Varmárdalur - með og á móti

Helgafellsbraut, tillaga 2Bæjarstjórn Mosfellsbæjar segir iðulega að tengibrautarmálið snúist um 500 m vegspotta. Hún er nýkomin með það útspil að tvöföldun hringtorgs í Kvosinni verði látið duga en umferðarsérfræðingar og Vegagerð segja það algjörlega óásættanlegt að stefna umferð með aðliggjandi brekkum sitthvoru megin á Vesturlandsvegi og umferð 10 þúsund bíla úr Helgafellshverfi inn í áformað hringtorg. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að tengibrautin komi undir Vesturlandsveg og setji Brúarland upp á umferðareyju, ásamt því að gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar. Jafnframt þarf að taka tillit til þess þegar heildarmyndin er metin að gert er ráð fyrir mislægum gatnamótum á fyrirhugaðan Hafravatnsveg (nú Reykjaveg). Því verðum við að gera ráð fyrir hinum alvarlegu afleiðingum sem það hefur í för með sér að leggja tengibrautina undir Vesturlandsveg og koma þannig þvert á reiðleiðir og göngustíga, nálægt íþrótta- og skólasvæði og þeim lamandi áhrifum sem slíkt hefur á miðbæinn.

Þrjú meginrök hafa heyrst gegn tillögu Varmársamtakanna um að í stað tengibrautar um Álafosskvos, þá verði byggð upp mislæg gatnamót ofan og norðan við núverandi Helgafellshverfi.

1. Hvassviðri
Að vegtenging um Ása muni vera staðsett á veðrasömu svæði. Verkfræðingar telja hinsvegar að auðvelt sé að móta landið þannig að þetta verði ekki vandamál. Einnig er eðlilegt að við höldum eftir skjólbetra svæðinu fyrir mannlíf og útivist. Umferð upp í Mosfellsdal hefur í aðalatriðum gengið vandræðalaust með tilliti til veðurs, en með tillögu samtakanna kemur einnig varanleg lausn á Þingvallavegsafleggjara.

2. Aukin vegalengd
Því er haldið fram að íbúar hins nýja hverfis þurfi að fara lengri leið í miðbæ Mosfellsbæjar með þessari tillögu. Það fer eftir hvar viðkomandi væri staðsettur. Ef ökumaður er að koma úr Reykjavík á leið í nýtt Helgafellshverfi þá myndi hann samkvæmt fyrirliggjandi aðalskipulagi og hugmyndum þurfa að taka hægri slaufu undir Vesturlandsveg á mislægu gatnamótum við Hafravatnsveg. Stefnt að miðbænum og síðan meðfram Brúarlandi og undir Vesturlandsveg í Kvosinni, meðfram Álafossi og upp í hverfið. Stærsta hluta þessarar leiðar um lífæð bæjarins væri hámarkshraði 30 km vegna hávaða og slysahættu. Hinsvegar samkvæmt tillögum Varmársamtakanna er hægt að fara á 90 km hraða upp að fyrirhuguðum mislægum gatnamótum, beygja til hægri og halda 50-70 km hraða inn í hverfið. Mun greiðfærari og betri lausn með tilliti til umferðar. Nokkur hundruð metrum lengri fyrir þá sem búa næst Varmá. En þeir fá líka tengslin við náttúruna. Húsin næst Fossvogsdalnum eru eftirsóttust. Menn leggja á sig smákrók fyrir þau lífsgæði.

3. Skert vegtenging við Álafosshverfi
Því hefur verið haldið fram að Álafoss verði úrleiðis með þessari hugmynd. Það er vissulega rétt miða við tengsl með hringtorgi. En þegar farið er eftir aðalskipulagi og afstöðu vegagerðar um að leggja hringtorgið af ásamt því að byggja upp mislæg gatnamót við Hafravatnsveg þá er ekki allur munur á hvort að rúta tekur slaufu í gegnum miðbæinn og meðfram Brúarlandi eða inn á mislæg gatnamót út af Vesturlandsvegi og gegnum Helgafellshverfi. Umferðarsérfræðingar telja þessi tengsl verða góð og þá er að kanna hvort að rútubílstjórar telja eina slaufu betri en aðra. Auk þess eru það mikil sóknarfæri ferðaþjónustu að koma inn í Álafosshverfið sem veröld út af fyrir sig og með aðalgöngustíg bæjarins um hlaðið. Ég vildi persónulega frekar fara á kaffihús í slíku umhverfi en að hafa yfir sér tengibraut með mikilli umferð.

Varmársamtökin hafa lagt fjármuni og vinnu í nýjar hugmyndir sem ætlað er að hámarka gildi náttúruverndar og útivistar. Það sem gerir tillögurnar enn betri er að með þeim er einnig sýnt fram á mjög góða lausn fyrir bílaumferð í Mosfellsbæ. Það er mun meira en fyrirliggjandi hugmyndir gera. Varðandi veglagningu um Álanes þá er hún inn á aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Nýlega barst Varmársamtökunum bréf frá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ þess efnis að óráðlegt væri að taka þessa þverun Varmár ofan Álafosskvosar út af skipulagi en þá tillögu bárum við upp í athugasemdum við það deiliskipulag Helgafellslands sem liggur að Varmá. Lega vegarins byggir því ekki á frumkvæði Varmársamtakanna heldur á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem einnig kemur fram í deiliskipulagi Helgafellslands, 3. áfanga.

Með því að lyfta Vesturlandsvegi með brú yfir Varmá við Álafosskvos, leysa vegtengingar við nýju hverfin með mislægum gatnamótum og endilega taka út vegtengingu við Álanes, ef það er niðurstaða bæjarstjórnar, þá erum við komin með útivistar- og verndarsvæði sem er með því besta á höfuðborgarsvæðinu. Metnaðarfull stefnumótun og býður upp á mikla framtíðarmöguleika með mannlífi sem einkennist af heilsueflingu og útivist. "Varmárdalur" væri ekki síðri en Laugardalur, Elliðaárdalur eða Fossvogsdalur. Hann væri stilkurinn sem lægji að hringleiðum á fellin fjögur umhverfis Mosfellsbæ. Með þeim fjögurra laufa smára væri ekki hægt að óska sér neins betra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband