Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Sérstaða Mosfellsbæjar fyrir bí

- deiliskipulag Helgafellsbrautar samþykkt á fundi bæjarstjórnar

Það var sorgardagur í sögu Mosfellsbæjar á miðvikudag þegar deiliskipulag tengibrautar úr Helgafellslandi um Álafosskvos var samþykkt af fulltrúum meirihlutans og Framsóknarflokksins á fundi bæjarstjórnar.

Gallar skipulagsins eru ótvíræðir. Það mun kollvarpa bæjarmyndinni og ræna Mosfellsbæ sínum dýrmætustu sérkennum sem eru þorpsstemning á gömlum merg á bökkum Varmár í Álafosskvos og náttúrufegurð sem laðað hefur að framúrskarandi listamenn og ferðalanga víðsvegar að, - ekki bara undanfarin ár heldur árhundruð. Fórnin sem bæjarstjórnarmeirihlutinn færði á miðvikudag er dýru verði keypt og vandséð af hverju tengibrautinni var ekki valinn ásættanlegri staður sem þó blasir við í útjaðri byggðar undir Helgafelli.

Frá fyrstu tíð hefur bæjarstjórnarmeirihlutinn fjallað um skipulagið sem náttúrulögmál sem ekki megi hnika frá hvað svo sem tautar og raular. Varmársamtökin líta málið öðrum augum og hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að vanda umfram allt val á akstursleið að hverfinu. 

Deiliskipulagið er afrakstur vinnubragða sem fyrir löngu eru talin vera úrelt annars staðar á Norðurlöndum. Heildarsýn skortir og eins og fram kom á fundinum í kjölfar fyrirspurnar Hönnu Bjartmars er enn ekki ljóst hvernig leysa á þann alvarlega vanda sem deiliskipulagið hefur í för með sér fyrir íþrótta- og skólasvæði við Varmá og skipulag miðbæjar Mosfellsbæjar.

Varmársamtökin hafa frá upphafi gagnrýnt bútasauminn sem einkennir skipulagsvinnu á vegum bæjaryfirvalda. Samtökin hafa einnig gert alvarlegar athugasemdir við kynningu á deiliskipulaginu. Aðeins var látið nægja að kynna að hluta hönnun tengibrautarinnar en  kynning á áhrifum framkvæmdanna á útivistarsvæði bæjarbúa við Varmá, atvinnustarfsemi og framtíðaruppbyggingu í Álafosskvos var látin lönd og leið.

Framganga bæjaryfirvalda hefur verið með afbrigðum ólýðræðisleg en það finnst þeim augljóslega ekki sjálfum. Á fundinum á miðvikudag kepptist bæjarstjórnarmeirihlutinn við að mæra sjálfan sig fyrir hið gagnstæða. Gekk það svo langt að áheyrendur gátu ekki betur skilið en að skipulagið væri afrakstur fróðlegrar samvinnu við Varmársamtökin. Fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu tilraun til að leiðrétta hina nýstárlegu sagnfræði sem varð til þess að fulltrúar meirihlutans hófu stórskotahríð sem endaði með tilfinningalegu uppþoti forseta bæjarstjórnar sem taldi sig eiga harma að hefna gagnvart samtökunum. Skýring undirritaðrar á tilfinningarótinu er sú að sannleikanum er hver sárreiðastur. Karl Tómasson sem er fulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur legið undir ámæli fyrir að svíkja þá stefnu sem hann boðaði fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Bregst hann við pólitískri gagnrýni sem árásum á sína persónu. Sem fulltrúi stjórnmálaflokks í meirihlutasamstarfi hljóta einu umhverfisverndarsamtök bæjarins hins vegar að eiga rétt á skýringu á þessum viðsnúningi. Í okkar huga er um að ræða fulltrúa flokks sem skilgreinir sig sem umhverfisverndarflokk. Það liggur í hlutarins eðli að umhverfisverndarsamtök gagnrýna umhverfisverndarflokk sem bregst kjósendum sínum með svo afdrifaríkum hætti.

 

Karl Tómasson boðaði endalok Varmársamtakanna á fundi bæjarstjórnar. Við mælum hins vegar með því að forsetinn reyni að gera sér grein fyrir afleiðingum þess. Vinstri grænir hafa ekki lyft svo mikið sem litla putta í þágu umhverfisverndarmála í sveitarfélaginu undanfarið eitt og hálft ár. Hvað yrði og hvað hefði orðið ef Varmársamtökin hefðu ekki staðið vaktina?

 

Það er öllum hollt að líta í eigin barm og athuga sinn gang. Það munum við hjá Varmársamtökunum gera og hvetjum við forsetann og hollvini hans eindregið til að gera slíkt hið sama. Það væri ekki bara þeim sjálfum fyrir bestu heldur líka öllum náttúruunnandi íbúum í Mosfellsbæ til heilla.

 

Sigrún Pálsdóttir

stjórnarmaður í Varmársamtökunum

Sjá einnig leiðara Morgunblaðsins 3. september: www.morgunbladid.blog.is


Allir á útimarkað Varmársamtakanna í Álafosskvos um helgina

Útimarkaður í Álafosskvos 2006Varmársamtökin standa fyrir útimarkaði í Álafosskvos í tengslum við bæjarhátíðina Í TÚNINU HEIMA, nk. laugardag, 25. ágúst , kl.12-16.
Samtökin voru með útimarkað af sama tilefni í fyrra sem heppnaðist afar vel. Fór aðsóknin fram úr björtustu vonum en talið er að hátt í 5000 manns hafi mætt á svæðið. Markaðurinn nú verður með svipuðu sniði og í fyrra. Að þessu sinni verður þó sérstök áhersla lögð á matvöru svo sem lífrænt ræktað grænmeti, kartöflur, allar tegundir tómata, söl, vestfískan harðfisk, heimagerðar sultur og mauk o.fl., o.fl. Blóm og handverk verður til sýnis og sölu og kaffihús opið í Ásgarði þar sem boðið verður upp á gómsætar veitingar og lifandi tónlist.
Hressum upp á mannlífið í Mosfellsbæ!!!
Sigríður Þóra
Sími 660 7667

Borgarskipulag í brennidepli í Norræna húsinu

Á Reykjavík að vera evrópsk borg eða amerískt úthverfi?
Í Norræna húsinu 21. ágúst, kl. 17:30  á menningarhátíðinni Reyfi 2007.
Fyrirlesarar eru þeir Audun Engh og Erling Okkenhaug, fulltrúar The Council of European Urbanism, www.ceunet.org, sem beita sér fyrir borgarskipulagi með mannlegri ásýnd.

Og svo kl. 19:30
Gagnrýni í beinni Umræður um arkítektúr í Reykjavík - pallborðsumræður

Sjá nánar www.nordice.is eða í síma 551 70 30


Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 19. 08 2007

Helgafellsbraut í byrjun júlí 2007Ágætu lesendur. Við bendum ykkur eindregið á að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag sunnudag 19. ágúst 2007 en þar er fjallað á opinskáan hátt um þann ágreining sem nú er uppi milli sveitarfélaga og íbúa á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við skipulagsmál.

Í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins þrætir Haraldur Sverrisson verðandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ fyrir að búið sé að leggja veg úr Helgafellslandi um Álafosskvos sem þó liggur í augum uppi.
Væntanlega afneitar Haraldur hinu augljósa af illri nauðsyn því með því að viðurkenna tilvist vegarins væri hann að viðurkenna að Mosfellsbær hafi framið lögbrot sem felst m.a. í því að búið er að leggja veg án deiliskipulags um svæði á náttúruminjaskrá sem auk þess nýtur hverfisverndar.
Með því að leggja veg áður en deiliskipulag hefur verið afgreitt út úr bæjarstjórn og samþykkt af Skipulagsstofnun er sá réttur tekinn af íbúum Mosfellsbæjar að hafa áhrif á þróun skipulagsáætlana í sveitarfélaginu.
En fleiri fletir eru á þessu máli. Stofnanir og verkfræðistofur í þjónustu Mosfellsbæjar/framkvæmdaaðila hafa lagt vinnu í að meta framkvæmdir til þess að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvort skipulagstillagan sé raunhæf. Þessi vinna kostar skattborgara og fasteignakaupendur í Mosfellsbæ og reyndar þjóðina alla mikla fjármuni. Ljóst er að matið þjónar ekki tilgangi sínum sé farið út í framkvæmdir áður en niðurstöður liggja fyrir.  Liggur því í augum uppi að hér er verið að sólunda skattpeningum almennings til þess eins að friðþægja löggjafann og íbúa sem hafa vilja áhrif að gerð skipulagsins. 

Í Reykjavíkurbréfi er m.a. spurt hver borgi búsann verði framkvæmdaaðilum gert að færa hlíðina í sama horf og áður.  Birtum við hér stuttan útdrátt úr bréfinu.

Úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins

Laugardagur 18. ágúst:
"Þetta er ekki vegur, þetta eru lagnaframkvæmdir og kringum þær er lagður vinnuvegur,“ segir Haraldur Sverrisson, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar og formaður skipulags- og bygginganefndar bæjarins í samtali við Morgunblaðið í dag, laugardag, um umdeilda vegalagningu í Mosfellsbæ.
Í augum þeirra sem aka um þennan veg er þetta fínn vegur og margfalt betri en þjóðvegaspottar, sem enn má finna hér og þar um landið.
Deilan um það hvort þessi vegur, sem sjá má mynd af á bls. 2 í Morgunblaðinu í dag, laugardag, er vegur eða lagnaframkvæmd er að sumu leyti dæmigerð um þau samskipti, sem upp geta komið milli kjörinna fulltrúa í sveitarfélagi og íbúa eða einstakra hópa íbúa. Þeir sem berjast fyrir því að Álafosskvosin fái að vera í friði, sérstakur staður með sérstaka sögu, upplifa þessa vegalagningu sem hreinan ruddaskap bæjaryfirvalda í sinn garð og raunar lögbrot. Kjörnir fulltrúar fólksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar eru vafalaust þeirrar skoðunar, að þeir séu að stuðla að öflugri uppbyggingu Mosfellsbæjar. Hins vegar vill svo vel til í þessu tilviki, að íbúar Mosfellsbæjar geta kveðið upp sinn eigin dóm um það, hvort um sé að ræða veg eða lagnaframkvæmd. Þeir geta einfaldlega farið á staðinn og kynnt sér málið og komist sjálfir hver fyrir sig að niðurstöðu um það hvort um sé að ræða veg eða lagnaframkvæmd.
Haraldur Sverrisson, verðandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir hins vegar í laugardagsblaði Morgunblaðsins, að þessi vegalagning sé „fullkomlega afturkræf, ef ekki verður samþykkt að vegurinn verði þarna til frambúðar […] Þá verður bara mokað yfir þetta og sáð í og trén sett í sama horf og var“.
Í þessum orðum felst auðvitað viðurkenning á að þessi vegur hafi verið lagður þannig að hann geti orðið til frambúðar og þá vaknar sú spurning hvort Mosfellsbær sé a.m.k. að fara í kringum lögin ef ekki brjóta þau. Og hver ber kostnað af þessari vegagerð ef hún verður ekki samþykkt? Eru það skattgreiðendur í Mosfellsbæ eða eru það verktakar, sem standa fyrir uppbyggingu í Helgafellslandi? ...  ." Sjá Reykjavíkurbréf í heild hér.

Sjá einnig "Lagnavegurinn" blogg Gunnlaugs Ólafssonar, varaformanns: www.gbo.blog.is

 


Útimarkaður í Álafosskvos laugardaginn 25. ágúst, kl. 12-16

Útimarkaður Álafosskvos 300ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS MOSFELLSBÆ LAUGARDAGINN 25.ÁGÚST, KL.12-16
VARMÁRSAMTÖKIN standa fyrir útimarkaði í tengslum við bæjarhátíðina Í TÚNINU HEIMA, í Álafosskvos, laugardaginn 25.ágúst.

Samtökin stóðu fyrir útimarkaði í fyrra sem tókst afar vel og fór aðsóknin fram úr björtustu vonum. Áætlað er að hátt í 5000 manns hafi komið á svæðið. Í ár er ætlunin að hafa markaðinn með svipuðu sniði, þ.e. að selja ferska, helst lífræna matvöru, blóm og handverk ásamt því að bjóða upp á veitingar og ýmsa skemmtan. Markaðurinn fer fram í tveimur stórum 54m2 sölutjöldum og inni í salnum Þrúðvangi. Leigð verður söluaðstaða til einstaklinga og félagasamtaka gegn vægu verði og eru þeir sem tryggja vilja sér pláss á markaðnum beðnir að láta okkur vita sem allra fyrst.
Markaðurinn hefst kl.12:00 og stendur til kl.16:00. Söluaðilar mæta kl.11:00 og fá plássi úthlutað á staðnum.


Leiga:
· 5000.- kr. í tjaldi og
· 7000.- kr. í húsi/Þrúðvangi

ATHUGIÐ 20% afsláttur ef þátttaka er staðfest og greidd fyrir 17.ágúst inn á reikning samtakanna:
Varmársamtökin kt. 560606-1760, reikn.nr. 549-26-410.
Nauðsynlegt er að hringja eða senda tölvupóst með upplýsingum um vöru og láta fylgja nafn, netfang og farsímanúmer söluaðila.

Vinsamlegast hafið samband við:
Sigríði Þóru Árdal  s.660 7667, sig@koggull.com,
Berglindi Björgúlfsdóttur s. 660 7661, eða
Guðrúnu Ólafsdóttur, Álafossvegi 16, s. 848 9712,
varmarsamtokin@gmail.com

Varmársamtökin
íbúa- og umhverfissamtök í Mosfellsbæ
varmarsamtokin@gmail.com


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband