Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
10.5.2007 | 11:33
Varmárdalur - með og á móti
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar segir iðulega að tengibrautarmálið snúist um 500 m vegspotta. Hún er nýkomin með það útspil að tvöföldun hringtorgs í Kvosinni verði látið duga en umferðarsérfræðingar og Vegagerð segja það algjörlega óásættanlegt að stefna umferð með aðliggjandi brekkum sitthvoru megin á Vesturlandsvegi og umferð 10 þúsund bíla úr Helgafellshverfi inn í áformað hringtorg. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að tengibrautin komi undir Vesturlandsveg og setji Brúarland upp á umferðareyju, ásamt því að gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar. Jafnframt þarf að taka tillit til þess þegar heildarmyndin er metin að gert er ráð fyrir mislægum gatnamótum á fyrirhugaðan Hafravatnsveg (nú Reykjaveg). Því verðum við að gera ráð fyrir hinum alvarlegu afleiðingum sem það hefur í för með sér að leggja tengibrautina undir Vesturlandsveg og koma þannig þvert á reiðleiðir og göngustíga, nálægt íþrótta- og skólasvæði og þeim lamandi áhrifum sem slíkt hefur á miðbæinn.
Þrjú meginrök hafa heyrst gegn tillögu Varmársamtakanna um að í stað tengibrautar um Álafosskvos, þá verði byggð upp mislæg gatnamót ofan og norðan við núverandi Helgafellshverfi.
1. Hvassviðri
Að vegtenging um Ása muni vera staðsett á veðrasömu svæði. Verkfræðingar telja hinsvegar að auðvelt sé að móta landið þannig að þetta verði ekki vandamál. Einnig er eðlilegt að við höldum eftir skjólbetra svæðinu fyrir mannlíf og útivist. Umferð upp í Mosfellsdal hefur í aðalatriðum gengið vandræðalaust með tilliti til veðurs, en með tillögu samtakanna kemur einnig varanleg lausn á Þingvallavegsafleggjara.
2. Aukin vegalengd
Því er haldið fram að íbúar hins nýja hverfis þurfi að fara lengri leið í miðbæ Mosfellsbæjar með þessari tillögu. Það fer eftir hvar viðkomandi væri staðsettur. Ef ökumaður er að koma úr Reykjavík á leið í nýtt Helgafellshverfi þá myndi hann samkvæmt fyrirliggjandi aðalskipulagi og hugmyndum þurfa að taka hægri slaufu undir Vesturlandsveg á mislægu gatnamótum við Hafravatnsveg. Stefnt að miðbænum og síðan meðfram Brúarlandi og undir Vesturlandsveg í Kvosinni, meðfram Álafossi og upp í hverfið. Stærsta hluta þessarar leiðar um lífæð bæjarins væri hámarkshraði 30 km vegna hávaða og slysahættu. Hinsvegar samkvæmt tillögum Varmársamtakanna er hægt að fara á 90 km hraða upp að fyrirhuguðum mislægum gatnamótum, beygja til hægri og halda 50-70 km hraða inn í hverfið. Mun greiðfærari og betri lausn með tilliti til umferðar. Nokkur hundruð metrum lengri fyrir þá sem búa næst Varmá. En þeir fá líka tengslin við náttúruna. Húsin næst Fossvogsdalnum eru eftirsóttust. Menn leggja á sig smákrók fyrir þau lífsgæði.
3. Skert vegtenging við Álafosshverfi
Því hefur verið haldið fram að Álafoss verði úrleiðis með þessari hugmynd. Það er vissulega rétt miða við tengsl með hringtorgi. En þegar farið er eftir aðalskipulagi og afstöðu vegagerðar um að leggja hringtorgið af ásamt því að byggja upp mislæg gatnamót við Hafravatnsveg þá er ekki allur munur á hvort að rúta tekur slaufu í gegnum miðbæinn og meðfram Brúarlandi eða inn á mislæg gatnamót út af Vesturlandsvegi og gegnum Helgafellshverfi. Umferðarsérfræðingar telja þessi tengsl verða góð og þá er að kanna hvort að rútubílstjórar telja eina slaufu betri en aðra. Auk þess eru það mikil sóknarfæri ferðaþjónustu að koma inn í Álafosshverfið sem veröld út af fyrir sig og með aðalgöngustíg bæjarins um hlaðið. Ég vildi persónulega frekar fara á kaffihús í slíku umhverfi en að hafa yfir sér tengibraut með mikilli umferð.
Varmársamtökin hafa lagt fjármuni og vinnu í nýjar hugmyndir sem ætlað er að hámarka gildi náttúruverndar og útivistar. Það sem gerir tillögurnar enn betri er að með þeim er einnig sýnt fram á mjög góða lausn fyrir bílaumferð í Mosfellsbæ. Það er mun meira en fyrirliggjandi hugmyndir gera. Varðandi veglagningu um Álanes þá er hún inn á aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Nýlega barst Varmársamtökunum bréf frá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ þess efnis að óráðlegt væri að taka þessa þverun Varmár ofan Álafosskvosar út af skipulagi en þá tillögu bárum við upp í athugasemdum við það deiliskipulag Helgafellslands sem liggur að Varmá. Lega vegarins byggir því ekki á frumkvæði Varmársamtakanna heldur á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem einnig kemur fram í deiliskipulagi Helgafellslands, 3. áfanga.
Með því að lyfta Vesturlandsvegi með brú yfir Varmá við Álafosskvos, leysa vegtengingar við nýju hverfin með mislægum gatnamótum og endilega taka út vegtengingu við Álanes, ef það er niðurstaða bæjarstjórnar, þá erum við komin með útivistar- og verndarsvæði sem er með því besta á höfuðborgarsvæðinu. Metnaðarfull stefnumótun og býður upp á mikla framtíðarmöguleika með mannlífi sem einkennist af heilsueflingu og útivist. "Varmárdalur" væri ekki síðri en Laugardalur, Elliðaárdalur eða Fossvogsdalur. Hann væri stilkurinn sem lægji að hringleiðum á fellin fjögur umhverfis Mosfellsbæ. Með þeim fjögurra laufa smára væri ekki hægt að óska sér neins betra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2008 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 10:59
Fegrum okkar nánasta umhverfi
Varmársamtökin fagna því hve vel tókst til laugardaginn 28. apríl þegar Mosfellsbær bætti við hreinsunarátak bæjarins sérstökum hreinsunardegi við Varmá, í samvinnu við handknattleiksdeild Aftureldingar og Skáta. Það verður verk samtakanna á sunnudaginn að fínkemba svæðið meðfram ánni. Það er ekki verra að geta gengið stoltur um sitt nánasta umhverfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2007 | 11:56
Umferðarþungi í og í grennd við Mosfellsbæ
Varmársamtökin fagna því framtaki Mosfellsbæjar að kynna lagningu Tunguvegar úr Leirvogstungu að Skeiðholti fyrir íbúum en það var gert á kynningarfundi í gær. Nú er bara að vona að hlustað verði á raddir íbúa sem óttast m.a. mjög um öryggi barna sinna verði af þessari framkvæmd.
Fram kom á fundinum að menn voru ekki með tölur um umferðarþunga í grennd við Mosfellsbæ á hraðbergi og er hér með bætt úr því.
Úr skýrslu um umferð á þjóðvegum árið 2005.
Tölur Vegagerðarinnar um umferðarþunga á hringveginum:
- frá Suðurlandsvegi að Úlfarsfellsvegi 36 þús bílar/dag
- frá Úlfarsfellsvegi að miðbæ Mos 21 þús bílar/dag
- frá miðbæ Mos að Þingvallavegi 11 þús bílar/dag
- frá Þingvallavegi að Brautarholtsvegi 6 þús bílar/dag
Aukningin í umferð milli áranna 2005 og 2006 var nálægt 6%. Skýrslan í heild er á heimasíðu Vegagerðarinnar: www.vegagerdin.is undir flokknum umferð og umferðartölur.
Þegar Álfsnes og Leirvogstunguhverfi eru fullbyggð er reiknað með allt að 50 þús bíla umferð á sólarhring frá miðbæ Mosfellsbæjar að Þingvallaafleggjara. Þessi spá Vegagerðarinnar byggir á ágiskun þar sem eftir á að koma í ljós hvernig vegagerð í tengslum við Sundabraut verður háttað.
Umferðarþungi í tengslum við Tungubraut var einnig til umræðu á fundinum. UST gerði í upphafi eftirfarandi athugasemdir við útreikninga Mosfellsbæjar:
"Umhverfisstofnun telur að umferðarforsendur sem útreikningar á hljóðstigi á Skólabraut miðast við séu of varlega áætlaðar. Í bílatalningum sem gerðar voru í apríl sl. (2006) reyndist umferð vera 2200 bílar á sólarhring á Skeiðholti og 1800 bílar á sólarhring á Skólabraut. Samkvæmt umferðarforsendum útreikninga er gert ráð fyrir 1500 bílum á sólarhring eftir að tengibrautin er komin. Vantar því upp á 300 bíla við umferðarforsendur auk þess sem líklegt er að aukning verði á umferð um Skólabraut." (UST, 21.08.06)
Í svari Mosfellsbæjar við þessari athugasemd er umferðarþunga á Skólabraut breytt í 2000 bíla á sólarhring. Umferð eykst því um 200 bíla með tilkomu Tungubrautar. Í heild áætlar Mosfellsbær að um 1500 bílar fari um Tungubraut á sólarhring. Varlega áætlað má því gera ráð fyrir að um 3500 bílar fari um Skeiðholt á sólarhring.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2007 | 11:47
Gildi opinnar umræðu
Því fylgir ábyrgð að setja fram viðhorf, skoðanir og tilfinningar. Þú ert það sem þú hugsar. Við vitum oftast hvort markmiðið með því sem við gerum er að valda öðrum tjóni eða að efla eitthvað og styrkja. Varmársamtökin voru stofnuð fyrir rúmu ári til að vera vettvangur umræðunnar, ásamt því að vera í varðstöðu gagnvart þeim teiknum sem voru og eru á lofti um rýrnandi verndar- og útivistargildi Varmársvæðisins með fyrirhuguðum framkvæmdum og vegtengingum. Allir höfðu og hafa enn háleit og gildishlaðin markmið um gott og inntaksríkt mannlíf í bæjarfélaginu. Að efla og vernda ímynd Mosfellsbæjar með því að halda eftir "Varmárdal", grænu belti, útivistarsvæði frá hesthúsahverfi upp fyrir Reykjalund. Það verður einhver að gæta þessara hagsmuna í bæjarfélagi þar sem, því miður, bæjaryfirvöld virðast einkum rækta trúnað og tengsl við landeigendur og verktaka. Margt bendir til að á næstu vikum verði enn sterkari vakning um þetta mál. Við sjáum flest grænu svæðin í kring vera óðum að hverfa og áætlanir um umferðarmannvirki sem ógna helstu perlum Mosfellsbæjar, hesthúsahverfi, íþrótta- og skólahverfi, Álafosskvos og hugsanlega Reykjalundi. Ætlum við að láta hesthúsahverfið lokast inni líkt og gerðist í Kópavogi? Ætlum við að stórspilla Álafosskvos, loka af reiðgötur og göngustíga? Hver er réttur þeirra sem fyrir eru í bæjarfélaginu og hafa tengslin við náttúruna sem meginástæðu búsetu sinnar hér í jaðri höfuðborgarsvæðisins? Má ekki telja það eðlilegt að aðili sem byggir upp nýtt hverfi að hann þurfi að taka tillit til þeirra hagsmuna sem fyrir eru og því þurfi viðkomandi að tengjast inn á meginæð umferðar í jaðrinum?
Nú er hesthúseigendafélagið og foreldrafélagi Varmárskóla búið að lýsa yfir andstöðu við fyrirhugaðan Tunguveg. Áður hafði málafylgja Varmársamtakanna stuðlað að því að sú veglagning þarf að fara í umhverfismat. Varmársamtökin hafa beitt sér af miklum þunga gegn fyrirhugaðri tengibraut um Álafosskvos. Jafnframt er mikill áhugi á að tryggja gæði göngustíga og umhverfis í nágrenni Reykjalundar. Allir þessir kraftar þurfa að sameinast um að "Varmárdalurinn" hið græna belti verndar og útivistar fái að njóta sín.
Nú er komið sumar og tilvalið að sýna hug okkar til útivistar með því að taka þátt í skipulögðum göngum á fellin umhverfis Mosfellsbæ, en farið er úr Álafosskvos á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 17:00. Við þurfum að sigrast á tvennu. Annarsvegar þvermóðsku og þvergirðing sem lætur eins og mál séu endanlega ákveðin þegar samningar hafa náðst við verktaka og almenningur hafi ekkert um þau að segja og hinsvegar að sigrast á öflum sem að vilja vinna skemmdarstarf á opinni, lýðræðislegri umræðu sem sett er af stað fyrir bæjarbúa sem vilja móta sitt umhverfi.
Varmársamtökunum barst nýlega samantekt þess efnis að vinahópur hefði stundað þá iðju að skálda upp nöfn á fjórða tug karaktera, sem með skipulögðum hætti setti inn róg og dylgjur um Varmársamtökin. Þessi vitneskja gjörbreytti grunneðli umræðunnar. Þeir einstaklingar sem höfðu sýnt samtökunum óvild í skrifum sínum voru ekki um fjörutíu, heldur einungis um fimm manns. Því hefur verið haldið fram að Morgunblaðið hafi ákveðið að svipta hulunni af netdólgunum, eftir að þeir gerðu sér grein fyrir hversu "Mosfellsbæjarmálið" væri umfangsmikið. Við höfum óskað eftir að umræddir leynigestir eignist ábyrgðaraðila, samtökin verði beðin afsökunar og tilteknir tölvueigendur útskýri hvað þeim gekk til með slíkum skrifum. Varmársamtökin eru sannfærð um að þau verðskulda ekki slík vinnubrögð. Það gæti hjálpað umræðunni að ná þvi stigi sem henni var ætlað í upphafi og gæti orðið Mosfellsbæ til sóma. VS
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2008 kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni