Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Arkitektónísk ráðgáta í Álafosskvos

Helgafellsvegur tengdur KvosSkipulag Álafosskvosar var til umræðu á fundi sem Mosfellsbær hélt með íbúum í Listasal Mosfellsbæjar í gær. Áslaug Traustadóttir arkitekt kynnti tillögur að skipulagi og svaraði fyrirspurnum fundargesta.
Góðu fréttirnar eru að bæjaryfirvöld virðast ætla að vinna skipulagstillögu um kvosina í samvinnu við íbúa og var stofnaður fjögurra manna rýnihópur sem vinna á með arkitektum að nýrri tillögu. Á fundinum var varpað fram þeirri spurningu hvaða vægi tillögur íbúa og rýnihóps fengju við afgreiðslu tillögunnar og er þeirri spurningu enn ósvarað.

Slæmu fréttirnar eru þær að of lítið pláss er fyrir vegtengingu inn í Álafosskvos frá Helgafellsvegi og engin góð lausn í sjónmáli. Eini möguleikinn að mati arkitekts er að leggja tengistút frá núverandi Álafossvegi upp á Helgafellsveg á móts við Álafossveg 21 (lítið einbýlishús á bökkum Varmár við brúna sem Sigurjón Pétursson á Álafossi byggði).
Gallinn á þeirri tengingu er að þarna er mikill hæðarmunur og mun tengingin verða erfið aðkomu og spilla landslagi Kvosarinnar ennfrekar en orðið er. Gatnamót í kvosinni munu leiða af sér mikla hávaðamengun auk þess sem loftmengun vegna kyrrstöðu bíla við gatnamót magnast mjög.
Áður voru uppi tillögur um að tengja Álafossveg við Helgafellsveg fyrir utan byggðina í Kvosinni. Þar sem landslag er afar óhentugt til vegagerðar og vegurinn of nærri Varmá hefur verið horfið frá því skipulagi.
Ljóst er að arkitektar eru enn að velta fyrir sér hvernig tengja megi Álafosskvos við Helgafellsveg nú eftir að búið er að malbika tengibrautina. Þykir mönnum það ansi seint um rassinn gripið og í rauninni staðfesta þá gagnrýni sem Varmársamtökin hafa haft í frammi um bútasaum bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ í skipulagsmálum.

Búið er að þrengja með þeim hætti að Álafossvegi að þar geta bílar ekki lengur mæst. Hefur ófremdarástand skapast við innkeyrsluna og vilja sumir fá úrlausn mála strax en aðrir fara sér hægt og vanda til verksins. Á fundinum var spurt um afdrif húsanna sem liggja neðst í Brekkulandi og Helgafellsbyggingar hafa leyst til sín. Eðlilegt væri að nota það svæði til að rýmka fyrir vegagerð utan kvosarinnar. Bæjarstjóri upplýsti hins vegar á fundinum að verktakinn væri búinn að sækja um leyfi til að byggja tvö einbýlishús á annarri lóðinni en að húsið á hinni lóðinni fengi að standa.

Ljóst er að íbúar í Mosfellsbæ eru margir hverjir forviða yfir því verklagi sem hér hefur verið lýst enda spurði íbúi að Álafossvegi 21 arkitektinn hvernig hægt væri að klúðra málum með þessum hætti.

sp

Útimarkaður Álafosskvos 300
Litla húsið er Álafossvegur 21 en gert er ráð fyrir gatnamótum (tengistút) úr Kvosinni upp á Helgafellsveg til hliðar við húsið vinstra megin. Myndin var tekin áður en tengibrautin var lögð og sést hún því ekki á myndinni.


Gunnlaugur Ólafsson nýr formaður Varmársamtakanna

Stjórn VarmársamtakannaÁ fyrsta fundi nýrrar stjórnar Varmársamtakanna í kvöld skipuðust embætti þannig að Gunnlaugur B. Ólafsson, fyrrum varaformaður, var kosinn formaður samtakanna, Sigrún Pálsdóttir, fyrrum gjaldkeri, var kosin varaformaður, Kolfinna Baldvinsdóttir kosin ritari, Ólafur Ragnarsson gjaldkeri og Páll Kristjánsson meðstjórnandi. Kristín Pálsdóttir og Marta Guðjónsdóttir eru varamenn. Enginn hefur setið í stjórninni áður utan Gunnlaugs og Sigrúnar sem hafa verið í stjórn samtakanna frá stofnun þeirra 8. maí 2006.

Mikill hugur var í fólki enda verkefni næg framundan.


Staða deiliskipulags Álafosskvosar kynnt á fundi í Listasal

© Marisa N. Arason 12Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt kynnir fyrir hönd Mosfellsbæjar "stöðu deiliskipulags Álafosskvosar, áherslubreytingar frá fyrri tillögum og fyrirhugað samráðsferli" í Listasal í Kjarna kl. 16.30 miðvikudaginn 28. maí.

Stiklur úr deiliskipulagi Álafosskvosar 1997
Álafosskvosin er einstök fyrir það að heildarmynd svæðisins er varðveitt, þótt nokkuð af byggingum hafi verið fjarlægðar á síðustu árum. Iðnaðarsögulega er mikilvægt að halda þessari ásýnd þótt ekki ætti að vera þörf á að stöðva þróun svæðisins að öðru leyti.
Álafosskvosin markar merkilegt spor í iðnsögu Íslands og í sögu Mosfellsbæjar.

Lega og náttúrufar
Hlíðarnar umhverfis kvosina mynda sterkt landslagsrými en inni á milli bygginganna eru minni rými með fjölbreytta möguleika.
Álafosskvosin liggur í miðju áætluðu útivistarsvæði sem teygist meðfram Varmá frá ósum upp að Reykjafelli. Kvosin er í góðri göngufjarlægð frá miðbænum og Reykjalundi, eða innan við einn kílómeter. Þessi staðsetning gefur einstaka möguleika í byggðar-mynstrinu hvort heldur með tilliti til útivistar eða annarrar starfsemi.

Markmið deiliskipulags
Vernda og styrkja heildarsvip og sérstöðu svæðisins; bæði hvað varðar byggingar og umhverfi með því að:

  • vernda og styrkja byggðina þannig að heildarmyndin haldist
  • varðveita menningarsögu staðarins
  • vernda bakka og lífríki Varmár
  • vernda og styrkja þann gróður og trjáplöntur sem er á svæðinu; í kvosinni, meðfram Álafossi og í Álanesi.
  • Leggja nægjanlegt svæði undir almennt útivistarsvæði í kringum kvosina þannig að henni verði ekki þrengt með framkvæmdum og yfirbragð umhverfisins haldist

Starfsemi og notendur
Halda í sérstöðu svæðisins hvað varðar athafnalíf og notkun, og styrkja ímynd þess sem lista- og smáiðnaðarmiðstöð með því að:

  • gera umhverfið þannig úr garði að það styrki núverandi ásýnd svæðisins sem er einstakt á höfuðborgarsvæðinu
  • bæta umhverfi og aðkomu þannig að svæðið verði aðlaðandi fyrir alla sem heimsækja það

Varmá er á náttúruminjaskrá Náttúruverndarráðs.

Staðfest aðalskipulag
Skv. aðalskipulagi Mos 1992-2012 er Álafosskvosin flokkuð undir verslunar- og þjónustusvæði og gerir skipulagið ráð fyrir "smáiðnaðar- og listamiðstöð við Álafossveg til frambúðar"


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tiltekt verður fram haldið

Ruslagildra í VarmáNokkrir félagar í Varmársamtökunum tóku til hendinni við Varmá um helgina. Byrjuðum við tiltektina fyrir neðan Vesturlandsveg á þeim stað sem stokkurinn var lagður í gegnum Varmá í fyrrasumar en þar hefur verið mynduð stífla til að hylja stokkinn þar sem mikið safnast fyrir af rusli. Fikruðum við okkur upp eftir ánni og í áttina að Skammadalsgljúfri. Ýmislegt forvitnilegt kom upp úr ánni. Addi í Álafossbúðinni sýndi okkur m.a. gamlar ryðgaðar rúningsklippur sem hann hafði fundið. Eins eitthvað sem líktist helst loki af gömlum kolaofni.

Þeim til hugarhægðar sem ekki mættu í tiltektina er enn mikið magn af rusli í Varmá og hliðarlækjum hennar og urðum við sammála um að kalla saman félaga úr samtökunum fljótlega aftur til halda verkinu áfram.
Berglind syngur undir VesturlandsvegiOkkur til ósegjanlegrar ánægju söng Berglind fráfarandi formaður sinni undurfögru röddu undir brúnni á Vesturlandsvegi. Skemmtilegur endurómur var í göngunum sem átti vel við sönginn.  Var þetta árangursríkur dagur í góðra vina hópi sem endaði með heljar grillveislu hjá þeim sæmdarhjónum Sigrúnu og Ævari.

sp


Álafosskvos fyrr og nú

Stundum eru orð óþörf. Vegagerð uber alles i Kvos
Svona er umhorfs í Álafosskvos í dag.

Álafosskvos og Helgafellsland 07
Svona var umhorfs fyrir ári.

Aðkoma Álafosskvos 2007
Svona var aðkoman að Álafosskvos fyrir ári.

Helgafellsvegur tengdur Kvos
Svona er aðkoman í dag og sér enn ekki fyrir endann á því hvernig koma á fyrir vegi inn í Kvosina svo vel fari. Fyrir einu og hálfu ári hristu verkfræðingar sem fengu það verkefni að hanna tengingu við Álafosskvos höfuðið yfir því hvernig koma ætti henni fyrir. Varmársamtökin bentu þeim á að vegstæðið væri of þröngt fyrir þessa tvo vegi. Þeir voru sammála en þeir sem réðu för létu ekki segjast. Í dag er búið að leggja tengibrautina og vandamálið með tenginguna enn óleyst. Verkfræðingar enn á ný mættir með fríðu föruneyti bæjarfulltrúa í Kvosina til að ráða gátuna. Hvernig skyldi sagan dæma þennan gjörning?


Tiltekt á bökkum Varmár

Tilbúin stífla í Varmá1Varmársamtökin standa nk. laugardag 17. maí fyrir tiltekt á bökkum Varmár og meðfram hliðarlækjum hennar svo sem Skammadalslæk. Meiningin er að hittast í Álafosskvos kl. 14 og skipta með sér verkum. Útlit er fyrir ágætis veður en líklega mun sólin þó lítið láta á sér kræla.
Allar nánari upplýsingar veitir Berglind í síma 660 7661

Vegur eða fráveita? - ári síðar

Veitulagnir í vegstæði tengibrautarinnar?Í dag 14. maí er eitt ár liðið frá því að íbúar í Mosfellsbæ komu saman í Álafosskvos til að mótmæla framkvæmdum sem þá voru hafnar í vegstæði tengibrautarinnar. Þáverandi bæjarstjóri Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafði nokkrum vikum áður sagst ætla að skapa sátt meðal íbúa um skipulagið og vinna umhverfisskýrslu áður en vegagerðinni yrði fram haldið en framkvæmdir voru stöðvaðar af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 14. febrúar það ár.
Vinna við tengibrautina hófst degi eftir að úrslit þingkosninga lágu fyrir og var á þessum tímapunkti hvorki búið að vinna umhverfisskýrslu, né kynna skipulagið fyrir íbúum. Safnaðist fólk saman til að mótmæla þessum vinnubrögðum og stöðvuðust framkvæmdir um tíma þann dag.

Landið er samkvæmt lögum allt skipulagsskylt. Ekki er hægt að gefa út framkvæmdaleyfi nema að fyrir liggi deiliskipulag og eins og áður segir lá það ekki fyrir. Engu að síður mætti lögreglan á svæðið og framvísaði leyfisbréfum frá Mosfellsbæ sem ekki gátu talist gild þar sem deiliskipulag vantaði. Var þrefað um þetta í brekkunni fram eftir degi. Atburðarásin var í meira lagi þversagnakennd.  Íbúar samþykktu ekki pappírana sem lögreglan framvísaði frá bænum. Mosfellsbær brá þá á það ráð að fullyrða að þótt gamla deiliskipulagið væri ekki lengur í gildi hefðu þeir ekki dregið til baka þann hluta framkvæmdaleyfisins sem lyti að fráveituframkvæmdum. Það er hins vegar ekki hægt að gefa út framkvæmdaleyfi án deiliskipulags og því voru góð ráð dýr. Að lokum kom bærinn fram með þá skýringu að ekki þyrfti framkvæmdaleyfi þar sem verið væri að vinna að fráveitu.

Rétt er að minniháttar veituframkvæmdir eru ekki skipulagsskyldar. En hvað eru minniháttar framkvæmdir? Verða það ekki að teljast meiriháttar framkvæmdir á viðkvæmu svæði þegar berg er sprengt eða fleygað niður á 5-8 m dýpi og öllum jarðvegi skipt út fyrir þykkan grjótmulning sem á geta ekið fleiri tonna þungar vinnuvélar?  Er ekki ljóst að þarna var verið að vinna undirlag fyrir Helgafellsbraut sem er vegur en ekki fráveita? Allavega var umferð hleypt á umrædda "fráveitu" þremur dögum eftir að frestur til að skila inn athugasemdum við umhverfisskýrslu og nýtt deiliskipulag rann út tveimur mánuðum síðar, þ.e. 12. júlí.
Það þarf ekki að taka fram að ekkert tillit var tekið til athugasemda íbúa. Líklega verður vandræðagangur lögreglunnar og bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ í þessu máli lengi í minnum hafður á Íslandi og vonandi munu skipulagsyfirvöld yfirhöfuð draga af honum lærdóm.

Íbúar í Álafosskvos og Brekkulandi kærðu þessar framkvæmdir til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og liggur úrskurður nú ári síðar enn ekki fyrir. Það er sem sagt meiri háttar mál á Íslandi að fá úr því skorið hvort leggja megi vegi án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis.

sept06KvosÁlafossvegur 10 í undir undirlagi


Varmársamtökin skora á Mosfellsbæ

Ályktun aðalfundar Varmársamtakanna

Stjórn VarmársamtakannaAðalfundur íbúa- og umhverfissamtaka Varmársvæðis skorar á bæjaryfirvöld að virða 50-100 m hverfisvernd meðfram ám og vötnum í bæjarfélaginu.  Einnig er skorað á bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar að efla samráð og þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og stefnumótun.


Kröftugir liðsmenn í brúna hjá Varmársamtökunum

ÁlafossþorpiðÍ gær héldu Varmársamtökin framhaldsaðalfund þar sem gerðar voru lagabreytingar og kosið í nýja stjórn. Ný í stjórn eru þau Kolfinna Baldvinsdóttir, Ólafur Ragnarsson og Páll Kristjánsson. Gunnlaugur Ólafsson og Sigrún Pálsdóttir gáfu kost á sér áfram og varamenn skipaðir þær Marta Guðjónsdóttir og Kristín Pálsdóttir.
Í upphafi fundar kynntu arkitektar frá Batteríinu tillögur að nýju miðbæjarskipulagi í Mosfellsbæ. Er þetta fyrsta opinbera kynningin á tillögunum og ljóst á undirtektum fundargesta að umræðna er þörf meðal bæjarbúa um skipulag miðbæjarins áður en lengra er haldið í skipulagsferlinu.
Berglind Björgúlfsdóttir fráfarandi formaður setti fundinn og ítrekaði mikilvægi þess að halda áfram kröftugu starfi samtakanna. Ævar Örn Jósepsson minntist fréttamannsins Jóns Ásgeirs Sigurðssonar sem lést langt fyrir aldur fram síðastliðið sumar. Jón Ásgeir var fundarstjóri á stofnfundi Varmársamtakanna 8. maí 2006 og samtökunum sérlega ráðhollur þegar til hans var leitað. Bryndísi Schram var færður blómvöndur í þakklætisskyni fyrir að hafa sýnt af sér fádæma borgaralegt hugrekki í Álafosskvos 31. janúar 2007 en þann dag hófu verktakar að rífa upp áratugagömul tré með gröfukjöftum í hlíðinni á milli Kvosarinnar og Brekkulands. Íbúar í Mosfellsbæ höfðu safnast saman á svæðinu og sýndi Bryndís ein manna það hugrekki að stoppa framkvæmdir með því að ganga í veg fyrir gröfuna. Í máli Sigrúnar Pálsdóttur kom fram að í lýðræðissamfélagi ætti fólk að láta í sér heyra þegar því væri misboðið. Það hafi Bryndís gert með afar eftirminnilegum hætti. Einnig að Íslendingar mættu yfirhöfuð vera duglegri við að láta í ljós tilfinningar sínar til umhverfisins. Álafosskvos hefði að geyma merka sögu Mosfellsbæjar og ullariðnaðar á Íslandi og fyrir því þurfi þeir sem í Mosfellsbæ ráða ferð að bera virðingu. Jóhannes Bjarni Eðvaldsson íbúi í Álafosskvos og nýr félagsmaður í Varmársamtökunum þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum frábært starf. Hann sagði ljóst að Varmársamtökunum hefði tekist að breyta viðhorfi íbúa og yfirvalda til umhverfismála.
Katrín Theódórsdóttir lögmaður stýrði fundinum. Tillögur að lagabreytingum hlutu einróma samþykki og tekur nú við stjórnartaumum kröftug stjórn með háleitar hugmyndir um þróun bæjarfélagsins eins og fram kom í kynningu frambjóðenda á framboðum sínum. Mun ný stjórn skipta með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar.

Ályktun aðalfundar Varmársamtakanna

Aðalfundur íbúa- og umhverfissamtaka Varmársvæðis skorar á bæjaryfirvöld að virða 50-100 m hverfisvernd meðfram ám og vötnum í bæjarfélaginu.  Einnig er skorað á bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar að efla samráð og þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og stefnumótun.

sp


7 sækjast eftir sæti í stjórn Varmársamtakanna

Í kvöld, 8. maí, kl. 20.30 fer fram kosning í fimm manna stjórn Varmársamtakanna í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna (við hliðina á bókasafninu). Sjö einstaklingar gefa kost á sér til stjórnarsetu. Það eru: Freyja Lárusdóttir, Grétar Snær Hjartarson, Kolfinna Baldvinsdóttir, Páll Kristjánsson og Ólafur Ragnarsson. Gunnlaugur Ólafsson og Sigrún Pálsdóttir sitja áfram í stjórn en Berglind Björgúlfsdóttir, Agla Hendriksdóttir og Sigrún Guðmundsdóttir gefa ekki kost á sér að þessu sinni.
Um er að ræða framhaldsaðalfund og verða bornar upp tillögur að lagabreytingum og kosið í stjórn á fundinum. Fundarstjóri er Katrín Theódórsdóttir lögmaður. Varmársamtökin voru stofnuð 8. maí 2006 og eiga því samtökin tveggja ára afmæli í dag.
 

Á fundinum mun fulltrúi Mosfellsbæjar kynna drög að nýju miðbæjarskipulagi.

Stjórn Varmársamtakanna hvetur áhugafólk um náttúruvernd og íbúalýðræði til að fjölmenna á fundinn.
Frekari upplýsingar er að finna á bloggi samtakanna: www.varmarsamtokin.blog.is

Stjórnin


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband