Varmársamtökin fagna sigri í þriðja sinn á mánuði

VS_i_tengslumFélagar í Varmársamtökunum  fagna þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að setja tengibraut úr Leirvogstungulandi yfir Köldukvísl og Varmá að Skeiðholti í mat á umhverfisáhrifum. Er þetta þriðji sigur Varmársamtakanna í umhverfismálum í Mosfellsbæ á innan við mánuði.
Í lok janúar kærðu samtökin þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28.12.2006 til umhverfisráðherra að vegurinn sem til stendur að leggja yfir verndarsvæði í grennd við friðlýsta ósa Varmár skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Hefur ráðuneytið kæruna enn til meðferðar en í henni er þess m.a. krafist að allar framkvæmdir sem nú eru í farvatninu við bakka Varmár verði metnar sameiginlega og heildaráhrif þeirra á verndarsvæðið meðfram bökkum Varmár og Köldukvíslar skoðuð.
Í fundargerð bæjarstjórnar á vef Mosfellsbæjar frá því í morgun (15. mars) er þess getið að ákvörðunin hafi verið tekin í ljósi nýrra laga um umhverfismat áætlana, - en þau voru innleidd í íslenska löggjöf skv. tilskipun Evrópusambandsins í júní í fyrra. Ennfremur sé með samþykktinni verið að rétta íbúum sáttahönd sem er auðvitað sérstakt fagnaðarefni fyrir Varmársamtökin sem hingað til hafa þurft að leita ásjár löggjafans til að koma á úrbótum í umhverfis- og skipulagsmálum í bæjarfélaginu. Er þess skemmst að minnast að Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála felldi í febrúar sl. þann úrskurð í kjölfar kæru samtakanna að vafi léki á lögmæti deiliskipulags tengibrautar um Álafosskvos þar sem ekki hefði verið tekið tillit til laga um umhverfismat áætlana við gerð skipulagsins. Í framhaldi af úrskurðinum felldi Mosfellsbær deiliskipulagið úr gildi sem síðan varð til þess að Skipulagsstofnun ákvað að byrja þyrfti skipulagsvinnuna frá grunni með tilliti til ofangreindra laga um umhverfismat áætlana.
Einn fulltrúi minnihlutans í bæjarstjórn bar upp þá tillögu í bæjarstjórn sl. sumar að tengibrautin úr Leirvogstungulandi yrði sett í mat á umhverfisáhrifum burtséð frá lagaskyldu og var sú tillaga kveðinn í kútinn af meirihlutanum með miklu háreisti.
Það er mikill áfangi að upplifa nú þessa stefnubreytingu í átt til lýðræðis hjá bæjarstjórnarmeirihlutanum Mosfellsbæ. Er ekki bara ómissandi fyrir lýðræðið að boðað sé til kosninga á fjögurra ára fresti?

varmarsamtokin@gmail.com


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjördís, nú ferðu fram úr þér enn og aftur!

Þú verður að kynna þér mál áður en þú hleypir heimdraganum í leitinni að stóra samsærinu. Heldurðu kanski að það séu Norðmenn á bakvið þetta allt saman???? Þér til fróðleiks er byrjun fundargerðar bæjarráðs Mosfellsbæjar 15.3. eftirfarandi;

1.      200702090 - Erindi Umhverfisráðuneytisins varðandi kæru Varmársamtakanna

Til máls tóku: HSv, JS, RR, MM og KT.

Bæjarráð samþykkir að Tunguvegur, tengivegur frá Leirvogstungu og Tungubökkum að Skeiðholti skuli fara í formlegt umhverfismat skv, lögum nr.106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Þannig að Varmársamtökin kærðu það til Umhverfisráðuneytis að Mosfellsbær ætlaði ekki með Tunguveg í umhverfismat, en síðan skipti meirihlutinn um skoðun í gær. Það voru sem sagt ekki Norðmenn á bak við þetta heldur Varmársamtökin og það er ekkert óeðlileg að þau fagni. Þau eru "bees" en ekki "wannabees".

Þú getir samglaðst okkur með þetta allt sem áunnist hefur að vandað sé til verka á þessu sviði og að umhverfisáhrif séu könnuð og mismunandi leiðir. Eins og allir geta séð þá er þessi vegur óþarfur. Hægt er að búa til tengingu við Vesturlandsveg þannig að menn eru alveg jafn lengi í Krónuna eða Bónus eins og að fara yfir reiðstíga og göngustíga, fram hjá skóla og íþróttamannvirkjum. Þar sem umferðin er nú ansi þung fyrir.

Með öflugum mislægum gatnamótum á Vesturlandsvegi er hægt að fóðra bæði nýju hverfin -Leirvogstungu og Helgafell. Það eru margir möguleikar í stöðunni, aðalmálið er að vera ekki í einhverju endalausu viðnámi. Hvernig vilt þú hafa umferðarmálin og útivistina í bænum okkar?

Settu þér það markmið, ef þú ætlar að smella inn einni athugasemd í viðbót inn á heimasíðu Varmársamtakana, frjálsra og opinna íbúa- og umhverfissamtaka í Mosfellsbæ, að hún nái að vera uppbyggjandi og sé ætlað að efla og styrkja innviði bæjarfélagsins.

             Framtíðin er ekki falin .... gangi þér vel ....                         

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 01:25

2 identicon

Jæja nú er nóg komið.  Ég nenni ekki lengur að fá þetta þrautleiðinlega raus þitt á síðuna - finndu þér annan vettvang.  Ég vil minna þig á að við erum ekki í neinu dundi og við erum ekki á launum við okkar störf í Varmársamtökunum og ég hef engan áhuga á að eyða tíma í þessi leiðindi í þér.  Varðandi pólitískan fnyk þá er það rétt að pólitík er oftast óttalega ómerkileg - því miður eru okkar mál hins vegar háð pólitískri ákvarðanatöku og að sjálfsögðu ræðum við pólitísk mál og bara hið besta mál að sum okkar séu í einhverju pólitísku starfi.  Sjálf er ég ekki flokksbundin og ég býst við að aðrir í okkar röðum sem ekki eru virk í stjórnmálaflokki séu orðin býsna þreytt á þvarginu í þér

Sigrún Guðmundsdóttir ritari Varmársamtakanna

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 19:12

3 identicon

Ágæta Hjördís.

Hér kemur þú, enn einn ganginn, með órökstuddar og meiraðsegja kolrangar fullyrðingar. Heldur því fram að Varmársamtökin séu farin að ruglast á tengibrautum og setur ofaní þau fyrir að monta sig af einhverju sem þau eiga engan þátt í. Þú hefur nefnilega “ekki hingað til séð samtökin berjast fyrir Tunguvegi.” Það er ekki von að þú hafir séð það, samtökin hafa aldrei barist fyrir Tunguvegi. Þau hafa hins vegar mótmælt – og það formlega – að fyrirhuguð tengibraut að Leirvogstunguhverfinu skuli ekki þurfa að sæta mati á umhverfisáhrifum.  En þetta var auðvitað útúrsnúningur, stílbragð sem þú ættir að kannast ágætlega við, nógu oft beitir þú því sjálf, sbr. Norðmannafyndni þína hér fyrir ofan.

En, ókei, gefum okkur að þú hafir einmitt átt við að þú hefðir ekki orðið vör við að Varmársamtökin hafi lagst gegn nefndri tengibraut. Af því dregur þú þá ályktun að Varmársamtökin hafi ekki lagst gegn henni. Það sem þú ekki verður vör við, gerist semsagt ekki. Slíkur málflutningur er ætíð varasamur, einsog sannast best í þessu tilfelli.

Þú segir málflutning okkar í Varmársamtökunum einnig vekja þá tilfinningu með þér, að við höfum tilnheigingu til að líta svo á að við séum allsráðandi í bæjarfélaginu og að allt sem hér gerist sé greinilega samtökunum að þakka. Hvað það er í okkar málflutningi sem vekur þér þessa tilfinningu er mér algjörlega hulið. Við höfum hins vegar barist fyrir verndun Varmár, í samræmi við tilgang samtakanna, og orðið talsvert ágengt í þeirri baráttu. Það, að við skulum gleðjast yfir þeim árangri kallar þú mont. Kallar það meiraðsegja flottræfilshátt áður en þér er vinsamlega bent á að miðað við þín eigin skilyrði fyrir því að fólk megi vera ánægt með sjálft sig – þ.e. að fólk þurfi að hafa unnið sér inn réttinn til þess – eru að öllu leyti uppfyllt í þessu tilfelli. Nema þú haldir að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefði tekið það upp hjá sjálfri sér að setja Leirvogstunguveginn í umhverfismat, bara svona uppá grínið, óháð okkar baráttu. Og ákveðið að stöðva framkvæmdir við Helgafellstengibrautina, líka svona uppá grínið.

Ég held að fáir muni fallast á þá skýringu, ekki einusinni þeir sem mest hrista hausinn yfir vitleysunni í þessu undarlega fólki sem þykir meiri ástæða til að passa uppá einhvern ómerkilegan læk en að greiða leið verktakanna og bílaguðsins mikla.

Nei, meiraðsegja þeir sem mest býsnast yfir þessu guðlasti okkar býsnast nú enn meira yfir því að látið skuli undan vitleysunni í "þessu liði", því þeir vita sem er að það er einmitt það sem gerðist. Það var látið undan eindregnum kröfum Varmársamtakanna – þótt auðvitað væri það ekki sagt berum orðum.

Ekki ætla ég að hreykja mér af því, frekar en aðrir í Varmársamtökunum, en ég gleðst yfir því, ég fagna þessari ákvörðun meirihlutans og þykir nokkur mannsbragur yfir henni. Finnst hún bera vott um að einhverjir séu farnir að átta sig á því að betra sé að vinna í sátt og samlyndi en að vaða bara áfram hvað sem hverjum kann að finnast.

Það hlýtur að vera fagnaðarefni, hvar í flokki sem menn standa, að yfirvöld skuli hlusta á íbúana, og í þessu tilfelli vill svo til að það eru íbúarnir í Varmársamtökunum sem hlustað var á – við hljótum því að mega að gleðjast, ekki satt?

Þér, Hjördís, sem af einhverjum ástæðum sérð oft og tíðum ástæðu til að tjá þig hér á þessari síðu um málefni og málflutning Varmársamtakanna af mikilli vandlætingu og jafnvel fyrirlitningu, að ógleymdri fordæmingunni, verður einnig tíðrætt um persónulegt skítkast, vandlætingartón annarra og lágkúrulegan og ómálefnalegan málflutning. Aðrir lesendur þurfa væntanlega ekki annað en lesa athugasemdir þínar við þessa færslu til að sjá að hér rignir grjótinu úr glerhúsinu.

Hálfkveðnu vísurnar eru fleiri en tölu verður á komið, dylgjurnar drjúpa af hverri málsgrein og vandlætingin kraumar undir öllu – að við skulum voga okkur ...

Nei, athugasemdir þínar flokkast seint sem málefnaleg innlegg í umræðuna er ég hræddur um, sem kemur óneitanlega á óvart í ljósi þeirrar áherslu sem þú virðist leggja á einmitt slíkan málflutning.

Þú, Hjördís Kvaran, þarft nefnilega að setja upp hin gleraugun – þessi fordómalausu – og lesa athugasemdirnar þínar aftur. Kanna hjarta þitt og athuga hvort þær hitti ekki helst sjálfa þig fyrir þegar að er gáð. Þessi heift þín og illmælgi í okkar garð verður ekki skýrð með öðru en einhverskonar blindu. Hvaða blinda það er veit ég ekki, þú kemst vonandi að því sjálf fyrr eða síðar og finnur leið til að losna við hana. 

Varmársamtökin eru vissulega pólitísk samtök, því umhverfismál eru rammpólitísk mál, einsog Vinstri-Græn vita manna best og gera enda flokka mest úr þeirri staðreynd. Varmársamtökin eru hinsvegar ekki flokkspólitísk og allar þínar dylgjur um annað breyta því ekki. Innan þeirra eru allra – ALLRA – flokka kvikindi, skal ég segja þér, enn og aftur, og flest okkar laus við alla flokksklafa, ég sjálfur þar með talinn. Ófá hinna óflokksbundnu hafa meiraðsegja talið sig eiga meiri samleið með Vinstri-grænum en öðrum flokkum – OG TELJA ÞAÐ ENN, þrátt fyrir þetta tengibrautaklúður alltsaman. Því klúður er það, hvernig sem á það er litið, og ekki síst í ljósi ummæla bæjarfulltrúa VG um nákvæmlega þessa tengibraut í aðdraganda kosninganna.

Það skyldi því engan undra að framganga – eða skortur á framgöngu – þessa flokks í þessu máli hafi valdið akkúrat þeim hópi sem kaus hann nokkrum vonbrigðum. Ekki er mér illa við Karl Tómasson enda þekki ég hann lítið sem ekkert þótt við höfum hist nokkrum sinnum og skipst á vinsamlegum orðum. Persónuleg óvild í hans garð er mér fjarri og margt sem hann hefur til málanna lagt er aldeilis ágætt. En jafnvel þótt við Karl værum aldavinir og VG áskrifandi að atkvæði mínu mundi það ekki skuldbinda mig til skilyrðislausrar fylgispektar í öllum málum, óháð því sem mér kynni að finnast um þau hverju sinni.

Það er nefnilega mikill – og alltof algengur – misskilningur, að þeir sem styðja ákveðinn flokk í kosningum og hallast almennt að þeim skoðunum sem þar eru uppi, eigi að verja allar þeirra gjörðir framí rauðan dauðann, hversu vitlausar og á skjön við grundvallarstefnu viðkomandi flokks – og fyrri yfirlýsingar viðkomandi stjórnmálamanns – sem þær kunna að vera. Og þau eru vandfundin, málin, sem eru meira á skjön við grundvallarstefnu VG og fyrri málflutning fulltrúa hans í bæjarstjórn en einmitt fyrirhuguð skemmdarverk á náttúruperlunni Varmá. Það skyldi því engan undra að mörg þeirra sem bera hag VG hvað mest fyrir brjósti eru einmitt á meðal þeirra sem hvað mest var brugðið við tíðindin af fyrirhuguðum framkvæmdum.

Við erum að berjast fyrir framtíð og verndun Varmár og Varmárbakka og gegn hverjum þeim framkvæmdum sem stefna þeim í voða. Við erum hinsvegar ekki að berjast gegn eða fyrir neinn stjórnmálaflokk. Það, að fulltrúi samtakanna skuli fagna því að Framsókn og Samfylking skuli taka undir málflutning okkar er eðlilegasti hlutur í heimi – eða mundir þú ekki fagna því, ef málsmetandi fólk tæki undir með þér í baráttu þinni fyrir þínum hjartans málum? Mundir þú kannski aðeins fagna því ef sá stuðningur kæmi frá “réttum” flokkum?

Við fögnum altént hverjum þeim liðsmanni, sem tilbúinn er að leggjast á árar með okkur til verndar Varmánni – og því fögnum við stefnubreytingu Sjálfstæðisflokks og Vinstri-Grænna hvað Leirvogstungutengibrautina snertir.

Og, að síðustu: Já, Hjördís, þér er heimilt að segja þína skoðun á samtökunum hvar og hvenær sem er, síst skal ég amast við því. Og það er alveg hárrétt hjá þér að hér á þessum vettvangi er ÖLLUM heimilt að tjá sig, ekki bara einhverjum sérútvöldum. Sá víðfeðmi flokkur, ALLIR, telur hinsvegar einnig þau okkar, sem finnst það helvíti hart að sumir skuli misnota þá gestrisni til að vaða um allt á skítugum skónum og segja gestgjafana ganga erinda ákveðinna stjórnmálaflokka, saka þá um ómálefnalegan málflutning, dylgjur, skítkast og rangtúlkanir hægri og vinstri um leið og þeir beita einmitt þeim óvönduðu meðulum óspart sjálfir ásamt góðum slatta af útúrsnúningum þegar þeir villast útí horn – sem gerist pínlega oft í sumum tilfellum.

Sem einarðri talskonu tjáningarfrelsisins ætti þér heldur ekki að koma á óvart, að rétt einsog þú telur þig í fullum rétti til að tjá skoðanir þínar á málflutningi okkar hér á þessari síðu, þá teljum við okkur hafa óskoraðan rétt til að tjá skoðanir okkar á þínum málflutningi: Til að láta þig vita að við séum orðin leið á rausinu í þér. Við höfum meiraðsegja fullan rétt til að biðja þig að vera bara úti ef þú getur ekki hagað þér einsog manneskja. Hvort þú ferð eftir því er auðvitað þitt mál.

En mikið þætti mér vænt um ef þú legðir það á þig að kynna þér almennilega – með hinum gleraugunum – hvað  það er sem við berjumst fyrir, hverju við höfum áorkað, hugtakið íbúalýðræði og muninn á pólitík og flokkspólitík áður en þú kíkir í heimsókn næst.

 

Hafðu það huggulegt,

bestu kveðjur,

Ævar Örn Jósepsson.

Ævar Örn Jósepsson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 05:41

4 identicon

Heil og sæl, ef þið þorið!

Ég er orðinn endanlega sannfærður um að Norðmenn eru á bak við þetta. Ég hef á fjórtán árum í Mosfellsbæ mætt fjórum sinnum á fund samtaka sem hafa lýst vilja sínum að efla samstarf félagshyggjufólks í landinu og lýðræðisleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Á einum fyrsta fundinum hitti ég á Hjördísi Kvaran. Nú skil ég afhverju hún hvarf. Norðmenn hafa ákveðið að nota hluta af olíugróðanum til að fá leiguþý til að magna upp sundurlyndi í bæjarfélaginu svo draumar og þrár fólks fái aldrei að verða að veruleika. Svo fólk vilji frekar einveldi heldur en lýðræði, svo fólk verði fælt frá því að tala fyrir því að allir þættir verði vegnir og metnir, en ekki bara hagsmunir fjármagns og verktaka.

Þetta er ekki allt, það sem verra er, Norðmenn hafa ákveðið að setja stóran hluta af olíugróðanum í að magna upp sundurlyndi Vinstri grænna í Mosfellsbæ. Fyrrum formaður þeirra hætti eftir að farið var í sæng með íhaldinu. Fjöldi fólks hefur sagt sig frá flokknum og þeir fáu sem eftir eru hafa ákveðið að stinga höfðinu í sandinn, frekar en taka þátt í almennri umræðu meðal bæjarbúa um náttúruvernd og skipulagsmál.  Þetta er ótrúlegur árangur Norðmanna að kaupa allt þetta fólk frá lífsgildum sínum.

Það sem er verst, ég held að þetta sé bara byrjunin. Loft er lævi blandið og við vitum ekkert hvað bæjarstjórn er að hugsa. Óttast að Norðmenn eigi enn eftir að koma með fjárframlög sem að munu vera það há að það þaggi endanlega niður í umræðu bæjarbúa um þróun síns nánasta umhverfis. Varið ykkur, ef þið fáið inn um lúguna hagstæð tilboð á gröfum og jarðýtum! Það er ekki allt sem sýnist .....

                 Farið varlega ...

                                við sjáumst .... 

                                               kannski ....

                                                              síðar

                   

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband