Manneskjan og maskínan

Eftir Bryndísi Schram
Erindi flutt á borgaraþingi íbúasamtaka á höfuðborgarsvæðinu 31. mars 2007

Bryndís á íbúaþingi í ÁlafosskvosHvaðan ætli hugmyndir mínar um manneskjulegt samfélag séu ættaðar? Ég er hvorki verkfræðingur né skipulagsarkitekt  - og þakka stundum guði fyrir það! Ég nálgast því viðfangsefnið hvorki út frá bóklestri né fræðimennsku – heldur  út frá persónulegri reynslu. Ég er ekki í nokkrum vafa, að reynsla mín sem leiðsögumaður ferðamanna í sex sumur á Ítalíu og í öðrum löndum á menningarsvæði Miðjarðarhafsins, hafði mótandi áhrif á mínar hugmyndir  um það, hvernig manneskjulegt borgarsamfélag ætti að vera. Eilíft flakk um meginland Evrópu frá Valencia til Varsjár og frá Rigu til Rómar hefur áreiðanlega skilið eftir sín áhrif.
Hvað er það sem gerir hið dæmigerða þorp gömlu Evrópu svona aðlaðandi? Aftur er ég ekki í vafa: Það er mannfélag með sögu og sál. Þorpið er til að þjóna mannlegum þörfum. Það er byggðarlag byggt fyrir fólk. Það er í mannlegum skala. Þess vegna fullnægir það fegurðarþránni og þóknast auganu. Það á sér djúpar sögulegar rætur. Hér hafa margar kynslóðir gengið um torg og stræti. Þess vegna tilheyra íbúarnir borginni sinni og hafa náð að skjóta þar djúpum rótum.
Einhvern veginn svona finnst mér, að borgin eigi að vera. Hún byggist út frá torginu. Torgið er þungamiðja mannlífsins. Allra leiðir liggja þangað. Þar er kirkjan og ráðhúsið – tákn hins geistlega og hins veraldlega. Þar eru bakarinn, sútarinn og skóarinn. Og vertshúsin standa öllum opin. Þar er líka markaðurinn. Bændur í nærliggjandi héruðum koma þangað til að selja afurðir sínar. Og þá er nú heldur betur líf í tuskunum.
Gróskumikið mannlíf og litskrúðugt – það er þetta sem gefur borginni aðdráttarafl. Iðandi mannlíf er sama sem lifandi borg.
En er þetta ekki bara útópía – draumur frá liðinni tíð? Víst er eitthvað til í því. Þorpið gerði hvergi ráð fyrir bílnum í sínum microcosmos . Sums staðar er bílinn bannfærður; annars staðar hefur gömlu hesthúsunum verið breytt í bílskúra. En borgir vaxa og draga dám af breyttum tímum. Borgir þurfa að gera ráð fyrir vaxandi íbúafjölda, breyttum atvinnuháttum og nýrri samgöngutækni. Því aðeins að þeim takist að fullnægja nýjum þörfum íbúanna með því að taka í þjónustu sína nýja tækni,  -  án þess að tortíma sögu sinni og sál – því aðeins að þetta takist, verður vefur mannlífsins heill og óskemmdur. Þetta er ögrun borgarskipulagsins.

Draumaborgin
Hvernig hefur þessum dæmigerðu evrópsku borgum, með hálfa til tvær milljónir íbúa tekist, að laga sig að breyttum tímum?
Það er fyrst og fremst spurning um, hvernig hin gamla og sögulega miðborg leysir samgönguþarfir ört vaxandi borgar. Ég bjó í þrjú ár  í dæmigerðri borg af þessu tagi – Helsinki, höfuðborg Finnlands. Hún er byggð á nesi, sem liggur út að  finnska skerjagarðinum, sem er djásn borgarinnar. Helsinki á sér sögu og sál aftan úr rússneskri fortíð, með svolítlu sænsku ívafi. Þar búa um milljón manns á svæði, sem er talsvert minna um sig en  höfuðborgarsvæðið okkar þarf fyrir sín 150 þúsund.
Hver er höfuðkostur Helsinkiborgar? Einhverjar bestu almannasamgöngur í Evrópu. Samgöngukerfið er æðakerfi borgarinnar. Ef það stíflast, fær borgin kransæðastíflu.  Helsinki hefur þrefalt kerfi almanna- samgangna: Járnbrautalestir, sporvagna og strætó.  Kjarni málsins er þessi: Þú kemst allra þinna ferða um þessa höfuðborg, örugglega og á skömmum tíma, án þess að þurfa einkabíl. Borgin virkar snurðulaust. Það er ekkert umferðaröngþveiti, engin kransæðastífla. Helsinki hefur varðveitt í sér þorpið. Markaðurinn – miðborgin – iðar af lífi.

Hvað þýðir þetta fyrir mannlífið?
Það þýðir til dæmis, að fólk með ólíkan lífsstíl getur notið kosta borgarlífsins, þótt það geri ólíkar kröfur til tilverunnar. Þú getur verið fátækur og hamingjusamur stúdent, sem átt engan bíl, en samt komist leiðar þinnar. Þú getur verið einstæð móðir í leiguhúsnæði, sem átt ekki bíl, en getur samt fyrirhafnarlítið notið þeirrar þjónustu, sem borgin býður þér og börnum þínum. Þú ert ekki dæmd til að reisa þér fjárhagslegan hurðarás um öxl með því að kaupa þér íbúð í úthverfi og bíl upp í skuld til þess að geta komist leiðar þinnar til vinnu, með börnin í skóla og s.frv.  Þetta skiptir meira máli en margur heldur: Borgin á að bjóða fólki val um lífsstíl, og hún á að gera öllum, ríkum og fátækum, ungum og öldnum, jafnt undir höfði. Skapa þeim jöfn tækifæri til að njóta lífsins. Og borgin á ekki að dæma fólk í skuldafangelsi – né heldur að steypa alla í sama mótið.  Það er hluti af hinu eiginlega íbúalýðræði.

Höfuðborg Íslands: amerísk bílaborg
Hvernig kemur höfuðborg Íslands út í þessum samanburði?
Ég þykist vita, að það geti þótt viðkvæmt mál að svara þeirri spurningu hreinskilnislega, þótt sjón sé sögu ríkari.  Um eitt getum við þó alla vega verið sammála.  Sjálft borgarstæðið er frá náttúrunnar hendi undurfagurt með einstaka fjallasýn. Og við skulum játa, að við getum ekki gert ótakmarkaðar kröfur. Ég veit, að við vorum í sjö aldir ein fátækasta þjóð Evrópu og kannski heimsins. Ég veit, að það er varla nokkurt mannvirki uppistandandi til marks um mannabyggð í þessu landi fyrstu tíu aldirnar.
Ég veit, að íhaldssamt landeigendasamfélag og vistarband – eins konar þrælahald fátæks fólks -  útilokaði þéttbýlismyndun allt fram á seinustu öld.   Saga Íslands er því varðveitt annars staðar en í borgarskipulagi og byggingarlist.  En samt. Einmitt vegna þess, að við vorum ekki bundin af fortíðinni, fengum við óvenjulegt tækifæri til að skapa nýja höfuðborg.
Við hefðum getað forðast mistök annarra og lagt metnað okkar í að taka mið af stórbrotinni náttúru umhverfisins. Því verður ekki neitað, að við fengum óviðjafnanlegt tækifæri upp í hendurnar. Svo getur hver og einn svarað því fyrir sig, hvernig til hefur tekist.  Burtséð frá kröfum fagurfræðinnar og söknuði eftir sögulegum verðmætum, blasir það við öllum, að það er hlaupinn ofvöxtur í borgarlíkamann.
Höfuðborgarsvæðið hefur þanist út eins og með ósjálfráðum hætti upp um holt og hæðir og út um allar þorpagrundir. Öll er þessi ofvirkni drifin áfram af hinu vegsamaða gróðasjónarmiði fjárfesta og verktaka. Og dregur dám af því. Ég læt hverjum og einum ykkar eftir, hvaða kröfur þið gerið um fagurfræðina – það sem gleður augað; en leyfist okkur ekki alla vega að gera þá kröfu, að verkfræðin lúti lögmálum rökhugsunar? Sá bútasaumur verktökunnar, sem við okkur blasir, bendir ekki til þess, að svo sé. Malbikunarslysið í Vatnsmýrinni, sem leysir engan umferðarvanda,  en gefur hjarta höfuðborgarinnar svip af fóðurflutningaþorpi á sléttum Ameríku, er átakanalegt dæmi um þetta.
Við erum að tala um samfélag 150 þúsund sálna með yfrið nóg landrými allt um kring. Samt er svo komið, að miðjan heldur ekki, sagan er komin á safn, og úthverfin minna einna helst á flóttamannabúðir. Þetta ástand bitnar með sívaxandi þunga á íbúunum.  Reykjavík er því miður orðin að amerískri bílaborg. Einkabílinn hefur tekið völdin af mannfólkinu, og borgin stjórnast meir af þörfum hans en þeirra. Við ökum um á sífellt fleiri og stærri og eyðslusamari ökutækjum, en sitjum æ lengur föst  í umferðarhnútum og eyðum æ meiri tíma á leið til og frá vinnu í loftmengun og svifryksskýi, sem minnir á margmilljóna- borgir með brostið gatnakerfi.  Maskínan hefur tekið völdin af manneskjunni. Við hljótum að spyrja okkur sjálf í forundran: Hvernig gat okkur mistekist svo hrapalega?

Verktakaráðríki gegn íbúalýðræði
Þótt Mosfellsbær teljist vera sjálfstætt  sveitarfélag, er það í reynd eins og hvert annað úthverfi á höfuðborgarsvæðinu. Flestir sækja vinnu, og reyndar þjónustu út fyrir sveitarfélagið. Vanræksla á almannasamgöngum þýðir, að flestar fjölskyldur þurfa að reiða sig á tvo eða jafnvel þrjá bíla til að komast leiðar sinnar. Þessar aðstæður bjóða upp á amerískan úthverfislífsstíl: Félagslega einangrun, orkusólund, og þann konformisma, sem steypir alla í sama mótið. Þjóðvegurinn klýfur sveitarfélagið í tvennt. Þeir sem staldra við, geta gleypt í sig skyndibitann og fyllt á tankinn í miðbæ Mosfellinga, áður en þeir bruna burt.
Samt eru dalirnir báðir, Mosfells- og Reykjadalur, náttúrudjásn, og árnar sem um þá renna, hreinar perlur.  Og í Reykjadalnum leynist lítið þorp, sem er með bæði sögu og sál. Þetta er Álafosskvosin, sem hýsir óviðjafnanlegar minjar um iðnsögu þjóðarinnar.  Þarna stóð vagga ullariðnaðarins, þar sem afl Varmár var nýtt til að leysa handaflið af hólmi. Þarna er að finna hið eiginlega hjarta samfélagsins, sem geymir sögu þess.  Varmá er á náttúruminjaskrá, og það er þetta samspil náttúru- og mannvistarminja, sem gefa staðnum sérstakt gildi. Um skeið stefndi í, að staðurinn yrði niðurníðslunni að bráð. En hann hefur gengið í endurnýjun lífdaganna. Hann hefur ómótstæðilegt aðdráttarafl.  Hann býður upp á sérstaka atvinnustarfsemi og umhverfi, sem laðar að  gesti og gangandi, ekki síst erlenda ferðamenn.
Þetta er eitt af því fáa, sem Mosfellsbær hefur af að státa, og ætti að hlúa að og lyfta upp. En það er nú öðru nær.

Átökin, sem hafa staðið á milli bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ annars vegar og íbúa Kvosarinnar og félaga í Varmársamtökunum hins vegar, hafa að undanförnu vakið athygli alþjóðar. Um hvað snýst þetta? Það er gamla sagan: Fjárfestar og verktakar, sem keypt hafa land Helgafells,  vilja reisa með hraði nýtt hverfi með þúsund íbúðum. Þetta nýja hverfi, með áætlaðri umferð upp á tíu þúsund bíla á dag, þarf að komast í vegasamband við þjóðveginn. Tillögur bæjarstjórnar um  tengibrautarmannvirki með hljóðmúr gengur svo nærri hverfisvernduðum bökkum Varmár  og íbúum Kvosarinnar og atvinnustarfsemi þeirra, að það er með öllu óviðunandi.
Tilraunir Varmársamtakanna til að koma vitinu fyrir bæjarstjórnarmeirihlutann og til að fá hann til að fara að lögum og reglum um umhverfismat og til að virða grundvallarsjónarmið um íbúalýðræði, hafa því miður ekki borið árangur til þessa. Við höfum náð árangri með því að leita ásjár lögfræðings. Öll eftirgjöf hefur verið þvinguð fram.  Bæjarstjórnarmeirihlutinn lætur alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta; hann tekur ekki tillit til rökstuddra breytingartillagna; og hann fer ekki að reglum um kynningu framkvæmda og samráð við íbúa.
Samtökin hafa neyðst til að kæra bæjaryfirvöld til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og til Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra.
Í upphafi veifaði bæjarstjórinn ráðherrabréfi með úrskurði um, að tengivegsmannvirkið, eða sá hluti þess, sem hafði verið hannaður, þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Með atbeina nýrra laga með uppruna í EES-samningnum hefur sá áfangasigur unnist, að framkvæmdir hafa verið stöðvaðar, og að umhverfismat verður að fara fram. 
Í öllum þessum málarekstri hefur verið sýnt fram á, að bæjaryfirvöld hafa í reynd hunsað allar samskiptareglur við íbúa- og almannasamtök og farið rangt með staðreyndir í yfirlýsingum sínum og fréttatilkynningum. 

Að hafa eftirlit með sjálfum sér
Þessi málarekstur hefur líka leitt í ljós brotalamir og veilur í löggjöf og stjórnsýslu um náttúruvernd. Svo á að heita, að skylt sé að leita umsagnar Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda, sem hætta er talin á, að geti spillt svæðum á náttúruminjaskrá. Mat á því, hvort náttúruminjum sé stefnt í hættu vegna framkvæmda, kallar  á atbeina sérfræðinga, sem starfi sjálfstætt og á faglegum forsendum. En lögum samkvæmt er hið faglega mat einungis ráðgefandi. Það er ekki bindandi. Það er sveitarfélagið sjálft, sem oftast er framkvæmdaaðilinn, eða sá aðili, sem telur sig hafa hagsmuna að gæta af framkvæmdunum, sem hefur seinasta orðið. Sveitarfélagið telur sig ráða því, hvort og þá í hvaða mæli, framkvæmdaaðilanum þóknast að taka tillit til umsagnaraðila.
Margir eru á móti þessari túlkun laganna, m.a. sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun. Ríkjandi túlkun er í vafa. Endanleg niðurstaða bíður dómsúrskurðar. Eftir stendur, að ríkjandi lagatúlkun býður heim réttaróvissu og jafnvel rangtúlkun á upphaflegum  markmiðum löggjafarinnar. 
Í fyrsta lagi er boðið upp á augljósan hagsmunaárekstur.  Sá sem hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta er orðinn dómari í sjálfs sín sök. Og sveitarfélagið er um leið orðið eftirlitsaðili með sjálfu sér. 
Þetta þýðir líka, að óbreyttu, að gildandi löggjöf um náttúruvernd er í reynd óvirk, þegar á reynir.  Í skjóli þessarar augljósu brotalamar í löggjöfinni geta aðgangsharðir fjárfestar, verktakar eða aðrir framkvæmdaaðilar, sem og sveitarfélög, sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, farið sínu fram í trássi við vilja íbúa og almannahagsmuna. Meðan þetta viðgengst, er tómt mál að tala um íbúalýðræði. Það er þá bara orðin tóm, þegar á reynir. Endurskoðun gildandi laga um náttúruvernd er því brýnt verkefni fyrir nýkjörið alþingi.

Höfundur er fyrrverandi formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband