Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
30.6.2007 | 18:56
Ekki er allt sem sýnist í Álafosskvos
Þeir sem leið eiga um Mosfellsbæ á morgun, sunnudaginn 1. júlí eftir kl. 16, geta átt von á óvæntum uppákomum í bland við ævintýri og hljóðfæraleik í Álafosskvos. Hafa Varmársamtökin, með dyggum liðsstyrk Álfyssinga, fengið listamenn til liðs við sig sem skemmta munu gestum og gangandi í góða veðrinu.
Skemmtiatriðin eru hugsuð fyrir fólk á öllum aldri. Mun Bryndís Schram m.a. lesa upp ævintýri fyrir börn og fullorðna við undirleik Áshildar Haraldsdóttur, flautuleikara og Bryndísar Höllu Gylfadóttur, sellóleikara og hefst flutningur þeirra kl. 16.
Fleiri listamenn hafa boðið fram krafta sína og verður því gaman að koma í Kvosina á morgun.
Við hvetjum vildarvini Varmársvæðisins til að leita með okkur á vit ævintýranna og sýna með því samstöðu með baráttu samtakanna fyrir því að framkvæmdir við Varmá í Mosfellsbæ verði möglunarlaust settar í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Við Álafoss er að finna eitthvert skemmtilegast samspil sögulegrar byggðar og náttúru á höfuðborgarsvæðinu. Þessi einstöku umhverfisgæði viljum við vernda.
Með uppákomunni viljum við ennfremur vekja athygli landsmanna á því að lögð hefur verið tengibraut um Álafosskvos án deiliskipulags sem þýðir að aðkoma bæjarbúa að skipulagstillögunni verður einungis til málamynda, þ.e. þjónar aðeins friðþægingu þeirra stofnana sem lögum samkvæmt eiga að láta sig hagsmuni almennings og umhverfis varða. Eini möguleiki almennings til að hafa áhrif á gerð skipulagsáætlana er að koma á framfæri athugasemdum við skipulagstillögur. Sá réttur hefur með þeim framkvæmdum sem nú eru að mestu yfirstaðnar verið tekinn af íbúum. Þessum vinnubrögðum viljum við mótmæla og hvetjum við landann til að sýna samstöðu því einungis þannig getum við haft áhrif í átt til lýðræðislegra stjórnarhátta.
LÁTUM OKKUR MÁLIN VARÐA - VARMÁRSAMTÖKIN
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2007 | 01:06
Helgafellsbraut lögð án deiliskipulags
Það dylst engum sem skoðar eftirfarandi myndband að búið er að leggja tengibraut um Álafosskvos án samþykkts deiliskipulags. Nú sem endranær þræta bæjaryfirvöld fyrir að búið sé að gera undirlag fyrir veginn en dæmi nú hver fyrir sig:
Frestur til að skila inn athugasemdum við deiliskipulagstillögu tengibrautarinnar og umhverfisskýrslu er til 12. júlí. Varmársamtökin skora á íbúa í Mosfellsbæ að gera alvarlegar athugasemdir við þá vanvirðingu á lýðræðislegum stjórnarháttum sem lýsa sér í samskiptamynstri bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ við íbúa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2007 | 20:37
Úrskurðarnefnd hefur ekki úrræði til að stöðva framkvæmdir í Mosfellsbæ
Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingar-mála ákvað í morgun að að stöðva ekki framkvæmdir í og við vegstæði Helgafells-brautar og við bakka Varmár. Íbúar á svæðinu höfðu farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða þar sem einsýnt þótti að ekki væri eingöngu verið að vinna við lagningu fráveitu heldur einnig vegagerð í vegstæði tengibrautarinnar.
Í úrskurðinum sem kveðinn var upp til bráðabirgða er ekki tekið efnislega á kærunni heldur aðeins komist að þeirri niðurstöðu að "áhöld séu um hvort hinar umdeildu framkvæmdir styðjast við kæranlega ákvörðun" og bent á að "vandséð sé að þær raski til muna lögvörðum hagsmunum kærenda" - sem þýðir einfaldlega að nefndin telji að ekki sé um óafturkræf umhverfis- og eignaspjöll að ræða og því liggi ekki eins mikið á. Það sem nefndin mun taka til efnislegrar meðferðar er því hvort framkvæmdaleyfið sem Mosfellsbær veitti framkvæmdaaðilum sé löglegt.
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ halda því fram að aðeins sé verið að vinna við lagningu fráveitu frá Helgafellshverfi í vegstæði tengibrautarinnar og endurbætur á ræsi meðfram bökkum Varmár. Á þessari forsendu þurfi bærinn ekki framkvæmdaleyfi. Fyrir liggur hins vegar að bærinn gaf framkvæmdaaðilum leyfi til framkvæmdanna, sbr. m.a. bréf Mosfellsbæjar til Varmársamtakanna. Fleiri leyfisbréf eru til vitnist um að Mosfellsbær leyfði framkvæmdirnar og verða þau tekin til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni.
Lögmaður íbúa, Katrín Theódórsdóttir, heldur því fram í kærunni að framkvæmdirnar séu ekki aðeins framkvæmdaleyfisskyldar heldur einnig skipulagsskyldar en Mosfellsbær leyfði framkvæmdir án þess að samþykkt deiliskipulag lægi fyrir. Þar sem um er að ræða svæði á náttúruminjaskrá sem einnig nýtur hverfisverndar er Mosfellsbæ ennfremur skylt skv. náttúruverndarlögum að leita umsagnar Umhverfisstofnunar.
Aðdragandi þessa máls er sá að fyrr í vetur kærðu íbúar framkvæmdir við lagningu tengibrautar um Álafosskvos til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í kjölfar kærunnar felldu bæjaryfirvöld úr gildi deiliskipulag tengibrautar um Álafosskvos eftir að úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að vafi léki á lögmæti framkvæmdanna. Lýsti bæjarstjóri því yfir að bærinn ætlaði að láta gera umhverfisskýrslu og vinna skipulagið í sátt og samlyndi við íbúa. Í framhaldi af hinum fögru fyrirheitum drógu íbúar kæruna til baka. Eftir að framkvæmdir hófust að nýju í vegstæðinu um miðjan maí var skýrslan ásamt nýrri tillögu að deiliskipulagi tengibrautarinnar auglýst til kynningar. Skipulagið öðlast hins vegar ekki gildi fyrr en eftir að íbúar hafa fengið tækifæri til að gera athugasemdir við tillöguna og þurfa þær að hafa borist fyrir 12. júlí nk. Er þetta raunar eini möguleiki almennings til að hafa áhrif á gerð skipulagsáætlana. Sé farið út í framkvæmdir án deiliskipulags er sá réttur beinlínis tekinn af íbúum að hafa áhrif á mótun umhverfisins. Það hlýtur því að vera sjálfsögð lýðræðiskrafa að ekki sé farið út í framkvæmdir fyrr en eftir að íbúar hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Með framkvæmdunum sem nú standa yfir telja íbúar að bæjarstjórn Mosfellsbæjar sé að ganga á bak orða sinna um að hafa samráð við íbúa um gerð skipulagsins. Einnig að verið sé að svívirða náttúruverndarlög og þann lýðræðislega rétt bæjarbúa að koma á framfæri skoðunum sínum og þekkingu þegar unnið er að skipulagsgerð fyrir sveitarfélagið en sá réttur er tryggður í skipulags- og byggingarlögum.
Myndirnar hér að ofan sýna svo ekki verður um villst að verið er að vinna að vegagerð í vegstæði tengibrautarinnar auk þess sem verið er að leggja fráveitu fyrir Helgafellshverfi. Eins er ljóst að ekkert tillit er tekið til lífríkis Varmár og því mikil hætta á að umhverfisspjöllin sem verið er að vinna verði ekki tekin til baka.
Fróðlegt verður að vita að hvaða niðurstöðu úrskurðarnefndin kemst í endanlegum úrskurði. Við vonum auðvitað að Mosfellsbæ verði gert að virða lýðræðislegan rétt íbúa og að fara framvegis að lögum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.6.2007 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 17:10
Fánadagurinn 12. júní við Álafoss
Sigurjón Pétursson verksmiðjueigandi á Álafossi hélt um langt skeið svonefndan fánadag hátíðlegan við Álafoss. Skemmtilega frásögn af upphafi og hátíðarhöldum á fánadaginn er að finna í bók Bjarka Bjarnasonar og Magnúsar Guðmundssonar, Mosfellsbær - saga byggðar í 1100 ár (2005) en hún hljóðar svo:
"Fánadagar
Íþróttanna ötult hjón,
iðjustörfum kafinn.
Sértu jafnan Sigurjón
sæmd og heillum vafinn.
Þegar Sigurjón Pétursson hóf störf að Álafossi tók hann strax að huga að uppbyggingu íþróttalífs á staðnum en hann var sjálfur mikill íþróttagarpur og meðal annars annálaður glímukappi. Árið 1921 gekkst hann fyrir svonefndu Álafosshlaupi í fyrsta skipti og gaf veglegan verðlaunabikar. Hlaupið hófst við Álafoss og endaði á Melavellinum þar sem Kristján X konungur Íslands og Danmerkur, afhenti verðlaunin ... .
Sigurjón taldi sund vera allra meina bót og efldi óspart sundkennslu og sundiðkun á Álafossi. Hann sá fljótt hvaða möguleikar leyndust í ylvolgri Varmánni ofan við stífluna hjá fossinum og lét útbúa þar búningsaðstöðu. Þessi sundskáli var vígður 12. júní 1927 og þann sama dag var keppt í Álafosshlaupinu, að þessu sinni hófst það í Reykjavík og endaði a Álafossi þar sem svonefndur fánadagur var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti.
Morgunblaðið greindi þannig frá þessum viðburði:
Á sunnudegi 12. júní 1927
sem er fánadagur, verður opnaður nýr sundskáli að Álafossi í Mosfellssveit. Við það tækifæri verða margar sundþrautir háðar. Um 20 bestu sundmenn Íslands hafa lofað aðstoð sinni, ... .
Þar verður sýnt Kafsund, björgun, skriðsund, lífgunartilraunir.
Knattleikur í vatni sýndur í fyrsta sinn á Íslandi. - Stúlkur sýna björgun og ýms sund.
Herra læknir Þórður Sveinsson talar, og fleiri ræðumenn verða.
Vígsluathöfnin hefst stundvíslega kl. 3 sd. - Herra kaupmaður Einar Pjetursson aðstoðar. - Þá hefst sundið, að því loknu ýmsir leikir og dans. - Ýmsar veitingar verða á staðnum, svo sem kaffi, mjólk, o.fl. súkkulaði, sítrón, skyr o.fl.
Tryggið ykkur sæti í bílunum í tíma. - Sjerstakur staður verður fyrir hesta, hjólhesta og bíla.- Aðgangur kostar kr. 1,00 fyrir fullorðna, fyrir börn kr. 0,50. - Merki verða seld á staðnum.
Hætt verður klukkan 10 síðdegis
Allir upp að Álafossi á sunnudaginn.
Nafn og dagsetning hátíðahaldanna voru ekki valin af tilviljun. Hinn 12. júní 1913 höfðu danskir varðskipsmenn afskipti af ungum Íslendingi, Einari Péturssyni, sem sigldi kappróðrarbáti um Reykjavíkurhöfn. Ástæðan var bláhvítur fáni sem prýddi skut bátsins en Íslendingar börðust þá fyrir því að fá eigin þjóðfána og hafði bláhvíti fáninn komið til álita sem slíkur. Varðskipsmenn litu fánasiglingu Einars alvarlegum augum, hún var ögrun við Dani og gerðu þeir fánann upptækan ... . Með fánadeginum á Álafossi vildi Sigurjón minnast fánatökunnar á Reykjavíkurhöfn.
Fánadagurinn á Álafossi var oftast haldinn kringum 12. júní og byggðist á fjölbreyttri dagskrá: ... .
Á fánadaginn kom múgur manns að Álafossi og skemmti sér lengi dags, ... .
Fánadagarnir á Álafossi voru einsdæmi á Íslandi á sínum tíma og minntu helst á þjóðhátíðarhöld sem fólk kynnist síðar þegar frelsisdraumar þjóðarinnar hafði ræst til fullnustu." (Bls. 304-307)
Þess má að lokum geta að Varmársamtökin o.fl. íbúar í Mosfellsbæ hafa mikinn hug á því að endurvekja þennan þjóðhátíðardag Álfyssinga og gaman væri að sem flestir legðu hönd á plóginn við að koma þessu skemmtilega verkefni á koppinn í framtíðinni.
Íbúar í Álafosskvos flögguðu í tilefni dagsins bláhvíta fánanum við hlið hins íslenska. Ætlar fólk að minnast dagsins og grilla í kvöld í góða veðrinu. Frjálsíþróttadeild UMFA hefur lengi haldið daginn hátíðlegan með svokölluðu Álafosshlaupi. Er hlaupið úr Álafosskvosinni kl. 19.00 og hefst skráning kl. 18.00 í Álafossbúðinni. Fyrir krakkana er 4 km ratleikur um næsta nágrenni en fullorðnir hlaupa 9 km.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2007 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 09:37
Manneskjan og maskínan
Eftir Bryndísi Schram
Erindi flutt á borgaraþingi íbúasamtaka á höfuðborgarsvæðinu 31. mars 2007
Hvaðan ætli hugmyndir mínar um manneskjulegt samfélag séu ættaðar? Ég er hvorki verkfræðingur né skipulagsarkitekt - og þakka stundum guði fyrir það! Ég nálgast því viðfangsefnið hvorki út frá bóklestri né fræðimennsku heldur út frá persónulegri reynslu. Ég er ekki í nokkrum vafa, að reynsla mín sem leiðsögumaður ferðamanna í sex sumur á Ítalíu og í öðrum löndum á menningarsvæði Miðjarðarhafsins, hafði mótandi áhrif á mínar hugmyndir um það, hvernig manneskjulegt borgarsamfélag ætti að vera. Eilíft flakk um meginland Evrópu frá Valencia til Varsjár og frá Rigu til Rómar hefur áreiðanlega skilið eftir sín áhrif.
Hvað er það sem gerir hið dæmigerða þorp gömlu Evrópu svona aðlaðandi? Aftur er ég ekki í vafa: Það er mannfélag með sögu og sál. Þorpið er til að þjóna mannlegum þörfum. Það er byggðarlag byggt fyrir fólk. Það er í mannlegum skala. Þess vegna fullnægir það fegurðarþránni og þóknast auganu. Það á sér djúpar sögulegar rætur. Hér hafa margar kynslóðir gengið um torg og stræti. Þess vegna tilheyra íbúarnir borginni sinni og hafa náð að skjóta þar djúpum rótum.
Einhvern veginn svona finnst mér, að borgin eigi að vera. Hún byggist út frá torginu. Torgið er þungamiðja mannlífsins. Allra leiðir liggja þangað. Þar er kirkjan og ráðhúsið tákn hins geistlega og hins veraldlega. Þar eru bakarinn, sútarinn og skóarinn. Og vertshúsin standa öllum opin. Þar er líka markaðurinn. Bændur í nærliggjandi héruðum koma þangað til að selja afurðir sínar. Og þá er nú heldur betur líf í tuskunum.
Gróskumikið mannlíf og litskrúðugt það er þetta sem gefur borginni aðdráttarafl. Iðandi mannlíf er sama sem lifandi borg.
En er þetta ekki bara útópía draumur frá liðinni tíð? Víst er eitthvað til í því. Þorpið gerði hvergi ráð fyrir bílnum í sínum microcosmos . Sums staðar er bílinn bannfærður; annars staðar hefur gömlu hesthúsunum verið breytt í bílskúra. En borgir vaxa og draga dám af breyttum tímum. Borgir þurfa að gera ráð fyrir vaxandi íbúafjölda, breyttum atvinnuháttum og nýrri samgöngutækni. Því aðeins að þeim takist að fullnægja nýjum þörfum íbúanna með því að taka í þjónustu sína nýja tækni, - án þess að tortíma sögu sinni og sál því aðeins að þetta takist, verður vefur mannlífsins heill og óskemmdur. Þetta er ögrun borgarskipulagsins.
Draumaborgin
Hvernig hefur þessum dæmigerðu evrópsku borgum, með hálfa til tvær milljónir íbúa tekist, að laga sig að breyttum tímum?
Það er fyrst og fremst spurning um, hvernig hin gamla og sögulega miðborg leysir samgönguþarfir ört vaxandi borgar. Ég bjó í þrjú ár í dæmigerðri borg af þessu tagi Helsinki, höfuðborg Finnlands. Hún er byggð á nesi, sem liggur út að finnska skerjagarðinum, sem er djásn borgarinnar. Helsinki á sér sögu og sál aftan úr rússneskri fortíð, með svolítlu sænsku ívafi. Þar búa um milljón manns á svæði, sem er talsvert minna um sig en höfuðborgarsvæðið okkar þarf fyrir sín 150 þúsund.
Hver er höfuðkostur Helsinkiborgar? Einhverjar bestu almannasamgöngur í Evrópu. Samgöngukerfið er æðakerfi borgarinnar. Ef það stíflast, fær borgin kransæðastíflu. Helsinki hefur þrefalt kerfi almanna- samgangna: Járnbrautalestir, sporvagna og strætó. Kjarni málsins er þessi: Þú kemst allra þinna ferða um þessa höfuðborg, örugglega og á skömmum tíma, án þess að þurfa einkabíl. Borgin virkar snurðulaust. Það er ekkert umferðaröngþveiti, engin kransæðastífla. Helsinki hefur varðveitt í sér þorpið. Markaðurinn miðborgin iðar af lífi.
Hvað þýðir þetta fyrir mannlífið?
Það þýðir til dæmis, að fólk með ólíkan lífsstíl getur notið kosta borgarlífsins, þótt það geri ólíkar kröfur til tilverunnar. Þú getur verið fátækur og hamingjusamur stúdent, sem átt engan bíl, en samt komist leiðar þinnar. Þú getur verið einstæð móðir í leiguhúsnæði, sem átt ekki bíl, en getur samt fyrirhafnarlítið notið þeirrar þjónustu, sem borgin býður þér og börnum þínum. Þú ert ekki dæmd til að reisa þér fjárhagslegan hurðarás um öxl með því að kaupa þér íbúð í úthverfi og bíl upp í skuld til þess að geta komist leiðar þinnar til vinnu, með börnin í skóla og s.frv. Þetta skiptir meira máli en margur heldur: Borgin á að bjóða fólki val um lífsstíl, og hún á að gera öllum, ríkum og fátækum, ungum og öldnum, jafnt undir höfði. Skapa þeim jöfn tækifæri til að njóta lífsins. Og borgin á ekki að dæma fólk í skuldafangelsi né heldur að steypa alla í sama mótið. Það er hluti af hinu eiginlega íbúalýðræði.
Höfuðborg Íslands: amerísk bílaborg
Hvernig kemur höfuðborg Íslands út í þessum samanburði?
Ég þykist vita, að það geti þótt viðkvæmt mál að svara þeirri spurningu hreinskilnislega, þótt sjón sé sögu ríkari. Um eitt getum við þó alla vega verið sammála. Sjálft borgarstæðið er frá náttúrunnar hendi undurfagurt með einstaka fjallasýn. Og við skulum játa, að við getum ekki gert ótakmarkaðar kröfur. Ég veit, að við vorum í sjö aldir ein fátækasta þjóð Evrópu og kannski heimsins. Ég veit, að það er varla nokkurt mannvirki uppistandandi til marks um mannabyggð í þessu landi fyrstu tíu aldirnar.
Ég veit, að íhaldssamt landeigendasamfélag og vistarband eins konar þrælahald fátæks fólks - útilokaði þéttbýlismyndun allt fram á seinustu öld. Saga Íslands er því varðveitt annars staðar en í borgarskipulagi og byggingarlist. En samt. Einmitt vegna þess, að við vorum ekki bundin af fortíðinni, fengum við óvenjulegt tækifæri til að skapa nýja höfuðborg.
Við hefðum getað forðast mistök annarra og lagt metnað okkar í að taka mið af stórbrotinni náttúru umhverfisins. Því verður ekki neitað, að við fengum óviðjafnanlegt tækifæri upp í hendurnar. Svo getur hver og einn svarað því fyrir sig, hvernig til hefur tekist. Burtséð frá kröfum fagurfræðinnar og söknuði eftir sögulegum verðmætum, blasir það við öllum, að það er hlaupinn ofvöxtur í borgarlíkamann.
Höfuðborgarsvæðið hefur þanist út eins og með ósjálfráðum hætti upp um holt og hæðir og út um allar þorpagrundir. Öll er þessi ofvirkni drifin áfram af hinu vegsamaða gróðasjónarmiði fjárfesta og verktaka. Og dregur dám af því. Ég læt hverjum og einum ykkar eftir, hvaða kröfur þið gerið um fagurfræðina það sem gleður augað; en leyfist okkur ekki alla vega að gera þá kröfu, að verkfræðin lúti lögmálum rökhugsunar? Sá bútasaumur verktökunnar, sem við okkur blasir, bendir ekki til þess, að svo sé. Malbikunarslysið í Vatnsmýrinni, sem leysir engan umferðarvanda, en gefur hjarta höfuðborgarinnar svip af fóðurflutningaþorpi á sléttum Ameríku, er átakanalegt dæmi um þetta.
Við erum að tala um samfélag 150 þúsund sálna með yfrið nóg landrými allt um kring. Samt er svo komið, að miðjan heldur ekki, sagan er komin á safn, og úthverfin minna einna helst á flóttamannabúðir. Þetta ástand bitnar með sívaxandi þunga á íbúunum. Reykjavík er því miður orðin að amerískri bílaborg. Einkabílinn hefur tekið völdin af mannfólkinu, og borgin stjórnast meir af þörfum hans en þeirra. Við ökum um á sífellt fleiri og stærri og eyðslusamari ökutækjum, en sitjum æ lengur föst í umferðarhnútum og eyðum æ meiri tíma á leið til og frá vinnu í loftmengun og svifryksskýi, sem minnir á margmilljóna- borgir með brostið gatnakerfi. Maskínan hefur tekið völdin af manneskjunni. Við hljótum að spyrja okkur sjálf í forundran: Hvernig gat okkur mistekist svo hrapalega?
Verktakaráðríki gegn íbúalýðræði
Þótt Mosfellsbær teljist vera sjálfstætt sveitarfélag, er það í reynd eins og hvert annað úthverfi á höfuðborgarsvæðinu. Flestir sækja vinnu, og reyndar þjónustu út fyrir sveitarfélagið. Vanræksla á almannasamgöngum þýðir, að flestar fjölskyldur þurfa að reiða sig á tvo eða jafnvel þrjá bíla til að komast leiðar sinnar. Þessar aðstæður bjóða upp á amerískan úthverfislífsstíl: Félagslega einangrun, orkusólund, og þann konformisma, sem steypir alla í sama mótið. Þjóðvegurinn klýfur sveitarfélagið í tvennt. Þeir sem staldra við, geta gleypt í sig skyndibitann og fyllt á tankinn í miðbæ Mosfellinga, áður en þeir bruna burt.
Samt eru dalirnir báðir, Mosfells- og Reykjadalur, náttúrudjásn, og árnar sem um þá renna, hreinar perlur. Og í Reykjadalnum leynist lítið þorp, sem er með bæði sögu og sál. Þetta er Álafosskvosin, sem hýsir óviðjafnanlegar minjar um iðnsögu þjóðarinnar. Þarna stóð vagga ullariðnaðarins, þar sem afl Varmár var nýtt til að leysa handaflið af hólmi. Þarna er að finna hið eiginlega hjarta samfélagsins, sem geymir sögu þess. Varmá er á náttúruminjaskrá, og það er þetta samspil náttúru- og mannvistarminja, sem gefa staðnum sérstakt gildi. Um skeið stefndi í, að staðurinn yrði niðurníðslunni að bráð. En hann hefur gengið í endurnýjun lífdaganna. Hann hefur ómótstæðilegt aðdráttarafl. Hann býður upp á sérstaka atvinnustarfsemi og umhverfi, sem laðar að gesti og gangandi, ekki síst erlenda ferðamenn.
Þetta er eitt af því fáa, sem Mosfellsbær hefur af að státa, og ætti að hlúa að og lyfta upp. En það er nú öðru nær.
Átökin, sem hafa staðið á milli bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ annars vegar og íbúa Kvosarinnar og félaga í Varmársamtökunum hins vegar, hafa að undanförnu vakið athygli alþjóðar. Um hvað snýst þetta? Það er gamla sagan: Fjárfestar og verktakar, sem keypt hafa land Helgafells, vilja reisa með hraði nýtt hverfi með þúsund íbúðum. Þetta nýja hverfi, með áætlaðri umferð upp á tíu þúsund bíla á dag, þarf að komast í vegasamband við þjóðveginn. Tillögur bæjarstjórnar um tengibrautarmannvirki með hljóðmúr gengur svo nærri hverfisvernduðum bökkum Varmár og íbúum Kvosarinnar og atvinnustarfsemi þeirra, að það er með öllu óviðunandi.
Tilraunir Varmársamtakanna til að koma vitinu fyrir bæjarstjórnarmeirihlutann og til að fá hann til að fara að lögum og reglum um umhverfismat og til að virða grundvallarsjónarmið um íbúalýðræði, hafa því miður ekki borið árangur til þessa. Við höfum náð árangri með því að leita ásjár lögfræðings. Öll eftirgjöf hefur verið þvinguð fram. Bæjarstjórnarmeirihlutinn lætur alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta; hann tekur ekki tillit til rökstuddra breytingartillagna; og hann fer ekki að reglum um kynningu framkvæmda og samráð við íbúa.
Samtökin hafa neyðst til að kæra bæjaryfirvöld til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og til Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra.
Í upphafi veifaði bæjarstjórinn ráðherrabréfi með úrskurði um, að tengivegsmannvirkið, eða sá hluti þess, sem hafði verið hannaður, þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Með atbeina nýrra laga með uppruna í EES-samningnum hefur sá áfangasigur unnist, að framkvæmdir hafa verið stöðvaðar, og að umhverfismat verður að fara fram.
Í öllum þessum málarekstri hefur verið sýnt fram á, að bæjaryfirvöld hafa í reynd hunsað allar samskiptareglur við íbúa- og almannasamtök og farið rangt með staðreyndir í yfirlýsingum sínum og fréttatilkynningum.
Að hafa eftirlit með sjálfum sér
Þessi málarekstur hefur líka leitt í ljós brotalamir og veilur í löggjöf og stjórnsýslu um náttúruvernd. Svo á að heita, að skylt sé að leita umsagnar Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda, sem hætta er talin á, að geti spillt svæðum á náttúruminjaskrá. Mat á því, hvort náttúruminjum sé stefnt í hættu vegna framkvæmda, kallar á atbeina sérfræðinga, sem starfi sjálfstætt og á faglegum forsendum. En lögum samkvæmt er hið faglega mat einungis ráðgefandi. Það er ekki bindandi. Það er sveitarfélagið sjálft, sem oftast er framkvæmdaaðilinn, eða sá aðili, sem telur sig hafa hagsmuna að gæta af framkvæmdunum, sem hefur seinasta orðið. Sveitarfélagið telur sig ráða því, hvort og þá í hvaða mæli, framkvæmdaaðilanum þóknast að taka tillit til umsagnaraðila.
Margir eru á móti þessari túlkun laganna, m.a. sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun. Ríkjandi túlkun er í vafa. Endanleg niðurstaða bíður dómsúrskurðar. Eftir stendur, að ríkjandi lagatúlkun býður heim réttaróvissu og jafnvel rangtúlkun á upphaflegum markmiðum löggjafarinnar.
Í fyrsta lagi er boðið upp á augljósan hagsmunaárekstur. Sá sem hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta er orðinn dómari í sjálfs sín sök. Og sveitarfélagið er um leið orðið eftirlitsaðili með sjálfu sér.
Þetta þýðir líka, að óbreyttu, að gildandi löggjöf um náttúruvernd er í reynd óvirk, þegar á reynir. Í skjóli þessarar augljósu brotalamar í löggjöfinni geta aðgangsharðir fjárfestar, verktakar eða aðrir framkvæmdaaðilar, sem og sveitarfélög, sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, farið sínu fram í trássi við vilja íbúa og almannahagsmuna. Meðan þetta viðgengst, er tómt mál að tala um íbúalýðræði. Það er þá bara orðin tóm, þegar á reynir. Endurskoðun gildandi laga um náttúruvernd er því brýnt verkefni fyrir nýkjörið alþingi.
Höfundur er fyrrverandi formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 18:29
Til hvers að eyða fé og fyrirhöfn bæjarbúa í umhverfismat?
Mikil umhverfisspjöll hafa undanfarnar vikur verið framin á bökkum Varmár í Mosfellsbæ. Í síðustu viku var auglýst til kynningar ný umhverfisskýrsla sem unnin var af ráðgjafarfyrirtæki á vegum bæjaryfirvalda og var íbúum gefinn kostur á að gera athugasemdir við matið til 12. júlí. Í ljósi þess að slíkar athugasemdir er eini möguleiki almennings til að hafa áhrif á gerð skipulagsáætlana eru framkvæmdirnar sem nú standa yfir í meira lagi ámælisverðar. Því hvaða tilgangi þjóna athugasemdir almennings að loknum framkvæmdum? Svarið er einfalt: Alls engum!
Í ofanálag er verið að framkvæma inn á hverfisverndarsvæði við Varmá sem er á náttúruminjaskrá og eru framkvæmdirnar unnar án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis. Aðfarirnar eru slíkar að svo virðist sem enginn skilningur á mikilvægi umhverfisverndar í okkar fallega bæjarfélagi sé fyrir hendi.
Svo mikið er víst að athugasemdir almennings hafa engin áhrif á áætlanagerð að loknum framkvæmdum. Þær standa nú yfir og því ljóst að aðkoma íbúa mun engu máli skipta. Spurningin er því þessi: Til hvers að eyða dýrmætu fé skattborgaranna í einskisvert umhverfismat? Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ skulda íbúum skýringu. Eða búum við kannski bara í VILLTA VESTRINU?
SP
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.6.2007 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 10:48
1. deiliskipulag Helgafellsbrautar lakasti kosturinn
Áður samþykkt deiliskipulag Helgafellsbrautar hefur skaðlegustu áhrifin á umhverfi og ásýnd Álafosskvosar ef marka má niðurstöðu umhverfisskýrslu sem Mosfellsbær lét vinna að undirlagi Skipulagsstofnunar. Kemur þetta mat heim og saman við fyrri ábendingar Varmársamtakanna sem kærðu skipulagsyfirvöld til umhverfisráðherra sl. sumar vegna ófullnægjandi upplýsinga um umhverfisáhrif skipulagsins. Ein aðaluppistaðan í skýrslunni er m.a. að gerður er samanburður á 5 mismunandi valkostum og vekur athygli að í honum er aðeins höfð hliðsjón að einni tillögu Varmársamtakanna. Var það gert án samráðs við okkur sem er mjög bagalegt þar sem skýrsluhöfundar byggja umfjöllunina að hluta til á röngum forsendum sem hefur neikvæð áhrif á mat þeirra á tillögunni. Má þar sérstaklega nefna vegtengingu yfir Álanes austan Álafosskvosar. Skýrsluhöfundar gefa sér þá forsendu að þessi þverun Varmár sé að tillögu Varmársamtakanna. Staðreynd málsins er hins vegar sú að vegurinn er á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og er einnig gert ráð fyrir honum í tillögu að deiliskipulagi Helgafellslands, 3. áfanga.
Það vill svo til að fyrr í vetur hafnaði bærinn þeirri ósk Varmársamtakanna að taka þverunina út af skipulagi en í svari Mosfellsbæjar segir m.a. að þótt gert sé ráð fyrir vegtengingu í aðalskipulagi telji nefndin óvarlegt á þessu stigi að falla frá gerð þessarar safngötu, ... ." Sbr. 196. fund skipulags- og byggingarnefndar.
Í ljósi þess að þverunin við Álanes er á skipulagi vekur furðu að vegurinn er hvergi sýnilegur á uppdráttum af helstu tillögum Mosfellsbæjar sem nefnast í skýrslunni kostur 1 og 2. Hefur þverunin því ekki neikvæð áhrif á mat þessara kosta. Ber þessi undansláttur ekki beinlínis vott um góð vinnubrögð.
Látið er að því liggja í skýrslunni að kostur 2 hafi hvað minnst umhverfisáhrif. Aftur vekja vinnubrögðin furðu þar sem engir útreikningar hafa farið fram á loftmengun og hljóðvist og hljóðvarnir ekki verið hannaðar. Nýting svæðisins í nútíð og framtíð er fyrst og fremst háð ásýnd Kvosarinnar og þeim staðaranda sem þar ríkir. Viðvarandi umferðarhávaði, fyrirferðarmiklar hljóðvarnir og önnur umhverfisspjöll munu án efa hafa afar neikvæð áhrif á framtíðarþróun svæðisins. Í samanburðinum horfa skýrsluhöfundar algjörlega fram hjá þessum skaðlega þætti sem einnig kemur fram í því að þeir telja þá staðreynd að núþegar liggur vegur frá Álafossi að Vesturlandsvegi réttlæta lagningu Helgafellsbrautar um Kvosina - burtséð frá því að við bætist hávaði og mengun frá 10 000 bíla umferðargötu! Eins er mati á áhrifum vegagerðar við Vesturlandsveg á framtíðarskipulag miðbæjarins sleppt en allar tillögur Varmársamtakanna hafa þann jákvæða kost að bílaumferðinni er ekki beint að skólasvæðinu og þaðan inn í miðbæ Mosfellsbæjar. Fleira er í þessum dúr og því ljóst að bæjarbúar ættu að nýta sinn lýðræðislega rétt til að gera athugasemdir við skýrsluna.
Varmársamtökin hafa undanfarið ár lagt fram ýmsar tillögur að vegtengingu Helgafellsbrautar við Vesturlandsveg sem sjá má hér neðar á blogginu. Myndin hér að ofan var kynnt á íbúaþingi samtakanna í apríl sl. sem tillaga 2. Skv. henni er gert ráð fyrir tengibrautinni í útjaðri byggðar í Ásahverfi. Vegtenging Álafossvegar við Vesturlandsveg er óbreytt en skv. samgönguáætlun Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að í framtíðinni fari umferð undir brú á Vesturlandsvegi upp í miðbæ Mosfellsbæjar. Skv. tillögunni er Brekkuland lokað fyrir umferð úr Helgafellshverfi.
Umferðarhópur Varmársamtakanna
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 10:27
Tillögur VS að legu Helgafellsbrautar
Tillaga að Helgafellsbraut 1: tengibraut í útjaðri byggðar
a. Helgafellsbraut sameinast að hluta til tengibraut sem áætluð er á skipulagi að Þingvallaafleggjara undir hlíðum Helgafells. Leiðin liggur um hringtorg niður að Vesturlandsvegi í útjaðri núverandi byggðar.
b. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir þverun Varmár við Álanes ofan Álafosskvosar fyrir neðan Helgafellshverfi og er sú tenging sett inn á myndina lesendum til glöggvunar.
c. Gert er ráð fyrir aðkomu að Álafosskvos um ofangreinda tengibraut og niður Brekkuland. Einnig um veginn austan megin Kvosarinnar sem liggur meðfram iðnaðarsvæði. Gert er ráð fyrir lítilli brú á Vesturlandsvegi og rofnar því bein tenging Álafosskvosar við þjóðveginn. Stórt útivistarsvæði myndast við Varmá beggja vegna Vesturlandsvegar sem gerir umferð fótgangandi vegfarenda, barna á hjólum og hestamanna afar þægilega. Svæðið myndar eina heild og dregur úr áhrifum þess að þjóðvegurinn hlutar bæjarfélagið í tvennt.
Þessi hugmynd hefur eins og allar tillögur Varmársamtakanna þann jákvæða kost að hafa ekki áhrif á miðbæjarskipulag í Mosfellsbæ.
Tillaga að Helgafellsbraut 2: tengibraut í útjaðri byggðar
Þessi tillaga er svipuð þeirri fyrri að öðru leyti en því að hringtorg verður áfram við Vesturlandsveg til að þjóna umferð til og frá Álafosskvos og Landahverfi. Brekkuland verður lokað umferð úr Helgafellshverfi eins og áætlun er uppi um nú.
Vegagerðin áætlar að eyða öllum hringtorgum á þjóðvegi 1 innan nokkurra ára og gera veginn að fjögurra akreina braut. Byggja á brú í 6 m hæð yfir Varmá á Vesturlandsvegi við Brúarland. Mögulega væri hægt að gera aukaakrein inn í Álafoss ef brúin yrði lægri.
Tillaga að Helgafellsbraut 3: tengibraut um stokk undir Ásland
Helgafellsbraut verði sett í stokk undir Ásland og til að minnka umfang mannvirkisins yrði stokkurinn aðeins látinn anna umferð í og úr austurátt, þ.e. til og frá Reykjavík. Öll umferð í vesturátt færi um fyrirhugaða Þingvallabraut ofan Helgafellsbyggðar. Stokkurinn færi undir Vesturlandsveg og yrði 180 m langur. Þessi hugmynd hefur eins og allar tillögur Varmársamtakanna þann stóra kost að hafa ekki áhrif á miðbæjarskipulag í Mosfellsbæ.
Tillaga Mosfellsbæjar: tengibraut um Álafosskvos
Verði tengibrautin lögð um Álafosskvos verður annað hvort að byggja fyrirferðarmikil mislæg gatnamót á Vesturlandsvegi við Brúarland eða beina umferð úr Helgafellslandi inn í miðbæinn að hringtorgi við Kjarna og meðfram aðal íþrótta- og skólasvæði Mosfellsbæjar. Rífa verður Brúarland að sögn Vegagerðarinnar. Áætlað er að reisa brú í 6 m hæð yfir Varmá og lokast við það tengingin inn í Álafosskvos. Græn tenging milli útivistarsvæða austan og vestan þjóðvegar rofnar með öllu.
Eins og sjá má á þessari úttekt er úr vöndu að ráða í tengslum við fyrirkomulag umferðar úr Helgafellslandi. Það er skoðun Varmársamtakanna að færa sérfræðinga þurfi til að ráða úr þessum vanda. Skoðið þessa kosti vandlega og segið ykkar skoðun. Betri úrlausnir vel þegnar.
Framtíðarsýn í vegamálum:
Varmársamtökin hafa gagnrýnt bæjaryfirvöld fyrir að taka ekki mið af framtíðarsýn í samgöngumálum við hönnun tengibrautar um Álafosskvos.
Þegar litið er á framtíðarspár Vegagerðarinnar um umferðarþunga á Vesturlandsvegi kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Til dæmis að gróflega áætlað munu allt að 50 þús bílar fara um Mosfellsbæ á sólarhring þegar Álanes (18-20 þús íbúar) og Leirvogstunguland verða fullbyggð.
Gangi þetta eftir mun þróunin eflaust verða sú að Vesturlandsvegur fer í stokk um Mosfellsbæ. Umferð innanbæjar þarf því ekki lengur að fara um þjóðveginn og bærinn getur þróast með eðlilegum hætti. Fari Vesturlandsvegur í stokk hefur það gríðarleg áhrif á umferðarmannvirki í bænum. Ættu ekki skipulagsáætlanir að taka mið af því að þetta sé framtíðin? Þarf ekki einfaldlega að ganga út frá þessu í upphafi til að ekki þurfi að leggja út í óheyrilegan kostnað við leiðréttingar á vegakerfinu innan 20 ára?
Viðauki:
Sundabraut mun draga úr umferð í gegnum Mosfellsbæ en þó ekki eins mikið og margur ímyndar sér því öll umferð úr Árbæ, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarfellslandi, frá Suðurlandi o.s.frv. mun áfram fara í gegnum Mosfellsbæ.
Tvær efstu myndirnar vann Sigurður Valur Sigurðsson, myndskreytir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni