Deiliskipulag Helgafellsbrautar ólögmætt

Gröfur við ÁlafosskvosBarátta Varmársamtakanna fyrir mati á áhrifum tengibrautar um Álafosskvos hefur borið ríkulegan ávöxt. Skipulagsstofnun hefur ákveðið að deiliskipulag tengibrautarinnar skuli háð lögum um umhverfismat áætlana. Með þessari ákvörðun tekur stofnunin undir úrskurð Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá miðjum febrúar um að vafi leiki á lögmæti deiliskipulagsins .
Niðurstaða Skipulagsstofnunar er ótvíræð, þ.e. að deiliskipulag Helgafellsbrautar sé ólögmætt. Með ákvörðuninni er bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ gert að vinna umhverfisskýrslu áður en tekin er endanleg ákvörðun um legu tengibrautarinnar.

Í gerð umhverfisskýrslu felst að gera verður umfangsmiklar rannsóknir á áhrifum tengibrautarinnar á umhverfið sem í lögum er skilgreint sem samheiti fyrir "samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta."
Lögin segja m.a. til um að gera verður ítarlega úttekt á áhrifum framkvæmdarinnar á aðra áætlanagerð, þ.e. aðrar skipulagseiningar, lýsa þarf þeim umhverfisþáttum sem líklega verða fyrir verulegum áhrifum og umhverfisvandamálum sem framkvæmd veldur á svæðum með sérstakt náttúruverndargildi, veita upplýsingar um samþykkt umhverfisverndarmarkmið og að hve miklu leyti tekið er mið af þeim við skipulagsgerð, bera saman valkosti og veita upplýsingar um mótvægisaðgerðir.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar er mikið fagnaðarefni fyrir Varmársamtökin sem barist hafa fyrir því að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ vinni faglega úttekt á áhrifum tengibrautar á náttúru Varmársvæðisins, íbúa og atvinnustarfsemi í grennd við Helgafellshverfi og afleiðingum skipulagsins fyrir menningarsögu Mosfellsbæjar. Hafa samtökin jafnframt ítrekað skorðað á bæjarstjórn að gera fagleg úttekt á öðrum valkostum varðandi legu tengibrautarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aldeilis frábær barátta hjá ykkur og nú uppskera menn (og konur sérstaklega) eins og sáð hefur verið. Húrra fyrir Varmársamtökunum!

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 11:26

2 identicon

Takk fyrir stuðninginn Arnþór.

Til hamingju Ísland segjum við í Varmársamtökunum. Framvegis verður að sýna fagmennsku við gerð skipulagsáætlana. Við fórum fram á að Mosfellsbær gerði mat á heildaráhrifum þessarar afar vafasömu framkvæmdar. Það munu þeir nú þurfa að gera.

Með kveðju, Sigrún P

Sigrun Palsdottir (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 11:58

3 Smámynd: Ragnar Pálsson

Nú er að vona að ráðherra láti ekki undan þrýstingi og sleppi sveitarstjórn fram hjá lögunum.  Slíkt gæfi mjög slæmt fordæmi og myndi eyðileggja þau uppeldisáhrif sem úrskurðurinn hefur fyrir sveitastjórnarmenn í Mosó og annars staðar. 

Þó að margir hæfir menn hafi komið að skipulagningu og annarri undirbúningsvinnu vegna þessarar nýju byggðar í Mosó er ekki ósennilegt að umhverfismatið geti nýst sem forsenda til þess að komast niður á lausn sem er betri en sú sem hefur verið uppi á borðinu.  

Ég óska umhverfissinnum í öllum stjórnmálaflokkum til hamingju.   

Ragnar Pálsson, 8.3.2007 kl. 13:23

4 identicon

Stórglæsilegur árangur, að fá þetta fram í dagsljósið, þetta er áfellisdómur fyrir stefnu bæjarstjóra, sem ætlaði að koma þessu í gegn hvað sem það kostaði.

Baldur Ingi (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 14:07

5 identicon

Við skulum sjá hvað setur...

Halldór (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 14:47

6 identicon

Svar til Gunnlaugs sem birtist vegna umræðna á bloggi Guðmundar Bragasonar:

Veistu það Gunnlaugur, að ég hef mjög ákveðna ástæðu til að ætla að eini maðurinn sem skrif mín hafa ekki verið að skapi sért þú sjálfur og enginn annar, og þínir fylgismenn hjá samtökunum. Mín skrif í þessu máli hófust þegar mér var nóg boðið af skítkasti í garð Karls Tómassonar vegna meintrar slælegrar framgöngu hans að mati Varmársamtakanna og fleiri í máli tengibrautarinnar. Steininn tók úr þegar Árni Matt kallaði Karl fjanda menningarlífs í Kvosinni og ekki bara á heimasíðu sinni heldur las hann þetta yfir salinn á tónleikunum sem voru haldnir til styrktar Varmársamtökunum. Fannst samtökunum það allt í lagi?

Það hefði verið alveg sama hver hefði í raun átt í hlut, ég hefði mótmælt þessari framkomu við viðkomandi sérstaklega þegar svo vill til að ég þekki viðkomandi aðeins af góðu einu. Ég hefði líka staðið upp og varið þig ef þú hefðir verið í stöðu Karls, einkum þar sem ég þekki þig aðeins af góðu einu í gegnum tíðina og undra ég mig í raun á framgöngu þinni í þessu máli í garð fólks sem er á móti þínum skoðunum. Það einhvern veginn er ekki þinn stíll, hélt ég.

Ég hef aldrei lýst yfir skoðun minni á tengibrautinni, enda snúast mín skrif ekki um hana, þó ég hafi sagt að upphaflega hafi ég verið á máli samtakanna hvað Varmána í heild varðar. Mér finnst hugsjónin fín og er í raun sammála samtökunum þar. En ég hef gagnrýnt þær aðferðir sem að þau hafa notað  til að koma málefnum sínum á framfæri, áður nefnt skítkast og illa þefjandi fnyk af pólitík sem angar af hinum meintu ópólitísku samtökum langar leiðir. Það er alveg sama hvað þið reynið að þvo þann stimpil af ykkur, yfirlýsing eins stjórnarmanns samtakanna tók af allan vafa þar um. 

Liðsmenn samtakanna eiga í vandræðum með skoðanir sínar á fólki sem er ekki því að skapi, það er staðreynd sem ítrekað hefur komið fram og það hefur verið kjarninn í mínum skrifum. Hluti af því var t.d. þegar einn meðlimur þeirra ásakaði mig um að vera leigupenni fyrir Karl Tómasson. Það sýnir ekki bara hvað fólki í samtökunum finnst um að einhver hafi aðrar skoðanir en það sjálft viðurkennir, það sýnir líka að það sama fólk var sannfært um að Karl þyrfti að borga fólki sem vildi verja sig. Þetta voru í raun ekkert nema grófar ærumeiðingar. Þannig eru nú vinnubrögðin ykkar og þau er ég að gagnrýna.

Ég vil benda þér á að í þínum skrifum hér eimir enn eftir af þessu áliti. Heldur þú í alvörunni að Karl ráði einhverju um það sem ég skrifa, hvort sem það er honum til varnar eða ekki? Þarna vanmetur þú mig og það veistu. Ég hef hingað til verið fullfær um að koma mínum skoðunum á framfæri og standa undir þeim án þess að nokkur þurfi að samþykkja þær eða ekki og það fer alveg ferlega í taugarnar á þér og þínum.  

Annars hef ég ekki orðið vör við að skrif mín um þetta mál hafi verið neinum á móti skapi, nema ykkur í Varmársamtökunum, það get ég fullvissað þig um og það veistu ef þú leitar vel í hjarta þínu. Trúðu mér ég hef fengið viðbrögð en bara góð.

Ég þakka gott boð, en ég verð að afþakka eins og ég gerði síðast þegar ég fékk svipað boð. Ég hef séð nóg af verkum  og vinnubrögðum samtakanna til þess að vilja ekki bendla mig við þau, því er nú ver, þar sem mér leist svo andsvítans vel á ykkur í byrjun og þið áttuð minn stuðning, það var áður en þið fóruð offari í persónuníði og skítkasti gangvart fólki. Hvað ætli margir séu í sömu sporum og ég með það? Fleiri en þig grunar kæri Gunnlaugur, fleiri en þig grunar. Og við erum vissulega fleiri en þeir fjórir sm þú tönnglast á hérna í skrifum þínum. 

Ég vil taka það fram að ég skrifa hér sem persónan Hjördís ekki sem prófarkalesarinn Hjördís.

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband