Vel heppnuð dagskrá á Álafossi

Bjarki leiðsögn 18.03.07Mikið var um dýrðir í Álafosskvos í dag þar sem allar dyr stóðu opnar upp á gátt fyrir gesti og gangandi sem steymdu í Kvosina. Íbúar og fyrirtæki við Álafoss buðu upp á fjölbreytta dagskrá sem hófst á fögrum tónum Álafosskórsins.  Í Þrúðvangi voru sýndar gamlar og nýjar ljósmyndir og fróðleg myndbönd sem endurspegluðu þá ótrúlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Kvosinni undanfarin ára. Berglind Björgúlfsdóttir söng sig inn í hjörtu áheyrenda í stigagangi gamla verksmiðjuhússins, málverk Björns Roth voru til sýnis á vinnustofu listamannsins, Palli hnífasmiður var við vinnu á verkstæði sínu, Ásgarðsmenn buðu upp á gómsætar veitingar, stúdíó Sigur Rósar stóð öllum opið og Gunnlaugur ATORKUMAÐUR  og Gigga hómópati kynntu starfsemi sína o.fl., o.fl. Bjarki Bjarnason leiddi gesti um svæðið og sagði sögu uppbyggingar á Álafossi frá lokum nítjándu aldar. Frásögn hans af Sigurjóni Péturssyni og lífinu í verksmiðjunni var bæði fróðleg og skemmtileg.
Eftirfarandi frásögn af einni fyrstu skemmtun í Mosfellsbæ í febrúar 1896 er birt með góðfúslegu leyfi sagnfræðingsins.

Var veður blítt, en vott á jörð

Árið 1896 var fyrsta verksmiðjuhúsið að Álafossi tekið í notkun. Húsið var þá stærsta hús sveitarinnar  ásamt Lágafellskirkju sem Mosfellingar höfðu reist nokkrum árum fyrr. Á þeim árum var ekkert stórt samkomuhús til í Mosfellssveit og því kjörið tækifæri fyrir sveitungana að koma saman í tóvélahúsinu.
2. febrúar 1896, um það leyti sem verksmiðjuhjólin tóku að snúast að Álafossi, efndi Lestrarfélag Lágafellssóknar til mikillar samkomu á Álafossi sem stóð í um það bil hálfan sólarhring og var ein fyrsta almenna skemmtunin sem efnt var til í Mosfellssveit. Um 140 manns sótti mannamótið og var aðgangseyririnn 25 aurar.
   
Farandblað lestrarfélagsins, Umfari, greindi frá samkomunni og er frásögnin stórskemmtileg og ómetanleg heimild um tíðarandann í Mosfellssveit seint á 19. öld.  

„(2. febr. 1896) var að tilhlutun Lfl. Lfs., eða stjórnarnefndarinnar, haldin almenn samkoma að Álafossi, í hinu nýbggða ullarvinnuvélahúsi þar, sem húseigandinn, hr. Björn Þorláksson léði fyrir væga borgun, og með hinni liðlegustu framkomu við félagsstjórnina og gestina gjörði dvölina þar svo þægilega, sem unnt var.
Samkoman byrjaði kl. 6. e.h. með því, að flokkur karlmanna söng nýtt kvæði, Mótið, fjórraddað (eptir að Björn frá Reykjahvoli, er af hendi félagsstjórnarinnar stýrði samkomunni, hafði opnað hana með fám orðum). Því næst sté Ólafur Gíslason í ræðustólinn og flutti fyrirlestur um „þjóðlífið fyrr og nú“ mikið liðlega saminn. Þá var tíu mínútna hlé. Svo söng flokkurinn tvö alþýðleg lög (3var hvort). Þá var settur málfundur, og hverjum manni leyft að bera upp hvert það mál, er hann lysti. Einar í Miðdal talaði þá erindi nokkurt um barnakennslu til sveita. Björn á Reykjahvoli talaði um að taka upp líkamlegar æfingar, einkum böð og sund. Eggert Hólm vék að fyrirlestri Ólafs (en boðið var til umræðu um hann þegar honum var lokið, og kom þá enginn fram). Af konum tók engin þátt í umræðum þessum, nema Vilborg húsfreyja í Miðdal. Nú stakk Björn á Reykjahvoli upp á, að lesa húslestur að heimasið, og bar undir atkvæði hvort svo skyldi gera. Urðu miklu fleiri atkv. með því. Las þá Kristrún húsfreyja á Reykjahvoli dagsins lestur í Pálspostillu, „um köllunina“, dáðhvetjandi þjóðhagsbóta-fyrirlestur. Sungið var „Þú, Guð, sem stýrir stjarna her“ fyrir, en „Við freistingum gæt þín“ á eptir. Má álíta að þetta hafi mikið prýtt samkomuna, og kastað yfir hana friðsamlegum heimilisblæ, eins og slíkar skemmtisamkomur eiga að hafa. - Nú var enn, eptir stutt hlé, sungið eins og fyr. Þá flutti Björn á R.hv. fyrirlestur alllangan „um illgresi í þjóðlífs-akrinum.“  Umræður út af honum hóf Mattías frá Móum, þó byggðar á misskilningi sumpart. Svaraði Björn honum. Eggert Hólm talaði einnig út af fyrirl. fyrst, en síðan alllangt erindi um Árnakrók, er eigi var tóm til að ræða frekar, því sumt unga fólkið var orðið óþreyjufullt að bíða eftir danzinum. Var nú enn sungið (3 lög) og að síðustu  „Í danz - í danz“, og skiptust menn þvínæst svo, að danzfólkið skipaði sér í stærstu stofuna en hitt í hinar. Var þá kl. nálægt 12, er hljóðfærin tóku að kveða danzlögin. Þeir, sem eigi dönzuðu, tóku nú að spila, („kött“, vist, gosa) sumir „upp á aura“, aðrir sungu, ræddu saman, keyptu kaffi, vindla eða „cocolade“ hjá Guðlaugi frá Helgafelli, sem veitti vel og myndarlega alla nóttina (tók að sér að gera það, að öðrum frá gengnum). Eggert Hólm vildi sýna leiki; voru þá reynd hástökk jafnfætis. Tóku nokkrir þátt í því og mun Jónas Ásgrímsson, Rvík, og Björn á Rhv. hafa þótt stökkva liðlegast, en hæzt stukku þeir E. Hólm og Jónas Ás. Þá var reynt að slíta 3 punda línu lúna milli handanna í lófalykkju, en eigi tókst það öðrum en Guðsteini í Lvtungu, af þeim fáu, er reyndu. Þá fóru menn að togast á með snærinu 3földu í lykkju, og spyrnti sinn hvorumegin í dyra-umbúning; komust í það flestir karlmennirnir. Munu þeir Magnús í Lambhaga og Eiríkur í Miðdal hafa þótt togast hraustlegast. Nokkrir glímdu, og mun bræðrunum Ingvari frá Reykjahvoli og Guðm frá Lambhaga hafa farizt það liðlegast, enda jafnir. Söng var haldið uppi öðru hvoru. Honum stýrði Björn á Álafossi (flokkstjóri). Kl. 6 ½ morgun var samkomunni sagt slitið, og fóru þá allir að týgja sig. Var veður blítt, en vott á jörð.

Eftirmáli
„Einar í Miðdal missti staf, á samkomunni á Álafossi í nótt er leið, úr bambusreiri, ljósgulan að lit. Er húnninn skrúfaður á og við hann fest stika, sem gengur ofan í rörlegginn. Hafi hann verið misgripinn í dimmunni eða finnist, er beðið að koma honum til skila.
Annan staf missti Guðm. yngri í Elliðakoti, útlendan lágstaf úr birki, er hann biður skilað, ef finnst.  --------------------------
Varla mun unnt að segja annað, en að samkoman í Álafossi hafi tekizt vel eptir öllum ástæðum. Hið helzta, sem glepja vildi fyrir, var óþreyja danzfíknustu unglinganna að hlíða á síðari fyrirlesturinn, sem sérstaklega var þó gjörður þeirra vegna; en slíkan ungdóms-breyskleika verður að virða á hægra veg.“

Úr bók Bjarka Bjarnasonar og Magnúsar Guðmundssonar: Mosfellsbær saga byggðar í 1100 ár. Pjaxi ehf. 2005.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég þakka kærlega fyrir góða gestrisni og skemmtilegan dag í kvos við Álafoss.......Sigrún Guðmunds

Sígrún (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband