Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Athugasemd

Tengibrautin átti árið 1983 að vera safngata sem þjónaði 200 íbúa byggð en ekki 12.000 íbúa byggð. Byggð í Álafosskvos var að hruni komin á þeim tíma. Það er ekki deilt um hönnun tengibrautarinnar heldur fara Varmársamtökin fram á að hún fari í umhverfismat.


mbl.is Veginum var breytt vegna athugasemda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifi Álafoss! Tónleikar!

tonleikar

Tónleikarnir verða haldnir í BaseCamp Verinu, Héðinshúsinu næstkomandi sunnudag.
Húsið opnar klukkan 20:00

Miðasalan fer fram á Miði.is
Miðaverð er 3200 kr.


Varðandi grein Haraldar Sverrissonar

"Haraldur Sverrisson, formaður skipulags og bygginganefndar bæjarins, segir byggðina í Álafosskvos vera mun meiri en gert sé ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi. Gert sé ráð fyrir íbúum í fjórum til sex húsum, en raunin sé þrjátíu. Haraldur segir kvosina vera fallegan stað og þar hafi ýmsir sest að sem hafi sýnt staðnum áhuga og haft góð áhrif á hann. Tilbúið sé skipulag sem gerir ráð fyrir meiri byggð en í núverandi skipulagi."

Mosfellsbær fer ekki eftir eigin deiliskipulagi. Umdeild tengibraut gengur gegn ”gildandi” deiliskipulagi því sem Haraldur Sverrisson vísar til. Það er fullkomlega órökrétt af formanni skipulagsnefndar Mosfellbæjar að vísa til deiliskipulagsins þegar hann reynir að koma höggi á íbúa í Álafosskvosinni, en þegja um skipulagið þegar rætt er um tengibrautina. Tengibrautin hefur með ólögmætum hætti verið færð inn á deiliskipulag Álafosskvosarinnar. Ein af frumforsendum fyrir færslu mannvirkisins inn á deiliskipulagið er einmitt breyting á deiliskipulaginu. Mosfellsbær segir í einu orðinu að búið sé að breyta deiliskipulaginu til að hliðra til fyrir veginum, en í hinu orðinu að gamla deiliskipulagið sé enn í fullu gildi.  

Höfuðskylda kjörinna fulltrúa í opinberri stjórnsýslu er leiðbeiningarskyldan. Það er brot á stjórnsýslulögum þegar kjörnir fulltrúar reyna með einbeittum hætti að rugla fólk í rýminu til að fela vondan málstað sinn. Ef Haraldur Sverrisson vill heldur vísa til þess deiliskipulags Álafosskvosarinnar sem takmarkar íbúðasamþykktir, þá er tengibrautin klárlega ólögmæt framkvæmd. Með klámhöggi sínu á íbúa Álafosskvosarinnar hefur hann í raun lýst því yfir að framkvæmdin sé ólögmæt.

Arnþór Jónsson,
fyrrverandi íbúi í Álafosskvos


Varmársamtökin - international

Arna Mathiesen, sendi okkur bréfaskipti sín um arkitektúr í Mosfellsbæ. Hún veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta það á blogginu okkar.

Æi stelpur eigum við ekki að ganga í Varmársamtökin?? 
Mér finnst svo ótrúlegt að það eigi nú að fara að eyðileggja æskuslóðir vorar (nú enduruppgötvaðar af hinum ýmsu listamönnum sem vilja gefa eitthvað jákvætt til staðarins) með einhverjum órtúlega hallærislegum og gamaldags hraðbrautum

Það eru til aðrar lausnir! Eða hvað segið þið sem eigið við allt þetta mislægi að búa?

Kv. Arna Arna Mathiesen M.Arch. F.A.Í
April Arkitekter ASSandakerveien 35
0477 Oslo

Halló allar,
Skoðið tillögurnar og metið því þetta er ekki hraðbraut heldur gata eins t.d. Þverholtið, Bogatangi, Skeiðholt.Það er kynningarfundur n.k. þriðjudag í Listasalnum og efni verður sett á heimasíðu: mos.is
Bestu kveðjur til ykkar allra
RR [Ragnheiður Ríkharðs]

Sælar,
Síðan hvenær urðu rokrassgötin Þverholt og Skeiðholt fyrirmynd í nútíma borgarskipulagi? (Þekki ekki Bogatanga, enda varla látið sjá mig í Mosó í 20 ár, eða var hann bara svona lítið eftirminnilegur?)
Ekki að það sem ekki er eftirminnilegt sé endilega saklaust.Og ekki að ég sé á móti því að nota eldri fyrirmyndir, Álafosskvosin er til dæmis gott dæmi um gamla byggð með mikinn þéttleika,og opinber rými sem virka. Var þetta ekki hjarta sveitarinnar hérna áður fyrr, það var nú mikið líf í tuskunum þarna áður fyrr, sagði Ingunn á Álafossi mér hérna um árið. Og hafa menn ekki verið með uppákomur og markaði þarna nýlega? Eru einhverjir aðrir slíkir staðir í Mosó?... Með karakter og skjól? Kannski bílastæðið fyrir framan ráðhúsið?
Kannski það væri heldur ráð að reyna að læra eitthvað af skipulaginu þarna og endurskapa annarsstaðar, ef til vill væri hægt að stækka Álafosssvæðið í sama dúr, heldur en að drita niður svona dreifbýlisborg sem krefst tengibrauta sem leggja undir sig æ meira flæmi með og gera það að fólk hittist ekki nema í súpermarkaðinum þegar það hefur þurft að setjast uppí bíl og keyra langar leiðir.Ég er bara sannfærð um að Mosó skítur sig í fótinn með þessari þróun.Það er mikilvægt að sjá og velta fyrir sér því sem maður hefur og hlúa að því sem einhvers virði er áður en maður rífur það niður og býr til eitthvað endalaust Guðsvolað úthverfi............
Ég hef engra prívat hagsmuna að gæta með að segja þetta.Tala bara útfrá gömlum taugum til gamalla staða í Mosó sem hafa (höfðu) presens og mínu fagi þar sem við erum að reyna að búa til staði þar sem fólk hittist og vill vera, meir en gjarna með háu nýtingarhlutfalli.Óska ykkur annars alls hins besta með það erfiða verkefni að búa til góðan bæ, þar sem er einhvers virði að búa.

Kv. Arna
Ég meinti auðvitað skýtur sig í fótinn en ekki skítur...,
(jæja, skítur reyndar gjörsamlega á sig líka % - )

Bestu kveðjur Arna

www.aprilarkitekter.no


OPINN KYNNINGARFUNDUR

Boðað er til opins kynningarfundar í Hlégarði
þriðjudaginn 13. febrúar kl. 17:00
um hönnun og útfærslu Helgafellsvegar.
 Dagskrá
1.   Framsaga formanns skipulags- og byggingarnefndar,
Haraldar Sverrissonar
2.   Framsaga fulltrúa Varmársamtakanna
3.   Pétur Jónsson landslagsarkitekt og Júlíus Júlíusson byggingarverkfræðingur gera grein
fyrir hönnun og útfærslu Helgafellsvegar.
 4.   Fyrirspurnir og umræður
Allir  velkomnir.


Tækni- og umhverfissvið Mosfellsbæjar

 


Bréf frá Dóra og Dunu

Eftirfarandi bréf barst okkur frá eigendum Kvikmyndafélagsins Umba sem var rekið í Kvosinni.

Til fróðleiks,

Þegar aðalskipulag er samþykkt 1983 var það efst í hugum manna að 
rífa allt í Kvosinni. Þegar okkar firma koma þangað í kjölfar Tolla 
1988 eða 1989, þá minnti plássið einna helst á miðbæ Stalíngrad 1945. 
Þetta var allt ónýtt og  og að niðurlotum komið. Ýmsir reyndu m.a.s. 
að aftra okkar frá því að skrifa undir leigusamninga, þar sem þá yrði 
ekki nokkur leið að losna við okkur.

Af þessum sökum hefur ekki nokkrum þótt óeðlilegt að hafa þessa 
tengibraut. Hins vegar hefur allt breyst. Húsin eru að mestu uppgerð 
með listaspírum í hverjum glugga.

Dóri og Duna


Lifi Álafoss! - Styrktartónleikar

Baráttu- og styrktartónleikar til handa Varmársamtökunum verða haldnir í BaseCamp Verinu þann 18. febrúar 2007.

Hljómsveitirnar sem koma fram á tónleikunum eru ekki af verri endanum en þær eru:

SigurRós
Bogomil Font & Flís
Pétur Ben
Amiina
Benni Hemm Hemm

Skemmtilegustu tónleikar sem haldnir hafa verið á Íslandi í langan tíma.

Húsið opnar kl. 20.00.
Miðasalan fer fram á midi.is og hefst á morgun mánudag 12. febrúar. Miðaverð er 3200.- kr. Takmarkaður miðafjöldi.


Varmársamtökin
- stöndum vörð um framtíð Varmársvæðisins.

Hlustið á vefupptöku af þætti Lísu Páls um sögu og líf í Álafosskvos á Rás 1 hér.


Fjölmenni á borgarafundi í Álafosskvos

Húsfyllir var á opnum borgarafundi Varmársamtakanna í Álafosskvos í dag. Á annað hundrað manns mættu á fundinn.

Á fundinum héldu Jón Baldvin Hannibalsson og Sigrún Pálsdóttir erindi um þær tillögur sem samtökin hafa komið á framfæri við bæjarstjórn Mosfellsbæjar í tengslum við skipulagsmál á Varmársvæðinu undanfarin misseri. Ennfremur var fjallað um mikilvægi þess að íbúar komi að ákvarðanatöku í skipulagsmálum á vegum sveitarfélagsins.

Fram kom hörð gagnrýni á aðgerðarleysi Vinstri grænna í umhverfismálum í bænum og var skorað á Ögmund Jónasson að láta yfirstjórn flokksins fara ofaní saumana á þessu máli.

Enginn fulltrúi Sjálfstæðisflokkins og Vinstri grænna í bæjarstjórn mætti á fundinn. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn fylktu hins vegar liði og tók Ögmundur sæti í pallborði fyrir hönd hins týnda fulltrúa.

Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum og var eftirfarandi ályktun samþykkt með háværu lófataki í lok fundarins:

Opinn borgarafundur Varmársamtakanna, haldinn í Þrúðvangi 10. febrúar 2007, skorar á meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að stöðva þegar í stað allar framkvæmdir innan hverfisverndaðra svæða meðfram Varmá uns fram hefur farið mat á umhverfisáhrifum allra fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu í heild sinni.

 


Umhverfisspjöll í Mosfellsbæ

Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum verið fjallað um fyrirhugaða lagningu tengibrautar frá Vesturlandsvegi um Álafossveg að nýju íbúðarhverfi í Helgafellslandi í Mosfellsbæ.  Miklar deilur hafa verið um þann hluta vegarins sem liggja á um Álafosskvos.  Íbúar í kvosinni og margir fleiri íbúar bæjarins hafa mótmælt staðsetningu vegarins m.a.vegna nálægðar við Varmá sem er á náttúruminjaská og þess að vegurinn mun breyta verulega ásýnd kvosarinnar og rýra þá útivistarmöguleika sem þar eru fyrir hendi og fjöldi fólks nýtir sér.  Gripið var til þess ráðs á síðasta ári að stofna samtök, Varmársamtökin, sem beitt hafa sér af krafti gegn legu tengibrautarinnar.

Meirihluti Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur hunsað ábendingar og athugasemdir íbúa Mosfellsbæjar og samtaka þeirra og í raun aldrei gefið kost á því að aðrir möguleikar á legu vegarins væru skoðaðir.  Ein megin röksemd meirihlutans hefur verið að vegurinn hafi verið sýndur í aðalskipulagi frá árinu 1983 og að öllum hafi því mátt vera ljóst að fyrirhugað væri að leggja hann.  Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnu sína um landnotkun.  Með deiliskipulagi er síðan farið í nánari útfærslu á aðalskipulaginu á tilteknu svæði.  Það segir sig sjálft að aðalskipulag sem samþykkt var fyrir rúmum 20 árum er ekki endilega að öllu leyti í samræmi við hugmyndir manna um landnotkun í dag.  Sérstaklega hefur mat á gildi svæða til útivistar og á menningarlegu gildi staða breyst mjög á síðustu árum.  Það verður að teljast ámælisvert af núverandi meirihluta Mosfellsbæjar að standa fastur í gamaldags hugmyndum um landnotkun og að geta ekki tileinkað sér þá hugmyndafræði að óskert náttúra og menningarverðmæti kunni að vera meira virði en bílvegur. 

Kjósendur Vinstri grænna hljóta líkt og aðrir Mosfellingar að velta því fyrir sér hvað í ósköpunum hafi gerst síðan kosið var síðastliðið vor.  Oddviti flokksins tók heljarstökk upp í ból íhaldsins og fékk að launum forsetatign.  Tign sem honum virðist vera svo annt um að hann er tilbúinn að beygja sig undir stefnu Sjálfstæðisflokksins í flestum málum.  Tengibraut um Álafosskvos er eitt þessara mála. Í kosningabaráttunni notaði Karl Tómasson, efsti maður á lista Vinstri grænna, flest tækifæri sem honum gáfust til að lýsa andstöðu við þessa framkvæmd.  Tilvonandi kjósendur flokksins hljóta að hafa gengið út frá því að hann væri að lýsa stefnu flokksins en ekki einungis sinni persónulegu skoðun.  Eftir kosningar hefur Karl Tómasson einnig látið á sér skiljast að persónulega sé hann á móti tengibrautinni.  Þegar kemur að afgreiðslu málsins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar er forseti bæjarstjórnar hins vegar ekki í sæti sínu en í stað hans sestur umhverfisfræðingur sem fyrir hönd VG hefur samþykkt allar tillögur Sjálfstæðismanna um útfærslu tengibrautarinnar og þar með skerðingu á náttúrunni við Varmá.  Vel að merkja umhverfisfræðingurinn og Karl Tómasson eru í sama flokki og því eðlilegt að fólk spyrji sig hvort Karl hafi verið að mæla fyrir hönd VG þegar hann talaði um andstöðu við tengibrautina fyrir kosningar.  Kjósendum VG er vorkunn hafi þeir gengið út frá því að þeir væru að greiða atkvæði gegn umhverfisspjöllum í Álafosskvos.  Númer tvö á lista Vinstri grænna í kosningunum síðastliði vor var Bryndís Brynjarsdóttir.  Í 2. tbl. 2. árgangs Vinstrigræns Sveitunga, blaðs VG, sem kom út í febrúar 2006 var viðtal við Bryndísi.  Þar segir hún:  „Ýmislegt hefur verið gert hin síðari ár til að bæta yfirbragð kvosarinnar en miðað við núverandi deiliskipulag liggur við stórslysi. Það er ótrúlegt ef bæjarfulltrúar ætla að sýna þá skammsýni, miðað við nýtt deiliskipulag, að þrengja svo að kvosinni, meðal annars með tengibraut inn í Helgafellslandið, að töfrar svæðisins verða kæfðir með tröllauknu mannvirki.” 

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir í Leirvogstungu þar sem líkt og í landi Helgafells á að byggja upp nýtt íbúðarhverfi.  Til að tengja nýja hverfið við meginkjarna íbúðarbyggðarinnar í Mosfellsbæ er fyrirhugað að leggja tengibraut í framhaldi af Skeiðholti við gatnamót Skólabrautar að Leirvogsá.  Tengibrautin þverar Varmá, sem eins og áður segir er á náttúruminjaskrá, með aksturs- og göngubrú og Köldukvísl með brú eða ræsi.  Fulltrúar Samfylkingarinnar  lögðu fram tillögu í ágúst á síðasta ári um að fram færi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Tillagan var felld með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

Það er því miður ekki hægt að komast að annari niðurstöðu en þeirri að Vinstri grænir í Mosfellsbæ hafi greitt  embætti forseta bæjarstjórnar dýru verði.  Í verðinu var m.a. umhverfisstefna flokksins sem skipt hefur verið út fyrir stefnu Sjálfstæðismanna í þessum málaflokki.  Það er alkunna að á þeim bæ þykir einungis sú náttúra sem ekki er í vegi fyrir framkvæmdum einhvers virði.

Hanna Bjartmars Arnardóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ


Borgarafundur um Helgafellsbraut

Varmársamtökin boða til almenns borgarafundar um Helgafellsbraut í Þrúðvangi í Álafosskvos, laugardaginn 10. febrúar kl. tvö. Fundurinn er öllum opinn.
Sigrún Pálsdóttir verður með framsöguerindi um deiliskipulag tengibrautar um Álafosskvos og Jón Baldvin Hannibalsson, áður ráðherra ræðir leikreglur lýðræðisins.
Öllum boðið að taka þátt í umræðum.  Hvetjum alla sem láta sig málið varða til að mæta.

Allir velkomnir!!!

Varmársamtökin
- í tengslum við bæinn og bæjarbúa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband