Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Á strandstað í Mosfellsbæ

Eitt dagblaðanna birti á dögunum áhugaverða grein eftir Ara Skúlason hagfræðing hjá Landsbankanum. Í greininni kvartar Ari yfir því að á undanförnum árum hafi ekki verið hægt að treysta opinberum gögnum um byggingarstarfsemi. Skort hafi á samstarf milli sveitarfélaga og áætlanir þeirra um framboð á lóðum og framkvæmdir verið óljósar. Í þeim tilgangi að varpa ljósi á stöðu mála hafi bankinn því staðið fyrir eigin greiningum á ástandinu.

Nú eftir efnahagshrunið er komið fram að óráðsían í byggingariðnaði átti sér lítil takmörk. Samkvæmt nýjum upplýsingum Landsbankans slær óraunsæið þó öll met í Mosfellsbæ en þar voru íbúðir í byggingu og tilbúnar lóðir hvorki meira né minna en 37,9% af fjölda íbúða í öllu sveitarfélaginu. Til samanburðar má geta þess að hlutfallið var 10,4% í Kópavogi og 18,7% í Garðabæ sem þó kemst næst Mosfellsbæ.

Hvernig má þetta vera?

Samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1998-2024 er gert ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 2814 í nýjum hverfum í Mosfellsbæ á þessu 26 ára tímabili. Sé tímabilið hins vegar stytt um 12 ár er búist við að íbúðum fjölgi um 1196 til 2012.

Nokkur hverfi eru nú í byggingu í Mosfellsbæ en það eru Krikahverfi, Helgafellshverfi, Leirvogstunga, Hulduhólar og miðbær Mosfellsbæjar. Á byggingarsvæðum í Leirvogstungu og Helgafellslandi einum sér er skv. skipulagsáætlunum gert ráð fyrir um 1600 nýjum íbúðum, þ.e. mun fleiri íbúðum en ofangreindar áætlanir fyrir sveitarfélagið í heild gera ráð fyrir til ársins 2012.

Auðvitað geta áætlanir breyst en engu að síður blasir við að sú uppbygging sem fór af stað í Mosfellsbæ var með öllu óraunhæf. Skipulagsáætlanir byggðu ekki á raunhæfu mati á þörf, heldur óskhyggju sem fyrst og fremst virðist eiga rætur að rekja til þrýstings frá lóðahöfum og verktökum - enda var bærinn í raun búinn að framselja þeim skipulagsvaldið. Það sem eftir stendur eru yfirgefin og hálfköruð byggingarsvæði sem eru talandi dæmi um þá óráðsíu sem leiddi til þess að þjóðarskútan sigldi í strand í október 2008.

Hér á bæ hæla menn sér af því að hafa gert samninga við einkaaðila um “uppbygginguna” sem leiði til þess að kostnaður falli ekki á sveitarfélagið. En hver borgar þá brúsann nú þegar allt er hrunið? Það fyrsta sem kemur í hugann eru þjónustufyrirtæki í eigu ríkis- og sveitarfélaga, s.s. hita- og rafmagnsveitur og svo auðvitað bankarnir sem sitja uppi með gjaldþrota fyrirtæki og fjölskyldur sem keypt hafa hér hús og lóðir. Ergo, skuldir sem stofnað var til í tengslum við framkvæmdir í  Mosfellsbæ falla á þjóðina. En leysir það sveitarfélagið undan allri ábyrgð?

Félagar í Varmársamtökunum hafa um tveggja og hálfs árs skeið reynt að spyrna við fæti til að forða sögulegum byggðakjörnum og útivistarperlum í Mosfellsbæ undan skefjalausum gröfukjöftum. Í dag situr bæjarfélagið uppi með sviðna jörð og byggingar sem draugar fortíðar hýsa.

Sveitungum mínum er ekki öðruvísi farið en öðrum Íslendingum. Þeir spyrja á strandstað í Mosfellsbæ hvernig þetta gat gerst og hvort enginn ætli hér að axla ábyrgð. Verkstjórar þessa ráðabruggs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Haraldur Sverrisson, skulda bæjarbúum skýringar. Okkur nægja ekki þau rök að Lehman Brothers hafi farið á hausinn. Við viljum vita hvernig þessar áætlanir urðu til og hvernig samskiptum stjórnarherra í Mosfellsbæ við athafnamennina var yfirleitt háttað.

Nýja Ísland hefur sagt ólýðræðislegum stjórnarháttum stríð á hendur. Lausnarorðið er þátttaka almennings í ákvarðanatöku og krafa um gegnsæi. Líka í Mosfellsbæ.

P.s.

Sjá einnig sjónvarpsviðtal: http://www.inntv.is/Horfaáþætti/Kolfinna/Kolfinna17022009/tabid/726/Default.aspx


Sigrún Pálsdóttir


Björninn unninn í umhverfismálum

Mikill áfangi náðist í umhverfismálum á Íslandi á dögunum þegar ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ákvað að fullgilda Árósasamninginn en með innleiðingu hans fá m.a. umhverfisverndarsamtök skýlaust umboð til að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda í umhverfismálum.

Árósasamingurinn er alþjóðlegur samningur sem Íslendingar undirrituðu á ráðherrafundi um umhverfi í Evrópu fyrir 11 árum. Allar þjóðir Evrópusambandsins og Norðurlanda hafa innleitt hann í sína löggjöf en á Íslandi hefur framkvæmdin hingað til strandað á vilja ráðherra í Sjálfstæðisflokknum til að aðlaga íslensk lög að samningnum.

Árósasamningurinn byggir á markmiðum sjálfbærrar þróunar sem ætlað er að tryggja rétt núlifandi og komandi kynslóða til að lifa í heilbrigðu umhverfi. Með samningnum öðlast réttindi í umhverfismálum því sömu stöðu og önnur mannréttindi, þ.e. fullnægjandi umhverfisvernd verður undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda s.s. heilbrigðis og velferðar. 

Réttindin sem Árósasamningurinn tryggir almenningi eru þríþætt: (1) aðgangur að upplýsingum um umhverfismál; (2) þátttaka í ákvarðanatöku og (3) aðgangur að réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila..

Mikill fengur er í því fyrir umhverfissamtök að ríkisstjórnin skuli nú ætla að hrinda Árósasamningnum í framkvæmd hér á landi. En hingað til hafa slík samtök haft mjög takmörkuð áhrif á ákvarðanir stjórnvalda í umhverfismálum.

Ástæða þess að Ísland hefur enn ekki fetað í fótspor Evrópuþjóða er að fyrrum dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, stóð í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum á réttarfarsreglum til að tryggja rétt almennings til að bera undir dómstóla eða annað óháð úrskurðarvald ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið. Í ráðherratíð sinni þrengdi Björn t.d. ákvæði í lögum um gjafsókn en skv. þingsályktunartillögu um samninginn er almenningi nú opnuð aðild að slíkum málum honum að kostnaðarlausu.

Hingað til hefur rétturinn til að kæra verið bundinn við eignarrétt eða verið háður því að kærandi hafi aðra lögvarða hagsmuni sem verið hafa afar þröngt skilgreindir. Með breytingunni verður því stigið stórt skref í þá átt að bæta réttarstöðu samtaka sem láta sig umhverfisvernd varða.

Mikilvægt er að stjórnkerfið virði og fylgi eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar þannig að yfirlýsingin öðlist annað og meira en táknrænt gildi. Gangi það eftir ætti björninn að vera að fullu unninn!

Sigrún Pálsdóttir

Heimild: Tillaga til þingsályktunar, 126. löggjafarþing 2000-2001. Þingskjal 1032.

Skýrsla Árósanefndar

 

Ég á ammæli - ég ræð! - segir forsetinn

“Lýðræði bæjarbúa felst fyrst og fremst í því að kjósa bæjarfulltrúa til að taka [...] ákvarðanir”, - segir á Moggabloggi forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í gær. Tilgangur skrifanna er sem endranær að gera lítið úr áhuga félaga í Varmársamtökunum á umhverfismálum en þeir fjölmenntu á opinn fund um miðbæjarskipulag í vikunni.

Það er ljóst að Varmársamtökin vilja hafa áhrif á mótun samfélagsins og sætta sig ekki við að teknar séu ákvarðanir sem snerta hagsmuni íbúa án þess að þeim sé gefið færi á að tjá sig um þau mál sem eru í farvatninu hverju sinni. Umræddur fulltrúi VG í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur aldrei treyst sér í málefnalega umræðu um umhverfismál við íbúa heldur kosið að tíunda frekar þau völd sem hann telur sig hafa í krafti síns embættis. Málflutningur forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar minnir reyndar einna helst á rifrildi í barnaafmæli þar sem afmælisbarnið telur sig vera réttborið til að ráðsgast með aðra veislugesti og níðast á þeim í krafti þeirra forréttinda að eiga afmæli. Ég á ammæli - ég ræð! – er sú pólitík sem forsetinn vill berjast fyrir.

Ljóst er að valdboð eru hvorki til þess fallin að skapa gott samfélag, né stuðla að bættum samskiptum bæjaryfirvalda við íbúa. Einhliða flokks- og fulltrúaræði er líka í mótsögn við það sem félagar Karls Tómassonar í VG á landsvísu boða. Nú síðast með því að fá ríkisstjórnina til að samþykkja fullgildingu Árósasamningsins en hann gengur einmitt út á að tryggja almenningi virka þátttöku í ákvörðunum stjórnvalda í umhverfismálum.

Sigrún P


Kynning á miðbæjarskipulagi í Mosfellsbæ kl. 5 í dag

Miðbær2Varmársamtökin minna á fund um deiliskipulag miðbæjar Mosfellsbæjar eftir vinnu kl. 17 í dag miðvikudaginn 11. febrúar í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna.

Bæjarstjóri setur fundinn og lýsir aðdraganda tillögunnar og útskýrir arkitekt miðbæjarskipulagsins síðan einstaka þætti hennar. Fundargestum gefst síðan tækifæri til að bera fram fyrirspurnir og ræða hina ýmsu þætti skipulagsins.

Ágætu Mosfellingar! Verum virk og tökum þátt í mótun Nýja Íslands!

Stjórn Varmársamtakanna

Sjá ágrip úr skýrslu rýnihóps:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úrskurðarnefnd knýr Mosfellsbæ svara vegna kæru

Grafið fyrir skólpi við VarmáMosfellsbær viðurkennir í bréfi til Varmársamtakanna að hafa gefið leyfi fyrir framkvæmdum á hverfisverndarsvæði við bakka Varmár og Skammadalslækjar án samráðs við fagnefnd sveitarfélagsins í umhverfismálum.
Ennfremur er ljóst að Mosfellsbær leitaði ekki eftir umsögn Umhverfisstofnunar vegna stórfelldra jarðvegsskipta á bökkum árinnar í tengslum við undirbúning á malbikuðum göngu- og hjólreiðastígum.

Forsaga þessa máls er sú að í september 2007 ákváðu Varmársamtökin að grafast fyrir um aðgerðaleysi umhverfisnefndar í tengslum við framkvæmdir á hverfisverndarsvæðum við Varmá. Skv. stjórnsýslureglum sveitarfélagsins getur bæjarstjórn ekki aflétt hverfisvernd*nema að undangenginni umfjöllun í umhverfisnefnd og skipulags- og byggingarnefnd. Í fundargerðum var enga slíka umfjöllun að finna í tengslum við breytingar á aðalskipulagi 2006. Samtökin sendu því nefndunum fyrirspurn sem Mosfellsbær neitaði að svara í byrjun árs 2008 sem leiddi til þess að við kærðum Mosfellsbæ fyrir brot á upplýsingaskyldu til úrskurðarnefndar upplýsingamála.

Í bréfi til forsætisráðuneytisins dags. 2. febrúar 2009 byrjar Mosfellsbær "á því að afsaka þá töf sem orðið hefur á því að svara erindi nefndarinnar." Mosfellsbær heldur síðan áfram og segist með bréfinu vera að gera "tilraun til þess að leiðbeina samtökunum að þeim efnisatriðum er eftir standa" af upphaflegum kæruliðum.

Það er skemmst frá því að segja að hin svokallaða "tilraun til að leiðbeina samtökunum" einkennist af kjánalegum útúrsnúninum og tilraunum til að hagræða sannleikanum.

Dæmi:
1. Varmársamtökin óskuðu eftir gögnum sem staðfestu að hverfisvernd hefði verið aflétt - eins og lög segja til um. Í svari segir að slíkar breytingar hafi ekki verið gerðar og þær aldrei staðið til. Í næstu setningu segir síðan þvert á fyrri staðhæfingu að hverfisverndarmörkum hafi verið breytt í október 2006, í tengslum við breytingar á aðalskipulagi. Hvernig má þetta vera?

2. Varmársamtökin báðu um skipulagsgögn vegna malbikunar göngustíga innan hverfisverndarmarka við Varmá. Í svari Mosfellsbæjar segir: " Ekki er berum orðum tekið fram að þeir skuli vera malbikaðir, en í greinargerð segir ...: "Aðalstígar eru 3 m breiðir og henta einnig sem hjólreiðastígar." Þetta orðalag hlýtur að skiljast þannig að um malbikaða stíga sé að ræða ... ."
Er það?

3. Varmársamtökin óskuðu eftir að fá að sjá lögbundna umsögn Umhverfisstofnunar um lagningu malbikaðra göngustíga á hverfisverndarsvæði við bakka Varmár. Mosfellsbær bendir á umsögn UST við deiliskipulag 3. áf. Helgafellshverfis sem svar við fyrirspurninni. Umsögnin fylgir með bréfinu en þar er hvergi minnst á malbikaða göngustíga. Stofnunin sér þó ástæðu til að benda á ákvæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar þar sem segir: "Mannvirkjagerð er takmörkuð innan svæðisins en gert er ráð fyrir að um það liggi göngu og reiðstígar. Stígar skulu fyrst og fremst vera malarstígar sem vandlega er komið fyrir í landinu." Sem sagt áhersla lögð á malarstíga og engin umsögn um þær miklu jarðvegsframkvæmdir sem fylgja því að gera undirlag fyrir malbikaða stíga.

Það sorglegasta við þetta allt saman er þó að í millitíðinni er búið að valda óafturkræfum umhverfisspöllum á bökkum Varmár.

*Varmá er á náttúruminjaskrá og njóta bakkar hennar 50 m hverfisverndar. Innan hverfisverndarmarka má skv. aðalskipulagi ekki reisa mannvirki önnur en malarstíga. Bæjarstjórn getur aflétt hverfisvernd að undangenginni umfjöllun í umhverfisnefnd, skipulags- og byggingarnefnd.

*Skáletraður texti er úr bréfum Mosfellsbæjar og umsögn UST.

SP


Búsáhaldabylting í Mosfellsbæ?

Í dag birtist frétt um að Mosfellsbær ætli í samstarfi við Arkitektafélag Íslands að stofna til samkeppni um hönnun kirkju og menningarhúss í miðbænum. Arkitektarnir eru ekki af verri endanum og allt gott um þá að segja. Vandinn er hins vegar sá að verið er að blása til samkeppni um mannvirki sem ekki eru á skipulagi. Endurskoðun á aðalskipulagi miðbæjarins er ekki lokið og tillaga um nýtt skipulag hefur heldur ekki verið kynnt íbúum. Sama er að segja um deiliskipulag svæðisins. Hvorugt skipulagið hefur verið lagt í dóm íbúa og Mosfellsbær því eina ferðina enn að brjóta skipulagslög með því að fara af stað með framkvæmdir sem ekki eiga sér stoð í skipulagi og án samráðs við íbúa. Að lokinni samkeppni er nokkuð ljóst að íbúar fá ekkert um staðsetningu húsanna að segja.

Skoðanir á því að steypa saman kirkju og menningarhúsi eru einnig mjög skiptar. Laga verður starfsemi menningarhúss t.d. að þörfum kirkjunnar. Staðsetning þessara bygginga skiptir bæjarfélagið og íbúa auk þess miklu máli og því sjálfsagt að fólk fái að ræða tillöguna sín á milli og við bæjaryfirvöld. Slík mannvirki skipa undir eðlilegum kringumstæðum alveg sérstakan sess í bæjarmyndinni en skv. hugmynd Mos er gert ráð fyrir að setja þessi musteri menningarinnar í hvarf við Krónuna. Hugmyndin er því ekki til þess fallin að styrkja bæjarmyndina eða gera eitthvað fyrir ásýnd miðbæjarins.  (Sjá um hagfræði miðbæja á bloggi Varmársamtakanna: http://www.varmarsamtokin.blog.is/blog/varmarsamtokin/entry/330740/ )

Miðbær2Eitt dæmi um misheppnaða framkvæmd í miðbæ Mosfellsbæjar, sem ekki var kynnt íbúum, er torg sem hellulagt var í fyrrasumar. Satt best að segja er þetta eitthvert það einmanalegasta torg sem undirrituð hefur augum litið (þó fallega sé það hannað). Við eitt og yfirgefið torgið á nú að byggja hús sem er sömu vandkvæðum háð og sjálft torgið, þ.e. á svæðinu mun varla sjást til mannaferða.  Á reitnum er framúrskarandi vindasamt og ljóst að þarna þjónar torg engum tilgangi nema ef vera kynni á tyllidögum. Torg hefði frekar átt að staðsetja þar sem fólk vill vera, þ.e. í Álafosskvos. Í Kvosinni hefði það þjónað atvinnuskapandi tilgangi fyrir bæjarfélagið og sómt sér vel í sögulegu umhverfi.

Það er löngu orðið ljóst að skoðanir skattborgara á mótun bæjarfélagins skipta Harald Sverrisson og hans meðreiðarfólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar engu máli. Er kannski tími til kominn að hefja búsáhaldbyltingu í Mosfellsbæ? 

Sjá einnig: www.ai.is sp
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í trássi við skipulag

Hvernig er hægt að efna til samkeppni um skipulag sem ekki hefur farið í gegnum lögbundið skipulagsferli? Gerir Arkitektafélag Íslands ekki þá kröfu til sveitarfélaga að hönnunartillögur standist aðal- og deiliskipulag? Hvernig væri að Mosfellbær breytti einu sinni út af vananum og geymdi hönnun og framkvæmdir þar til búið er leggja tillögur að miðbæjarskipulagi í dóm íbúa? Það væri svo sannanlega tilbreyting.

Varmársamtökin skora á Arkitektafélag Íslands að taka ekki að sér að hanna þetta svæði fyrr en að búið er að klára endurskoðun aðalskipulags og hanna deiliskipulag sem kynnt hefur verið fyrir íbúum.


mbl.is Hönnunarsamkeppni um kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband