upp við þessar rannsóknir en fá þau svör ein að svona verði þetta að vera.

Kristín Pálsdóttir íbúi í Mosfellsbæ og meðlimur í Varmársamtökunum

Grein af gamla blogginu, umræður má sjá hér: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=comments&id=2665860#co

Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifaði
Sæl Kristín

Ummæli mín í Blaðinu gær tengdust tímasetningu mótamæla Varmársamtakann og notkun íslenska fánans annars vegar og sorgaratburði í Mosfellsbæ hins vegar. Notkun íslenska fánans er bundin og venja er að flagga í hálfa stöng við sorgaratburði og þennan sama dag var lítil stúlka borin til grafar og móðir hennar er starfsmaður Mosfellsbæjar. Annað var ekki átt við og ummælin beindust ekki að einum eða neinum persónulega.
Sjálf hef ég búið hér síðan í júní 1976 og starfað í Mosfellsbænum sem kennari og skólastjóri í yfir tuttugu ár og síðan sem bæjarstjóri í rúm fjögur ár og tel mig bæði þekkja vel til í Mosfellsbæ og vera í ágætum tengslum við bæjarbúa og það sem er að gerast í Mosfellsbæ.

Virðingarfyllst
Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Um trúverðugleika Vinstri grænna: Er stefnan skiptimynt?

 01.02.2007

Á meðan Vinstri grænir í slagtogi við Sjálfstæðisflokkinn malbika yfir fágætar náttúruperlur Mosfellsbæjar situr forysta Vinstri grænna á rökstólum og leggur á ráðin um hvernig næla megi í atkvæði umhverfissinna í komandi alþingiskosningum.

Hvernig má þetta vera? - spyrja kjósendur í Mosfellsbæ. Hvað varð um umhverfisverndarstefnuna sem Vinstri grænir gáfu sig út fyrir að standa fyrir í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sl. vor? Er samstarf við Sjálfstæðisflokkinn virkilega svo þýðingarmikið að kjörnir fulltrúar Vinstri grænna geti blygðunarlaust svikið stefnu flokksins um leið og atkvæði hafa verið talin?

Í lýðræðisríkjum er sjálfsagt að stjórnmálaflokkar gangi óbundnir til kosninga og fái þá nauðsynlegt svigrúm til samstarfs við þau stjórnmálaöfl sem fýsilegust þykja til að tryggja viðgang stefnunnar. En í hugum fólks sem af einlægni vinnur að endurbótum í umhverfis- og náttúruverndarmálum er með öllu óskiljanlegt að flokkur sem gefur sig út fyrir að standa vörð um náttúruvernd skuli við fyrsta hanagal fórna stefnunni.

Í Mosfellsbæ er hafin mikil uppbygging í landi Helgafells og Leirvogstungu. Liggja þessi svæði að helstu náttúruperlu Mosfellsbæjar, Varmánni. Hefur áin verið á náttúruminjaskrá í tæp 30 ár og nýtur 50-100 m breitt gróðurbelti sitt hvoru megin við bakkana svonefndrar hverfisverndar sem tryggja á íbúum aðgengi að ánni og varðveislu náttúru og sögulegra minja á svæðinu. Verndarsvæðið við ána er skilgreint til útivistar og er áin og bakkar hennar sagðir hafa mikið vísinda- og fræðilegt gildi. Eru ósar Varmár við Leirvog ennfremur friðlýstir.

Þegar deiliskipulagsáætlanir voru lagðar fram fyrir kosningar sl. vetur kom í ljós að við hönnun skipulagsins hafði ekkert mið verið tekið af menningarsögu og náttúruverndargildi svæðisins. Ljóst var að bæjaryfirvöld höfðu lítinn skilning á gildi þess og enn síður hug á að taka tillit til vilja íbúa. Tók áhugafólk um umhverfismál í bæjarfélaginu sig því saman og stofnaði Varmársamtökin sem strax bentu á að framkvæmdagleði bæjarstjórnar tæki hvorki mið af yfirlýstum skipulags- og umhverfisáætlunum Mosfellsbæjar né vilja íbúa.

Í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 og umhverfisskipulagi frá 1997 segir að tryggja beri vandaða umhverfismótun og náin tengsl byggðar við náttúru við skipulagsgerð. Vilji íbúa er ennfremur skýr. Í niðurstöðum íbúaþings 2005 kemur fram að nálægðin við náttúruna og friðsældin sé það sem íbúum Mosfellsbæjar þyki mest um vert.

Eftir að Sjálfstæðisflokkinn missti hreinan meirihluta í bæjarstjórn sl. vor varð það hlutskipti frambjóðanda Vinstri grænna að halda honum við völd. Í aðdraganda kosninga hafði frambjóðandinn talað um breyttar áherslur í skipulags- og umhverfismálum. Þegar íbúar fóru síðan að hvetja hann til góðra verka svaraði hann galvaskur að þar sem hann byggi innan skipulagssvæðisins gæti hann ekki skipt sér af lagningu tengibrauta um verndarsvæði Varmár. En á hvaða forsendu tekur fulltrúi umhverfisverndarflokks sæti í bæjarstjórn ef ekki til að standa vörð um náttúruperlur sveitarfélagsins? Er einfaldlega hægt að leggja niður stefnuna af persónulegum ástæðum? Sé rýnt í fundargerðir Mosfellsbæjar og framlag Vinstri grænna til umhverfis- og skipulagsmála á kjörtímabilinu skoðað liggur beinast við að álykta að þeir hafi notað umhverfisverndarstefnuna sem skiptimynt fyrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Í eyrum þeirra sem hlustað hafa á hástemndar yfirlýsingar Vinstri grænna um að þeir séu eina trúverðuga aflið í umhverfismálum á Íslandi hljómaði það eins og öfugmælavísa þegar fulltrúar þeirra í Mosfellsbæ þustu fram á ritvöllinn til að gera lítið úr þeirri viðleitni Varmársamtakanna að stemma stigu við eyðileggingu á fágætum náttúruperlum bæjarfélagsins. Kom á daginn að fulltrúar Vinstri grænna vissu ekki að Varmáin er á náttúruminjaskrá. Ósar Varmár eru friðlýstir sem leiddi til þess að fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn lagði til að tengibraut úr Leirvogstungulandi sem leggja á yfir Varmá rétt utan við ósana yrði sett í mat á umhverfisáhrifum burtséð frá lagaskyldu. Þessu höfnuðu Vinstri grænir. Sömu sögu er að segja um tillögur um að endurskoða legu tengibrautar um Álafosskvos og áhrif hennar á ferðaþjónustu.

Gröfurnar hafa nú með fulltingi Vinstri grænna hafið sín myrkraverk í túnfæti Álafosskvosar. Ljóst er að fagleg þekking á gildi svæðisins er víðs fjarri þeim sem stýra eiga verktökunum sem sjá um uppbyggingu svæðisins. Eyðilegging Álafosskvosar er bara upphafið. Skv. núgildandi aðalskipulagi stendur til að leggja tengibraut sem nær úr miðbæ Mosfellsbæjar um Álafosskvos og þaðan fyrir mynni Skammadals niður Bjargsveg yfir gamla hverasvæðið í Reykjahverfi að Hafravatnsvegi.

Með þessum gjörningi hverfa þau tengsl byggðar við náttúru sem íbúar meta öðru fremur. Náttúruupplifun er látin víkja fyrir umferðarhávaða. Meirihluti Sjálfstæðisflokks hefur alla tíð hunsað vilja íbúa í málinu. En með upplýstri umhverfisstefnu og einlægum ásetningi gætu Vinstri grænir enn forðað sér frá því að falla í sömu gryfju.

Eggert B. Ólafsson

lögmaður og ibúi í Reykjahverfi í Mosfellsbæ


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband