Fánadagurinn 12. júní við Álafoss

Fánadagurinn 12. júní við ÁlafossSigurjón Pétursson verksmiðjueigandi á Álafossi hélt um langt skeið svonefndan fánadag hátíðlegan við Álafoss. Skemmtilega frásögn af upphafi og hátíðarhöldum á fánadaginn er að finna í bók Bjarka Bjarnasonar og Magnúsar Guðmundssonar, Mosfellsbær - saga byggðar í 1100 ár (2005) en hún hljóðar svo:

"Fánadagar

Íþróttanna ötult hjón,
iðjustörfum kafinn.
Sértu jafnan Sigurjón
sæmd og heillum vafinn.

Þegar Sigurjón Pétursson hóf störf að Álafossi tók hann strax að huga að uppbyggingu íþróttalífs á staðnum en hann var sjálfur mikill íþróttagarpur og meðal annars annálaður glímukappi. Árið 1921  gekkst hann fyrir svonefndu Álafosshlaupi í fyrsta skipti og gaf veglegan verðlaunabikar. Hlaupið hófst við Álafoss og endaði á Melavellinum þar sem Kristján X konungur Íslands og Danmerkur, afhenti verðlaunin ... .
Sigurjón taldi sund vera allra meina bót og efldi óspart sundkennslu og sundiðkun á Álafossi. Hann sá fljótt hvaða möguleikar leyndust í ylvolgri Varmánni ofan við stífluna hjá fossinum og lét útbúa þar búningsaðstöðu. Þessi sundskáli var vígður 12. júní 1927 og þann sama dag var keppt í Álafosshlaupinu, að þessu sinni hófst það í Reykjavík og endaði a Álafossi þar sem svonefndur fánadagur var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti.

Morgunblaðið greindi þannig frá þessum viðburði:

Á sunnudegi 12. júní 1927
sem er fánadagur, verður opnaður nýr sundskáli að Álafossi í Mosfellssveit. Við það tækifæri verða margar sundþrautir háðar. Um 20 bestu sundmenn Íslands hafa lofað aðstoð sinni, ... .
Þar verður sýnt Kafsund, björgun, skriðsund, lífgunartilraunir.
Knattleikur í vatni sýndur í fyrsta sinn á Íslandi. - Stúlkur sýna björgun og ýms sund.
Herra læknir Þórður Sveinsson talar, og fleiri ræðumenn verða.
Vígsluathöfnin hefst stundvíslega kl. 3 sd. - Herra kaupmaður Einar Pjetursson aðstoðar. - Þá hefst sundið, að því loknu ýmsir leikir og dans. - Ýmsar veitingar verða á staðnum, svo sem kaffi, mjólk, o.fl. súkkulaði, sítrón, skyr o.fl.
Tryggið ykkur sæti í bílunum í tíma. - Sjerstakur staður verður fyrir hesta, hjólhesta og bíla.- Aðgangur kostar kr. 1,00 fyrir fullorðna, fyrir börn kr. 0,50. - Merki verða seld á staðnum.
Hætt verður klukkan 10 síðdegis
Allir upp að Álafossi á sunnudaginn.

Nafn og dagsetning hátíðahaldanna voru ekki valin af tilviljun. Hinn 12. júní 1913 höfðu danskir varðskipsmenn afskipti af ungum Íslendingi, Einari Péturssyni, sem sigldi kappróðrarbáti um Reykjavíkurhöfn. Ástæðan var bláhvítur fáni sem prýddi skut bátsins en Íslendingar börðust þá fyrir því að fá eigin þjóðfána og hafði bláhvíti fáninn komið til álita sem slíkur. Varðskipsmenn litu fánasiglingu Einars alvarlegum augum, hún var ögrun við Dani og gerðu þeir fánann upptækan ... . Með fánadeginum á Álafossi vildi Sigurjón minnast fánatökunnar á Reykjavíkurhöfn.
Fánadagurinn á Álafossi var oftast haldinn kringum 12. júní og byggðist á fjölbreyttri dagskrá: ... .
Á fánadaginn kom múgur manns að Álafossi og skemmti sér lengi dags, ... .
Fánadagarnir á Álafossi voru einsdæmi á Íslandi á sínum tíma og minntu helst á þjóðhátíðarhöld sem fólk kynnist síðar þegar frelsisdraumar þjóðarinnar hafði ræst til fullnustu." (Bls. 304-307)

Þess má að lokum geta að Varmársamtökin o.fl. íbúar í Mosfellsbæ hafa mikinn hug á því að endurvekja þennan þjóðhátíðardag Álfyssinga og gaman væri að sem flestir legðu hönd á plóginn við að koma þessu skemmtilega verkefni á koppinn í framtíðinni.

Íbúar í Álafosskvos flögguðu í tilefni dagsins bláhvíta fánanum við hlið hins íslenska. Ætlar fólk að minnast dagsins og grilla í kvöld í góða veðrinu. Frjálsíþróttadeild UMFA hefur lengi haldið daginn hátíðlegan með svokölluðu Álafosshlaupi. Er hlaupið úr Álafosskvosinni kl. 19.00 og hefst skráning kl.  18.00 í Álafossbúðinni. Fyrir krakkana er 4 km ratleikur um næsta nágrenni en fullorðnir hlaupa 9 km.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband