Fleiri valkostir skoðaðir

Varmársamtökin eiga nú í samningaviðræðum við verkfræðistofuna Línuhönnun um að gera faglegan samanburð á þeim valkostum sem til greina gætu komið varðandi legu Helgafellsbrautar. Hingað til hefur Mosfellsbær aðeins boðið upp á einn valkost í stöðunni sem er að leggja tengibrautina um Álafosskvos.
Verkfræðingar Línuhönnunar eru tilbúnir til að kanna aðra valkosti með þeim fyrirvara að fyrirtækið haldi sjálfstæði sínu. Óskar fyrirtækið því eftir samstarfi við báða aðila.
Í vikunni átti stjórn Varmársamtakanna fund með bæjarstjóra þar sem við lögðum fram beiðni um að Línuhönnun fengi aðgang að uppdráttum og öðrum rannsóknargögnum sem að gagni gætu komið við mat á valkostum. Bæjarverkfræðingur sem einnig sat fundinn bauðst til að kanna málið og bíða samtökin nú eftir svari þar um.
Varmársamtökin skoruðu síðastliðið sumar á bæjarstjórn Mosfellsbæjar að gera faglega úttekt á lagningu Helgafellsbrautar í stokk undir Ásland og þaðan undir Vesturlandsveg. Einnig lögðum við til að skoðaður yrði sá kostur að leggja brautina ofan Helgafellsbyggðar í vestur í átt að Þingvallavegi en þar hefur nú þegar verið lögð tengibraut fyrir fyrirhugað hverfi.
Eru þetta þeir tveir valkostir sem Varmársamtökin hafa lagt til við Línuhönnun að meta en þess má geta að fyrirtækið mun hafa frjálsar hendur um val á möguleikum og ekki vera bundið af tillögum okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Langar að deila með ykkur bloggfærslum ég hef verið að lesa um þetta áhugaverða tengibrautarmál.

 Fólk er farið að sjá í gegnum þessi samtök...

Þetta var á bloggi Guðmundar Bragasonar þular hjá Rúv 
Ég er mikið búinn að velta þessu fjaðrafoki vegna tengibrautarinnar inn í Helgafellshverfið hér í Mosfellsbænum. Fyrir mér er þetta ekkert annað en stormur í vatnsglasi og hreint út sagt með ólikindum. Eftir að hafa lesið mjög mikið um þetta mál, bæði hér á bloginu og í blöðum ásamt allri umfjölluninni í ljósvakamiðlum þá hef ég komist á vissa skoðun og langar mig að deila henni með ykkur. Það sem stendur uppúr í mótmælum gegn tengibrautinni er það sem ég kalla "dirty politics" og að mestu leiti runnið undan rifjum Samfylkingarinnar og snýst langmest um að sverta Karl Tómasson oddvita vinstri grænna í Mosfellsbæ og í raun allan flokk Vinstri Grænna. Nú er ég hvorki flokksbundinn Vinstri græn/n né stuðningsmaður þess flokks en
ég get bara ekki orða bundist. Aðalatriðið hjá gagnrýnendum og þá
Samfylkingarinnar, er að gera lítið úr umhverfisstefnu Vinstri grænna og benda á að þau segi eitt en framkvæmi annað. Fólk hefur engan áhuga á að kynna sér staðreyndir varðandi tengibrautina og umhverfi Álafosskvosarinnar.
Nei hræðsla Samfylkingarinnar við fylgisaukningu vinstri grænna og þann möguleika að Vinstri græn verði stærra stjórnmálaafl en Samfylkingin er það mikil að allt er leyfilegt, jafnvel persónuleg níð á hendur Karli Tómassyni. Lágkúran er ótrúleg. 

En fyrir ykkur sem virkilega viljið kynna ykkur þetta mál þá bendi ég ykkur á að lesa færslu Herdísar Sigurjónsdóttur þar sem er einnig að finna mikið magn teikninga og ljósmynda af svæðinu þar sem sést mætavel hvernig skipulega er búið að vera að blekkja fólk

Þetta var hjá Árna Matt í kvöld
Hvort sem að menn eru með eða á móti lagningu þessa vegar þá er ekki rétta baráttuleiðin að vera með persónulegar ávirðingar gagnvart fólki. Slíkt hafa þó hvorki þú né hin svokölluð Varmársamtök og velunnarar þeirra samtaka tekist að forðast. Að taka Karl Tómasson út úr sem einhvern ábyrgðaraðila fyrir þessari framkvæmd ber vott um fáfræði á málefninu. Karl hefur verið hér við völd í nokkra mánuði og á nú að bera ábyrð á lagningu vegar sem var ákveðin fyrir um tuttugu árum. Hvað ætli margir flokkar hafi verið hér við völd á því tímabili sem hefðu ef vilji hefði verið fyrir hendi getað tekið í taumana ef þeim þótti það þurfa?

Hvar voru Framókn og Samfylking þá? 

Óskráður (Örn Franzson), 26.2.2007 kl. 00:34

Halldór (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 01:28

2 identicon

Það er ánægjulegt til þess að vita að pólítískri drulluslikjunni skuli vera farið að létta af augum fólks og það sé farið að sjá hvernig í pottinn er búið. Það er sama hve falleg og góð hugsjónin á bak við þessi samtök er, á meðan þau eru pólitískt skálkaskjól fyrir fýlupokaflokkana tvo og flóttamennina úr VG þá kem ég aldrei til með að samþykkja málflutning þeirra. Það er fínt að aðrir eru farnir að sjá hve pólitískt mengað þetta allt saman er og hve sjúkt og grimmt það er að ráðast að einum manni, sem lýsti sig vanhæfan í þokkabót, og ætla honum að hirða upp skítinn eftir aðra. Þegar samtökin hætta að anga af pólitík þá er ég tilbúin til að taka mark á þeim.

Hjördís Kvaran Einarsdóttir

P.s. ekki reyna að segja mér að samtökin séu ópólítísk, það er blekking.

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 08:52

3 identicon

Hvar og hvenær hafa Varmársamtökin svert persónu Karls Tómassonar? Varmársamtökin hafa hinsvegar kallað hann til þeirrar ábyrgðar að standa undir nafni þeirrar stefnu sem hann boðaði fyrir kostningar og beita valdi sínu til að láta framkvæmdina fara í umhverfismat.  Hér er tilvitnun í málgagn VG Sveitunga frá 28. apríl 2006 og þar lýsir Karl þáverandi skoðun á málinu:

Kvosin er alveg einstakur staður sem ber að varðveita og huga að.

Nú hefur vegtengingin framhjá Álafosskvosinni verið talsvert til umræðu. Hvað viltu segja um hana?

-Bæjaryfirvöld mega ekki gera slík mistök sem vegurinn inn í Helgafellslandið er. Það er ótrúleg skammsýni að ráðast í þessa framkvæmd en í raun samt talandi dæmi um yfirganginn, þröngsýnina og smekkleysið sem einkennir svo margar framkvæmdir, bæði hér og á landsvísu. Græðgi, yfirgangur og tillitsleysi gagnvart einu og öllu virðist því miður allsráðandi.

 

Í Varmársamtökunum er fólk úr öllum flokkum og í stjórninni t.d. sjálfstæðiskona enda allir velkomnir í samtökin sem vilja vinna að markmiðum þeirra. Karl Tómasson fer með rangt mál í sinni grein í Mosfellingi því Sigrún Pálsdóttir er ekki í stjórn Samfylkingarinnar hér í bæ. Samtökin eru þverpólitísk en ekki ópólitísk enda eru umhverfismál eitt heitasta pólitíska mál samtímans og tilheyra ekki einum flokki. Það væri hins vegar meiri sómi að því fyrir varnarlið Karls Tómassonar að kynna sér málavexti og tæka þátt í málefnalegri umræðu um málið.

Kristín Pálsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 09:42

4 identicon

Eftir að hafa skoðað málið lauslega fann ég þetta á síðu samtakanna síðan 7. febrúar 2007: ”Og bæjarfulltrúi Vinstri grænna, Karl Tómasson, sem um daginn faldi sig á bak við gardínur, þegar konur í Varmársamtökunum stöðvuðu ofbeldið,” og undir skrifa Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson. Hvað gerir þetta annað en að gera lítið úr persónu Karls og sverta hana, einkum þar sem hann var ekki heima þegar hann átti að vera í þessum feluleik? Og hvað gerir þessi setning annað en að upphefja samtökin á kostnað Karls?  Annað síðan 10. febrúar: “Oddviti flokksins tók heljarstökk upp í ból íhaldsins og fékk að launum forsetatign. Tign sem honum virðist vera svo annt um að hann er tilbúinn að beygja sig undir stefnu Sjálfstæðisflokksins í flestum málum.” “Það er því miður ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að Vinstri grænir í Mosfellsbæ hafi greitt embætti forseta bæjarstjórnar dýru verði.” undir skrifar Hanna Bjartmars. Hvað gera þessi skrif annað en að gera lítið úr heilindum Karls? Hver á að trúa því að Karl hafi farið í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eingöngu vegna þess að þá fengi hann að vera forseti bæjarstjórnar?  Þið ætlið kannski næst að segja að þessi skrif séu ekki á vegum samtakanna þar sem þau skrifi ekki undir þau, en þetta var meðal þess sem ég fann hér á síðunni og hlýtur því í raun að vera það sem samtökunum finnst. Yfirlýstir stuðningsmenn samtakanna hafa undanfarið gert í því að sverta Karl á öðrum vettvangi en hér á þessari síðu og hljóta því sem talsmenn samtakanna að vera að tala fyrir þau.  Karl kom jafn heiðarlega fram í þessu máli og honum frekast var unnt og það er það sem svíður í augum meðlima Varmársamtakanna, fýlupokaflokkanna og flóttamanna úr VG. Það er það sem þið eigið svo erfitt með að horfast í augu við.   Samtökin anga af pólitík sama hvert litið er innan þeirra. Ætlarðu að segja mér að Sigrún sé ekki flokksbundin í Samfylkingunni?  

Hjördís (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 11:11

5 identicon

Hjördís hverjir eru þínir hagsmunir í þessu máli? Ert þú ekki starfsmaður Karls Tómassonar sem prófarkalesari á Mosfellingi? Færðu laun fyrir að skrifa þessa pisla þína? Gerir þú ekki ráð fyrir því að fólk berjist fyrir neinu nema í eiginhagsmunaskyni eða af flokkshollustu? Það að vera í stjórnmálaflokki er ekki það sama og að vera í stjórn hans og það kemur þessu máli ekkert við hvort Sigrún eða aðrir eru í stjórnmálaflokki og veikir málstað samtakanna ekki á neinn hátt, nema í þínum augum. Málið snýst um umhverfisáhrif og það að þeir sem í raun hafi pólitísk völd beiti þeim í samræmi við þá stefnu sem þeir kynntu fyrir kosningar. Eins og ég sagði áðan þá eru umhverfismál hápólitísk en Varmársamtökin þverpólitísk með meðlimi úr öllum flokkum sem hafa áhuga á því að forða umhverfisslysi.

Kristín Pálsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 11:32

6 identicon

Sæl Kristín 

Þú ert engu lík, það á bara að byrja á næsta manni og tæta hann í sig, bara af þvi að hann leyfir sér að tjá sig. Er það þá svona sem samtökin vinna eftir allt saman eða ertu ekki að tala fyrir þau hér á síðunni sem er eignuð þeim? Ég verð að gera ráð fyrir því að þú sért talsmaður þeirra. Þú ætlar að efast um heilindi mín og halda því fram að ég sé leigupenni? Ég á nú bara ekki til orð. Nei ég þigg ekki krónu fyrir að skrifa pistla mína en með þessum dylgjum þínum fer ég að halda að margur telji mig sig, og álít því í kjölfarið að samtökin hljóti að borga þeim sem skrifa pistlana sína þeim til varnar! 

Jú, ég prófarkales Mosfelling, en Karl kemur ekki nálægt Mosfellingi og hefur ekki gert það í eitt ár. Ég er búin að þekkja Karl í  mörg ár og það er einmitt þessvegna sem ég verð svona reið fyrir hans hönd þegar ég verð vitni að þeim persónulegu árásum og óheiðarlegu dylgjum sem hafa átt sér stað undanfarið. Ég veit hvaða mann hann hefur að geyma. Burtséð frá því þá finnst mér almennt persónulegar árásir á fólk ljótar hver sem fyrir þeim verður.

Þetta er einfalt. Það er ekki langt síðan að það stóð inni á síðu Samfylkingarinnar að Sigrún væri í stjórn hennar en það virðist hafa breyst, nú er hún bara skoðunarmaður reikninga ásamt fyrrverandi formanni. Það skiptir ekki máli hvort hún er í stjórn eða ekki en það skiptir algjöru höfuðmáli að Sigrún, sem formaður ópólitískra samtaka, sé flokksbundin. Það þýðir að ég get ekki tekið mark á hinni ópólitísku stefnu samtakanna, þegar sjálfur formaðurinn er rammpólitískur. Þegar hún lætur hafa þetta eftir sér í svari til mín á síðu Árna Matthíassonar: "Framsókn og Samfylkingin í Mosfellsbæ eiga að mínu mati heiður skilinn fyrir að vilja standa með okkur í því að varðveita náttúruperlur Mosfellsbæjar. Þeir sýna pólitíska ábyrgð sem ekki er hægt að segja um forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar." þá gengur hún endanlega af þessum ópólitíska stimpli sem samtökin vilja skreyta sig með, dauðum. Það getur verið að það sé fólk úr öllum flokkum í samtökunum en þetta lyktar samt af pólitísku samkurli. Það sýna orð hins flokksbundna en ópólitíska formanns svo vel.

Hagsmunir mínir í þessu máli eru engir og allra síst fjárhagslegir. En ég segi mína skoðun þegar mér ofbýður og það gerðist í þessari umræðu.

Ég geri ráð fyrir því að fólk berjist fyrir mörgu öðru en eiginhagsmunapoti og flokkshollustu. Ég geri það bara ekki þegar ég hugsa um Varmársamtökin, svo illa hafa þeir haldið á málum í mínum augum (og var ég nú á ykkar bandi í byrjun NB).

Eins og ég hef oft sagt þá hef ég ekkert við hugsjónir samtakanna eða baráttumál að athuga, það eru þær aðferðir sem samtökin og þeirra fylgifiskar nota til að koma sínum málum á framfæri sem fer fyrir brjóstið á mér.

Hjördís

Hjördís (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 12:19

7 identicon

Já, það er ekki þægilegt að vera sakaður um óheillyndi Hjördís ég er sammála því. Ég skrifa hér í eigin nafni en ekki í nafni Varmársamtakanna en allir meðlimir samtakanna hafa tjáningarfrelsi og birta sín skrif á bloggsíðunni á eigin ábyrgð. Eitt áhugamál Varmársamtakanna er íbúalýðræði og það birtist meðal annars í óritstýrðu tjáningarfrelsi. En svo að rétt sé rétt þá hefur Sigrún aldrei verið í stjórn Samfylkingarinnar og er ekki formaður Varmársamtakanna, hún heitir Berglind Björgúlfsdóttir.

Kristín Pálsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 13:05

8 identicon

Það sem þú gerðir Kristín var ekki bara að ásaka mig um óheilindi, það sem þú gerðir var mun alvarlegra en það þar sem þú veittist ekki bara að æru minni heldur og æru Karls Tómassonar. Þú ásakaðir mig fyrir að vera leiguþý sem væri föl fyrir peninga og um leið gafstu í skyn að Karl þyrfti að borga fólki fyrir að skrifa pistla sér til varnar. Ef þetta heitir ekki að veitast að fólki persónulega þá veit ég ekki hvað það er og það er nákvæmlega þetta sem ég hef verið að gagnrýna í framgöngu stuðningsmanna samtakanna, enn og einu sinni gerðust þið sek um nákvæmlega það. Þannig er það bara.

Enn einu sinni, Sigrún er flokksbundin manneskja, formaður eða ekki, og mikill og ötull talsmaður samtakanna. Hún hefur lýst því yfir að stuðningur stjórnmálaflokka sé kærkominn og það gerir maður ekki ef maður ætlar að sannfæra fólk um að maður sé að tala fyrir ópólitískt málefni. Þessvegna m.a. anga þessi samtök af pólitík.

Hjördís

Hjördís (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 13:35

9 identicon

Það væri mikill fengur af því ef allir stjórnmálaflokkar í bænum lýstu yfir stuðningi við frjáls umhverfis- og íbúasamtök eins og Varmársamtökin. Það er athyglinnar virði að á tímum neysluhyggju og sjálfumgleði skuli vera til fólk sem gefur hundruði dagsverka í mál sem brenna þeim á hjarta. Vissulega er ég "félagshyggjumaður eins og hann afi minn" og skammast mín ekkert fyrir það. Á sama tíma er starf í svona samtökum fyrst og fremst einstaklingshyggja. Að vera "activist" á einhverju sviði. Finna mál sem maður vill virkja sinn lífs- og sköpunarkraft til að hafa áhrif á farveg samfélagsþróunar.

Samtökin hafa komið mörgu góðu til leiðar á stuttum starfstíma. Mosfellsbær er að breytast úr svefnbæ í bæ þar sem fleiri hundruð manns eru áhugasamir um sitt nánasta umhverfi. Mæta á fundi um skipulagsmál og vilja vera þátttakendur í iðandi mannlífi. Álafosskvos og Mosfellsbær eru komin á kortið. Fyrirhugaðir eru listagjörningar, útimarkaðir og gönguferðir. Fyrir utan alla þá fjölbreytilegu virkni sem er í gangi. Þannig að samtökin eru bara á byrjunarreit.

Það er vissulega aldrei of oft brýnt fyrir fólki að vera málefnalegur. En rétt er að benda þeim sem að hér nýttu tækifæri sitt til athugasemda og notuðu það til að sverta Varmársamtökin voru ekkert að fjalla um efni bloggsins sem er það að Varmársamtökin hafa ákveðið að láta vinna samanburð á möguleikum við lagningu tengibrautar. Af hverju? Af því að endurtekið hefur því verið haldið fram að tengibraut um Álafosskvos sé besta lausnin. Síðan kemur í ljós, þegar reynt er að fá röksemdafærslur og útreikninga þessara sérfræðinga að keisarinn er ekki í fötum, ekki einu sinni smá strengur um miðjuna.

Hjálpumst að í því að beina athyglinni að meginmálinu. Þetta varðar framtíð bæjarins, útivistarmöguleika, söguminjar, náttúruvernd og möguleika bæjarins til vaxtar. Jafnvel hinar stærstu bandarísku bílaborgir skilja eftir stór græn svæði til að tryggja lífsgæði þeirra sem þar búa. Tengsl og orð mín til Karls Tómassonar hafa einkennst af velvild. En það merkir ekki að ég telji það eðlilegt að Karl og Bryndís fyrstu menn á listum VG safni atkvæðum (sbr. viðtöl í Sveitunga) út á ógnina af fyrirhuguðu umhverfisslysi í Kvosinni, en síðan fari allir þessir aðilar í þagnarbindindi um umhverfismál eftir kosningar. Og í stað þess að leggja Varmársamtökunum lið í verndunarbaráttu sinni þá hafa þau varið einhliða framsetningu verktaka og fjármagns.

Sem sagt, skautum ekki fram hjá aðalatriðunum. Verða græn svæði í bænum ekki verðmætari eftir því sem byggð í Mosfellsbæ þéttist? Ef bæjaryfirvöld hafa ekki gert samanburð á möguleikum við lagningu tengibrautar er það ekki fagnaðarefni að Varmársamtökin ætla að fá hlutlausa fagaðila til að gera hinum almenna bæjarbúa mögulegt að gera slíkan samanburð í stað þess að etja bæjarbúum saman undir merkjum eiginhagsmuna og tortryggni? Er ekki nauðsynlegt að stjórnmálamenn séu menn orða sinna, bæði fyrir og eftir kosningar? Er það bæjaryfirvöldum ekkert áhyggjuefni að úrskuðanefnd um skipulags- og byggingamál hafi talið það alvarlega galla á málinu að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar?

Hættum að vera í fýlu eða að hræða menn frá þessu máli. Álafoss, Heiðmörk og Þjórsá eru þrjú tákn sem vakið hafa mikla umræðu um umhverfismál síðustu missirin. Það er mikilvægt að við förum ekki fram úr okkur í framkvæmdagleði og græðgi. Það verður að opna málið varðandi staðsetningu tengibrautar við Álafosskvos. Varmársamtökin hafa verið og ætla að vera hrein og bein, óttalaus og kærleiksrík, víðsýn og fagleg.

Gunnlaugur B. Ólafsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband