Kynning á tengibraut - misskilningur leiðréttur

VS_i_tengslumMótmæli við lagningu tengibrautar um Álafosskvos hófust við endurskoðun á aðalskipulagi Mosfellsbæjar árið 2002. Sú söguskýring að mótmæli hafi fyrst hafist þegar verkið var komið á framkvæmdastig á þvi ekki við rök að styðjast. Engin skipulagsáætlun á að hafa verið betur kynnt íbúum. Sé málið skoðað kemur í ljós að ekki er heldur fótur fyrir þeirri staðhæfingu.

Það er sérkennileg staða að íbúar í Mosfellsbæ skuli hvað eftir annað þurfa að upplýsa fulltrúa bæjarstjórnarmeirihlutans í Mosfellsbæ um lagaumhverfið sem þeir eiga að vinna eftir. Ennfremur óþolandi að þeir skuli endurtekið halla réttu máli til að afvegaleiða heilbrigða umræðu um málið meðal íbúa.

Á fundi í Hlégarði um miðjan febrúar steig formaður skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson,  í pontu og lýsti því yfir að engin framkvæmd hafi verið jafn vel kynnt íbúum. Tíndi hann til fundi sem ýmist komu málinu ekki við, haldnir voru fyrir hans tíð í bæjarstjórnarmeirihluta eða aðeins ætlaðir þröngum hópi íbúa.
Fyrsti og eini almenni fundurinn átti sér stað í febrúar 2002 en hann var haldinn í tengslum við kynningu á tillögum að nýju aðalskipulagi. Fjöldi íbúa safnaði undirskriftum gegn lagningu tengibrautar um Álafosskvos og sendi bæjaryfirvöldum athugasemdir sínar skriflega. Voru þær afgreiddar úr nefnd í byrjun árs 2003 eða meira en hálfu ári eftir að nýr bæjarstjórnarmeirihluti tók við. Það er skemmst frá því að segja að ekkert tillit var tekið til mótmælanna.
Miklar breytingar hafa átt sér stað á aðalskipulagi síðan þá, íbúafjöldi í Helgafellslandi hefur m.a. margfaldast en ekki einn einasti fundur verið haldinn til að kynna þessar umfangsmiklu breytingar fyrir íbúum.

Annar fundurinn sem Haraldur tiltók var kynning á tillögum að nýju rammaskipulagi fyrir Helgafellsland sem haldinn var í mars 2005. Skv. upplýsingum frá Skipulagsstofnun telst þessi fundur ekki vera hluti af kynningarferli Helgafellslands enda deiliskipulagning enn ekki hafin og ekki ljóst hversu mikið vægi rammaskipulagið fengi við gerð skipulagsáætlana.

Þriðji fundurinn sem formaður skipulagsnefndar benti á kemst kannski næst því að uppfylla skilyrði um kynningu en samt ekki. Þessi fundur var haldinn í Varmárskóla í febrúar 2006 eða um það leyti sem fyrstu deiliskipulög Helgafellslands voru auglýst til kynningar. Skv. upplýsingum frá skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar var hann kynntur með dreifibréfi til íbúa í Helgafellshverfi og nágrenni. Fundurinn var því ekki almennur eins og Haraldur heldur fram. Enginn íbúi í Álafosskvos kannast við að hafa fengið fundarboð og hefur undirrituð aðeins hitt einn mann sem man eftir fundinum en hann er íbúi í Landahverfi. Sagði hann örfáar hræður hafa mætt á fundinn sem staðfestir ennfrekar þá skoðun mína að fundurinn hafi verið illa kynntur. Þessu til sönnunar er vert að skoða fundargerðir Mosfellsbæjar en það er ekki minnst á fundinn í einni einustu fundargerð á vef sveitarfélagsins. Þar er heldur ekki að finna neina auglýsingu um fundinn.

Fjórði fundurinn var haldinn í núorðið þjóðþekktu safnaðarheimili Lágafellssóknar 12. maí 2006 eða fjórum dögum eftir stofnun Varmársamtakanna. Var fundarboð borið í hús af starfsmönnum Mosfellsbæjar kvöldið fyrir fundinn og aðeins til þeirra íbúa sem gert höfðu athugasemdir við deiliskipulag tengibrautarinnar. Hafði það verið samið í miklum flýti því bréfið var ódagsett og ekki ritað á bréfsefni Mosfellsbæjar.

Þeir fundir sem haldnir voru eftir gildistöku deiliskipulagsins 2. janúar 2007 teljast ekki vera kynningarfundir í skilningi laga þar sem deiliskipulagið var frágengið og íbúar hafa ekki lengur tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri en það er tilgangurinn með kynningu á skipulagsáætlunum að tryggja lýðræðislegan rétt íbúa til að taka þátt í skipulagsferlinu og koma á framfæri mikilvægri þekkingu á umhverfi sínu.

En af hverju þarf formaður skipulags- og byggingarnefndar að slá ryki í augu fólks undir því yfirskyni að vera að leiðrétta misskilning*? Er það vegna þess að hann veit upp á sig skömmina eða vegna þess að hann hefur ekki kynnt sér í hverju hlutverk hans sem fulltrúi bæjarbúa í skipulagsnefnd er fólgið?
Það er ekki í mínum verkahring að geta hér í eyðurnar en sé atburðarás síðustu daga skoðuð er ljóst að fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa verið neyddir til að horfast í augu við að vinnubrögð þeirra stangast á við lög og góða siði lýðræðissamfélagsins.

Það fullnægir t.d. ekki lagaskyldu að kynna sumt og annað ekki fyrir íbúum. Framkvæmdir í Helgafellslandi hafa verið kynntar í bútum og ekkert fjallað um ruðningsáhrif einstakra framkvæmda á aðrar skipulagseiningar. Heildaráhrif tengibrautar um Álafosskvos á bæjarfélagið hafa hvergi komið fram í kynningu en fyrirhuguð staðsetning Helgafellsbrautar kallar t.d. á stórfelldar vegaframkvæmdir við Vesturlandsveg og nýjan veg samhliða tengibrautinni í Kvosinni sjálfri. Svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif af legu hennar á atvinnustarfsemi, útivist og  samgang milli hverfa í og við Helgafellsland.

Öflug barátta Varmársamtakanna fyrir því að fá að taka þátt í undirbúningi skipulagsáætlana í Mosfellsbæ  á sér augljósa skýringu og hún er sú að bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hefur í öllu þessu ferli haft að engu leikreglur lýðræðisins. Það gefur auga leið að við slíkt ástand verður ekki unað nú 200 árum eftir að lýðræði var fyrst kynnt til sögunnar.

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum

varmarsamtokin@gmail.com

* Haraldur birti grein um kynningu á Helgafellsbraut í Mosfellingi 23. febrúar undir yfirskriftinni: "Helgafellsvegur - misskilningur leiðréttur".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er rétt hjá Sigrúnu Pálsdóttur að mótmælin hófust árið 2002.

Þá var því mótmælt harðlega af umhverfissamtökunum Mosa að tengibrautin færi
fyrir neðan Reykjalundarskó, eina vinsælustu útivistarparadís Mosfellsbæjar.
Þá sögu þekki ég vel.

Það er skrítið að fulltrúar úr Varmársamtökunum hafa nú bent á þá leið sem
einn valkost, það eru mikil náttúruverndarsjónarmið í því eða hitt þá
heldur.

Satt að segja nenni ég ekki að tíunda þær gengdarlausu rangfærslur í grein
Sigrúnar og plammeringar á Harald Sverrisson í grein hennar á heimasíðu
Varmár-Samfylkingar og Framsóknarsamtakanna eins og einn bloggari kaus að
kalla samtökin réttilega.

Haraldur fór að mínu mati mjög heiðarlega í gegnum allan ferilinn á fundinum
í Hlégarði eins og allir frummælendur. Í Guðs bænum Varmársamtök hættiði nú,
það eru allir orðnir hundleiðir á þessum rangfærslum ykkar.

Með bestu kveðju Einar Óli.

Einar Óli (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 23:28

2 identicon

Það er gaman að sjá að maður eins og þú, sem virðist við fyrstu sín vera harður íhaldsnagli, ert komin með áhuga á umhverfismálum og ætlar að taka að sér að dæma "Fólk sem hefur engan áhuga á að kynna sér staðreyndir varðandi tengibrautina og umhverfi Álafosskvosarinnar". Við þurfum svona menn, ekki spurning! Segir Gunnlaugur varaformaður Varmársamtakanna. Þvílíkt kjaftæði hjá varaformanni Varmársamtakanna. Þvílíkt bull, þvílíkt mont. Halda þessi samtök að þau séu tekin trúanlega og þau ein hugsi um náttúruvernd í bæjarfélaginu????? Vandamálið við tengibrautina er að það vantar allan faglegan samanburð við aðra möguleika. Segir Gunnlaugur Hvaða möguleika Gunnlaugur og svaraðu nú Varmársamtökin, íbúa og umhverfissamtök í Mosfellsbæ eru öllum opin. Þau hafa fengið fagfólk til liðs við sig við að gera úttekt á möguleikunum við lagningu tengibrautar í Helgafellshverfi. Segir Gunnlaugur. Haldið þið að Mosfellsbær hafi ekki fengið fagaðila til að vinna að málinu með sér eða hvað? Þið gerið lítið úr þeim sérfræðingum, eða eru þeir ekki í Framsókn og Samfylkingu??? Lýsum yfir þverpólitískum stuðningi við frjáls og opin íbúa og umhverfissamtök eins og Varmársamtökin. Segir Gunnlaugur. Varmársamtökin hafa drullað yfir alla æðstu embættismenn bæjarins samanber forseta bæjarstjórnar og formann bygginganefndar, já þvílíkt þverpólitísk samtök Brjáluð hjón í Teigakverfi.

brjáluð hjón (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 00:29

3 identicon

Þetta var fyrst birt á síðu Guðmundar Bragasonar

Brjáluð hjón

brjáluð hjón (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 00:32

4 identicon

Mér sýnist á þessum pistli að brautin hafi verið kynnt rækilega. Allavega eru þónokkrir fundirnir taldir upp, sem er meira en hægt er að segja um önnur mál í skipulagsferli bæjarins.

Varmár-Samfylkingar og Framsóknarsamtökin er ágætis orð yfir þetta fyrirbæri sem er á móti tengibrautinni.

Ætli samtökin kalli sig Varmársamtökin vegna þess að flestir í samtökunum búa nánast ofan í Varmánni sjálfri?
Svo vilja þau ekki að aðrir búi í margra tuga metra fjarlægð

SS samtökin er mín tillaga!
Strengjabrúður Samfylkingarinnar

Halldór (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 01:07

5 identicon

Svara hérna einu efnislega bitastæðu athugasemdinni. Annað er að missa sig og þjónar hvorki opinni umræðu né því að virða þær lýðræðislegu áherslur sem lagðar eru í skipulagslögum. Gott ef það lyktar ekki af flokkshollustu!

Einar segir; "Það er skrítið að fulltrúar úr Varmársamtökunum hafa nú bent á þá leið sem einn valkost, það eru mikil náttúruverndarsjónarmið í því eða hitt þá heldur". Þetta er svona fuss og svei, en gott og vel, hann um það. Varmársamtökin hafa ekki viljað leggja áherslu á einn valmöguleika umfram annan, en viðraðir hafa verið aðrir möguleikar. Trúlega ert þú að vísa í skrif eftir mig, þar sem ég lýsi þeirri persónulegu skoðun. Hún er í stuttu máli að mislæg gatnamót komi ofan byggðar og þverun yfir Varmá með innanbæjarvegi við Álanes milli Álafosskvosar og Reykjalundar. Vanda þyrfti til slíkrar þverunar með brú sem stæði það vel upp úr landinu að gott svigrúm sé fyrir göngustíga og útivist. Þá erum við komin með möguleika á að lyfta upp Vesturlandsvegi við Kvosina til að auka svigrúm þar fyrir útivist, göngustíga og reiðstíga.

Varmársamtökin hafa skynjað mikinn og jákvæðan hljómgrunn frá fólki úr öllum flokkum. Fyrir utan auðvitað þá úrskurði sem liggja fyrir frá eftirlitsstofnunum (úrskurðanefnd og Skipulagsstofnun) að bæjaryfirvöldum beri að vanda til varka. Einar, þú ert nýr í kompaníi með einhverjum 2-4 (jú, ekki má heldur gleyma að það eru einhver brjáluð hjón með algjörlega óskiljanlegan texta) sem að ræðst að samtökunum og biður okkur að "hætta" því "allir séu hundleiðir".

Ekkert það sem Varmársamtökin standa fyrir á að koma niður á hjónalífi hér í bæjarfélaginu. Ef, eitthvað er þá ætti það að eflast! Við stöndum vörð um hagsmuni sem 60-70% bæjarbúa meta mikils og telja eina meginforsendu fyrir búsetu sinni hér í jaðri höfuðborgarinnar. Það eru tengslin við náttúruna. Hvort metum við meira grænu svæðin, söguminjar og útivistarmöguleikana eða náttúrulaust hundalíf í ferköntuðum litlum kössum á lækjarbakka?

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband