Á strandstað í Mosfellsbæ

Eitt dagblaðanna birti á dögunum áhugaverða grein eftir Ara Skúlason hagfræðing hjá Landsbankanum. Í greininni kvartar Ari yfir því að á undanförnum árum hafi ekki verið hægt að treysta opinberum gögnum um byggingarstarfsemi. Skort hafi á samstarf milli sveitarfélaga og áætlanir þeirra um framboð á lóðum og framkvæmdir verið óljósar. Í þeim tilgangi að varpa ljósi á stöðu mála hafi bankinn því staðið fyrir eigin greiningum á ástandinu.

Nú eftir efnahagshrunið er komið fram að óráðsían í byggingariðnaði átti sér lítil takmörk. Samkvæmt nýjum upplýsingum Landsbankans slær óraunsæið þó öll met í Mosfellsbæ en þar voru íbúðir í byggingu og tilbúnar lóðir hvorki meira né minna en 37,9% af fjölda íbúða í öllu sveitarfélaginu. Til samanburðar má geta þess að hlutfallið var 10,4% í Kópavogi og 18,7% í Garðabæ sem þó kemst næst Mosfellsbæ.

Hvernig má þetta vera?

Samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1998-2024 er gert ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 2814 í nýjum hverfum í Mosfellsbæ á þessu 26 ára tímabili. Sé tímabilið hins vegar stytt um 12 ár er búist við að íbúðum fjölgi um 1196 til 2012.

Nokkur hverfi eru nú í byggingu í Mosfellsbæ en það eru Krikahverfi, Helgafellshverfi, Leirvogstunga, Hulduhólar og miðbær Mosfellsbæjar. Á byggingarsvæðum í Leirvogstungu og Helgafellslandi einum sér er skv. skipulagsáætlunum gert ráð fyrir um 1600 nýjum íbúðum, þ.e. mun fleiri íbúðum en ofangreindar áætlanir fyrir sveitarfélagið í heild gera ráð fyrir til ársins 2012.

Auðvitað geta áætlanir breyst en engu að síður blasir við að sú uppbygging sem fór af stað í Mosfellsbæ var með öllu óraunhæf. Skipulagsáætlanir byggðu ekki á raunhæfu mati á þörf, heldur óskhyggju sem fyrst og fremst virðist eiga rætur að rekja til þrýstings frá lóðahöfum og verktökum - enda var bærinn í raun búinn að framselja þeim skipulagsvaldið. Það sem eftir stendur eru yfirgefin og hálfköruð byggingarsvæði sem eru talandi dæmi um þá óráðsíu sem leiddi til þess að þjóðarskútan sigldi í strand í október 2008.

Hér á bæ hæla menn sér af því að hafa gert samninga við einkaaðila um “uppbygginguna” sem leiði til þess að kostnaður falli ekki á sveitarfélagið. En hver borgar þá brúsann nú þegar allt er hrunið? Það fyrsta sem kemur í hugann eru þjónustufyrirtæki í eigu ríkis- og sveitarfélaga, s.s. hita- og rafmagnsveitur og svo auðvitað bankarnir sem sitja uppi með gjaldþrota fyrirtæki og fjölskyldur sem keypt hafa hér hús og lóðir. Ergo, skuldir sem stofnað var til í tengslum við framkvæmdir í  Mosfellsbæ falla á þjóðina. En leysir það sveitarfélagið undan allri ábyrgð?

Félagar í Varmársamtökunum hafa um tveggja og hálfs árs skeið reynt að spyrna við fæti til að forða sögulegum byggðakjörnum og útivistarperlum í Mosfellsbæ undan skefjalausum gröfukjöftum. Í dag situr bæjarfélagið uppi með sviðna jörð og byggingar sem draugar fortíðar hýsa.

Sveitungum mínum er ekki öðruvísi farið en öðrum Íslendingum. Þeir spyrja á strandstað í Mosfellsbæ hvernig þetta gat gerst og hvort enginn ætli hér að axla ábyrgð. Verkstjórar þessa ráðabruggs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Haraldur Sverrisson, skulda bæjarbúum skýringar. Okkur nægja ekki þau rök að Lehman Brothers hafi farið á hausinn. Við viljum vita hvernig þessar áætlanir urðu til og hvernig samskiptum stjórnarherra í Mosfellsbæ við athafnamennina var yfirleitt háttað.

Nýja Ísland hefur sagt ólýðræðislegum stjórnarháttum stríð á hendur. Lausnarorðið er þátttaka almennings í ákvarðanatöku og krafa um gegnsæi. Líka í Mosfellsbæ.

P.s.

Sjá einnig sjónvarpsviðtal: http://www.inntv.is/Horfaáþætti/Kolfinna/Kolfinna17022009/tabid/726/Default.aspx


Sigrún Pálsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð grein.  Það kemur á óvart hversu mikið var skipulagt í Mosfellsbæ.  Leirvogstunguhverfið er risið að töluverðum hluta, en mér sýnist að Helgafellshverfið sé að miklu leyti á byrjunarreit.  Það verður fróðlegt að sjá áframhaldið, þettu eru falleg svæði til húsbygginga, ekki síst m.t.t. útsýnis.   

Það eru kosningar í aðsigi og e.t.v. hægt að knýja fram svör.  Vinnufélagi úr Mosó hvíslaði því að mér að sumir  væru óhressir með að ekki væri meira byggt, en ég reikna með því að verktakar séu fegnir því að vera þó ekki komnir lengra með sín áform úr því að lítið selst.

Ragnar Pálsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 17:06

2 identicon

Hvers eigum við að gjalda Mosfellingar,

hvernig stendur á því að kjörnir fulltrúar í bæjarfélagi okkar hafa farið fram með slíkri óskynsemi og óraunsæi, hvernig geta menn horft framhjá þeim einfalda veruleika að dæmið sem lagt var upp með í Mosfellsbæ gat aldrei gengið upp, hagsmuna hverra var verið að gæta í bæjarfélaginu, ég bara spyr þó að svarið blasi við !

Ráðandi meirihluti í bæjarstjórn getur ekki gengið fram og fullyrt að það hefði ekki verið hægt að sjá þetta fyrir, að sjálfsögðu var niðursveifla fyrirsjáanleg, niðursveifla þýðir kólnun hagkerfis og það var ávallt gert ráð fyrir niðursveiflunni í öllum hagspám .  Það þurfti ekki að sjá fyrir hrun hagkerfis til að fara skynsamlega og gætilega í framkvæmdir og ákvarðanir,  fólk er kosið til bæjarstjórnar til að gæta í einu og öllu hagsmuna samfélagsins og það hefur gersamlega brugðist í Mosfellsbæ.

Þær tölur sem eru birtar í greininni hér að ofan eru sláandi, þar segir:

„Samkvæmt nýjum upplýsingum Landsbankans slær óraunsæið þó öll met í Mosfellsbæ en þar voru íbúðir í byggingu og tilbúnar lóðir hvorki meira né minna en 37,9% af fjölda íbúða í öllu sveitarfélaginu. Til samanburðar má geta þess að hlutfallið var 10,4% í Kópavogi og 18,7% í Garðabæ sem þó kemst næst Mosfellsbæ.“

Hvað hafa menn verið að hugsa hér, hvernig átti að fjölga íbúum um nálægt 40% og það íbúum sem áttu að hafa efni á að kaupa lóðir undir  hús á þriðja tug milljóna eins og verðlagið var á mörgum lóðum,  það áður en tekin er fyrsta skóflustunga fyrir húsi !  Þetta er óafsakanleg veruleikafirring og algert ábyrgðarleysi , tjónið blasir við, draugahús um allt bæjarfélagið, óbyggðar lóðir og sundurgrafið landið með rjúkandi moldarhauga um alla sveit.    þetta undafallega sveitafélag  er nú ekki lengur táknmynd útivistar og náttúrufegurðar, heldur draugaleg táknmynd  gróðahyggju, sérhagsmunagæslu, óskynsemi og óráðsíu síðustu missera.

Það erum við sem skattgreiðendur sem eigum að borga brúsann, það erum við sveitungar góðir sem þurfum að bera þyngri byrðar til margra ára vegna vanhæfra stjórnarhátta í sveitarfélaginu.  Það er þegar búið að þyngja skuldabagga okkar fyrir meira en þúsund milljónir króna vegna yfirtöku á Lágafellslaug, við eigum eftir að sjá skuldabagga okkar þyngjast enn frekar þegar kostnaður sem áður átti að vera borinn af einkaframtakinu mun leggjast  á okkur með fullum þunga.

Ég mæli með lestri greinar eftir Ögmund Jónasson frá janúar 2006, greinin nefndist  „Naglasúpa nýrra tíma“  og birtis í blaðinu „Sveitungi“  og segir hann meðal annars:

 

„Það þótti horfa til framfara á sínum tíma að færa völdin frá aðli og auðmönnum til almennings og láta lýðræðislega kjörna fulltrúa ráðstafa sköttum, hvort sem þeir heita tekjuskattar, gatnagerðargjöld eða annað. Í Mosfellsbæ sýnist mér yfirvöld daðra við fortíðina. Nú stendur nefnilega til að afnema skattana og láta ákvarðanir í hendur þeirra sem hafa eignarhald á landi eða búa yfir digrum sjóðum.“

Hér finnst greinin öll: http://www.vgmos.is/Files/Skra_0013264.pdf

 

Grein þessi er merkileg fyrir þær sakir að þarna sýndi Ögmundur mikið innsæi og glöggskyggni, það er hinsvegar algerlega óskiljanlegt að fulltrúi VG Karl Tómasson, sem komst að sem forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ, hafi gersamlega gengið í berhögg við varnarorð ekki aðeins reyndari flokksfélaga heldur algerlega við stefnu og hugsjónir VG.

 

VG hefur brugðist í Mosfellsbæ, Sjálfstæðismenn hinsvegar bera meiri og þyngri sök á því hvernig málum er komið í bæjarfélaginu þar sem þeir hafa mótað bæði stefnu og markmið.  Sjálfstæðismenn innan bæjarstjórnar hafa haft persónulega hagsmuni af verslun með landeignir og hafa farið frjálslega með fjármuni samfélagsins til eigin áhugamála og einkavina.  Sjálfstæðismenn hafa fengið að ráðskast með hagsmuni bæjarfélagsins mun lengur en efni stóðu til og það tókst þeim með stuðningi VG þegar Karl Tómasson gerði samning andskotans við sjálfstæðismenn og hefur síðan verið notaður af sjálfstæðismönnum allar götur síðan eins og gólftuska, til að sjá um skítkast og ávirðingar gegn hugsjónafólki  og samtökum í samfélaginu eins og frægt er orðið,  mikil er skömm Karls Tómassonar en enn meiri er ábyrgð Sjálfstæðismanna og þar eru fremst í flokki Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Ragnheiður Ríkarðsdóttir  fyrrum bæjarstjóri og alþingiskona.

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband