Ísaldarminjar í pólitískt umhverfismat

Klappir nærmyndLítilÍ miðbæ Mosfellsbæjar eru merkar ísaldarminjar, klappir sem njóta hverfisverndar og Umhverfisstofnun hefur lagt til að verði friðlýstar sem náttúruvætti. Ég undirrituð hef alltaf litið á urðina sem helgan reit, ekki vegna þess að ég hafi faglega þekkingu á málinu, heldur hafa góðir og gegnir Mosfellingar miðlað mér þessari tilfinningu. Ég hef reyndar oft furðað mig á því með hvaða hætti byggingum er raðað í kringum þessar fallegu klappir og hef hugsað með mér að það væri verðugt verkefni fyrir góðan arkitekt að gera urðinni hærra undir höfði í þessu kraðaki sundurleitra bygginga.

Samkvæmt fréttum hefur Mosfellsbær nú í hyggju að aflétta verndinni á klöppunum á 2700 fermetra kafla við miðbæinn og nýta sem byggingarreit undir kirkju og menningarhús. Reiturinn sem hér um ræðir liggur að miðbænum fyrir ofan torgið í átt að Krónunni. Og nú hefst sjónarspilið sem við áhugafólk um skipulag í Mosfellsbæ þekkjum orðið svo vel. Til þess að friða óánægða á að stækka hverfisverndarsvæðið í átt frá miðbænum að Töngunum sem nemur ofangreindum fermetrum.
Ég sé fyrir mér umræðuna sem nú eru í uppsiglingu. Hún á ekki eftir að snúast um aðalatriði málsins sem er að mörgum íbúum er mjög annt um þetta sérkenni í landslagi Mosfellsbæjar og að Umhverfisstofnun, - sem er óháð stofnun, - sá ástæðu til að friðlýsa klappirnar sem náttúruvætti, heldur útúrsnúninga eins og hvort urðin vestan megin sé ekki bara fallegri en urðin austan megin; aðgerðin til þess fallin að ýta undir að íbúar noti svæðið meira; búið sé núþegar að raska holtinu; fagfólk í þjónustu bæjarins hafi lagt blessun sína yfir framkvæmdina o.s.frv., o.s.frv.

MiðbæjarurðLítilÞau rök að búið sé að raska svæðum eru reyndar mikið notuð í “pólitísku umhverfismati” til að rýra verndargildi náttúruminja en þannig má komast framhjá lögum sem hafa að markmiði að stuðla að náttúruvernd. Frá sjónarhóli okkar í Varmársamtökunum á auðvitað að leggja allt kapp á að varðveita helstu sérkenni í landslagi Mosfellsbæjar, og þar sem klappirnar taka yfir lítið svæði ætti frekar að hverfisvernda og friðlýsa urðina í heild sinni, í stað þess að afmá hluta af henni. Hönnunartillagan sem nú á að vinna eftir stangast þar að auki á við þann útgangspunkt dómnefndar, - sem skipuð var í tengslum við samkeppni um hönnun bygginganna, - að ‘keppendur taki tillit til mikilvægis klappanna og að sérstaða þeirra verði virt’. En eftir á að hyggja er orðalag í keppnislýsingu auðvitað loðið og virðingin fyrir urðinni sem þar er látin í veðri vaka engin trygging fyrir því að hún verði ekki stórvirkum vinnuvélum að bráð.

Í ofanálag virðist sem aflétta eigi verndinni án samráðs við íbúa því á fundi sem haldinn var til að kynna tillögu að nýju deiliskipulagi miðbæjarins í mars minntust fulltrúar bæjarstjórnarmeirihlutans einhverra hluta vegna ekki á að breyta ætti hverfisvernd á holtinu.
Eitt af markmiðum Varmársamtakanna er að stuðla að því að íbúar fái að taka þátt í mótun bæjarfélagsins. Það hefur hingað til reynst þrautinni þyngra og því enn mikið verk að vinna. Óskandi væri því að fulltrúar íbúa, kirkju og menningar sameinuðust um að koma í veg fyrir að bygging kirkju og menningarhúss eigi sér stað á kostnað sköpunarverksins, þ.e. ísaldarminja í miðbæ Mosfellsbæjar.

Sigrún Pálsdóttir,
formaður Varmársamtakanna

P.s. Ritstjóri Mosfellings sá sér ekki fært að birta þessa grein í blaðinu þrátt fyrir að miðbæjarskipulagið sé aðalumræðuefni blaðsins í dag. Ástæðan sem hann tilgreindi er að hún birtist í Mogganum fyrr í vikunni. Svar Mosfellsbæjar við grein minni er hins vegar birt á síðu 4 í Mosfellingi í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í Kópavogi eru samskonar ísaldarminjar og í Mosfellsbæ á holtinu þar sem kirkjan stendur. Kópavogur fór að ráði Umhverfisstofnunar og lét friðlýsa klappirnar en það gerði Mosfellsbær ekki. Á heimasíðu Kópavogs er eftirfarandi lýsing:

Borgarholt
Verndarflokkur: Friðlýst náttúruvætti
Verndarforsendur: Merkar ísaldarminjar og villtur gróður.

Borgarholt, einnig kallað Borgir, var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981. Þar gefur að líta óvenju glöggar menjar um sjávarstöðu á höfuðborgarsvæðinu eins og hún var skömmu eftir lok síðustu ísaldar. Grágrýtishnullungar einkenna holtið og hin forna sjávarstaða sést við neðri mörk hnullunganna á holtinu. Fyrir um tíu þúsund árum, eftir að ísaldarjökulinn hopaði, stóð holtið mun lægra en nú og var þá sker umlukið sjó. Brimið mæddi á skerinu og svarf strandgrýtið. Smágrýti hefur skolast burt en eftir stóðu hnullungarnir sem nú blasa við. Frá lokum ísaldar hefur land á höfuðborgarsvæðinu lengst af risið og nú stendur Borgarholt í um 43 m hæð yfir sjó. Gróðurfar á Borgarholti er ekki síður athyglisvert en jarðfræðiminjarnar. Holtið er enn að mestu gróið villtum tegundum þrátt fyrir nábýli við útlendan garðagróður í um hálfa öld. Slík gróðursvæði er óvíða að finna annars staðar í miðri byggð á höfuðborgarsvæðinu.

Sigrun P (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 00:48

2 identicon

Frábært Sigrún

 Þú ert að vinna þrekvirki í Mosó. En er ekki ömurlegt að búa þarna, það er alltaf verið að traðka á ykkur, alstaðar.

Af hverju flyturu ekki eitthvert annað?

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband