Álafosskvos undir skipulagshnífinn

Ofan ÁlafossFrestur til að koma á framfæri athugasemdum við tillögu að deiliskipulagi Álafosskvosar rann út í síðustu viku. Núgildandi skipulag sem er frá árinu 1997 lýsir metnaði og umhyggju fyrir sögu og náttúru Álafosskvosar. Það sama verður ekki sagt um endurskoðaða greinargerð því í henni er búið að fella út kafla um skipulagsforsendur og verndun svæðisins. Í athugasemdum sem Varmársamtökin sendu Mosfellsbæ segir m.a.: "Í greinargerð með núgildandi deiliskipulagi frá 1997 er sögulegt yfirlit (1.1) þar sem sagt er frá einstöku byggingum í gamla ullarverksmiðjuhverfinu við Álafoss og tiltekið að ‘Álafosskvos marki merkileg spor í iðnsögu Íslands og sögu Mosfellsbæjar’. Legu svæðisins og náttúrufari (1.2) er einnig lýst og bent á þá einstöku möguleika sem svæðið hefur upp á að bjóða ‘til útivistar og annarrar starfsemi’. Í skipulagsforsendum er náttúruminja- og útivistargildi Varmár tíundað og ítrekuð sú stefna Mosfellsbæjar að fossinn Álafoss verði friðlýstur.


Ennfremur er með vísan í staðfest aðalskipulag (1.4) sagt frá því að skipulagið geri ráð fyrir „smáiðnaðar- og listamiðstöð við Álafossveg til frambúðar“. Í nýrri tillögu er þessari forsendu haldið inni en lýsingu á náttúrufari og umfjöllun um gamla ullarverksmiðjuhverfið að mestu sleppt. Að okkar mati hlýtur iðnsögulegt vægi gömlu ullarverksmiðjunnar þó að vera afar mikilvæg skipulagsforsenda fyrir eftirlitsstofnanir og þá sem vinna að breytingum á skipulagi Álafosskvosar í nútíð og framtíð. Varmársamtökin leggja því til að ofangreindar skipulagsforsendur skipi verðugan sess í endurskoðaðri greinargerð.


2. Í skipulagsforsendum og markmiðum deiliskipulags er fjallað sérstaklega um verndun gamla verksmiðjuþorpsins, lífríki og náttúruminjagildi Varmár, trjágróður, friðlýsingu Álafoss o.fl. Mikill missir er af kaflanum um verndun Álafosskvosar í nýrri greinargerð og einnig því markmiði ‘að leggja nægjanlegt svæði undir almennt útivistarsvæði í kringum kvosina þannig að að henni verði ekki þrengt með framkvæmdum og yfirbragð umhverfisins haldist’. Varmársamtökin telja miður að útivistargildi Álafosskvosar sé að engu haft í nýrri greinargerð en gamla verksmiðjuþorpið er órjúfanlegur hluti af vinsælu útivistarsvæði sem teygir sig frá Reykjafelli niður með árbökkunum að ósum Varmár. Varmársamtökin leggja  til að þessu mikilvæga hlutverki svæðisins verði gerð viðunandi skil í endurskoðaðri greinargerð með skipulaginu. ... ."

Í viðhengi hér að neðan má sjá skjalið í heild.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kirkjumenningarhús í Mosfellsbæ?

Mosfellsbær hefur nú hrint af stað hugmyndasamkeppni um byggingu kirkju og menningarhúss í Mosfellsbæ og var hugmyndin rædd á fundi um miðbæjarskipulag bæjarins þann 11. febrúar síðastliðinn.
Svo virðist sem sú hugmynd að byggja saman kirkju, safnaðarheimili og menningarhús sé til komin til að mæta þörfum kirkjunnar, enda sniðin að þörfum hennar bæði hvað varðar fjárhag og starfsemi. Eins og fram kom í máli formanns sóknarnefndar á fundinum skortir kirkjuna fé til að standa undir rekstri safnaðarheimilis óstudd.
Kirkjurnar tvær í Mosfellsbæ eru litlar og rúma ekki stærri athafnir, því er eðlilegt að kirkjan vilji stækka við sig og sannarlega er vilji til þess á meðal bæjarbúa. En það er hins vegar ekki víst að besta lausnin sé að steypa þeim framkvæmdum saman við byggingu menningarhúss.
Miðbær2Á fyrrgreindum fundi kom einnig í ljós að kirkjan setur mjög mikla fyrirvara við því hvaða starfsemi hún vill sjá í menningarhúsinu. Það kom fram í svari séra Ragnheiðar Jónsdóttur, sóknarprests, að kirkjan gæti ekki unað því að önnur trúfélög fengu t.d. aðstöðu í byggingunni. Þá er ljóst að að ýmsir listviðburðir t.d. hávær rokktónlist er kirkjunni ekki þóknanleg og því þarf líka að gera ráðstafanir til að hýsa slíka viðburði annarsstaðar. Því þarf að leggja út í aukakostnað með lagfæringum á Hlégarði undir þá starfsemi sem ekki kemst í gegnum nálarauga kirkjunnar.
Það er ljóst að það er menningarstarfi ekki til framdráttar að búa við þær takmarkanir sem fylgja of nánu sambandi við kirkju- og stjórnmálavald. Má í því sambandi minnast þeirrar meðferðar sem sveitarskáldið Halldór Laxness fékk hjá Jónasi frá Hriflu þegar hann var settur í annan flokk rithöfunda. Halldór stofnaði þá sjóð „til styrktar andlegu frelsi rithöfunda“. Framsæknir listmálarar voru einnig settir út af sakramentinu hjá Jónasi sem taldi sig þess umkominn að vega og meta hvaða list væri lýðnum þóknanleg. Hugmyndir um að lista- og menningarstarf eigi að vera háð slíkri ritskoðun eru löngu úreltar og humyndir um að slík starfsemi sé metin af fagmennsku á opinberum vettvangi, án afskipta kirkju eða stjórnmálamanna, hafa tekið við.
Eftir skoðun á málinu virðist sem hér eigi að fara fram nauðungarhjónaband. Þeir aðilar sem á að pússa saman standa mjög misvel að vígi og hafa ólíkar þarfir. Annar, kirkjan, er íhaldsamur og valdamikill aðili sem hefur vel skilgreindar þarfir og öfluga málsvara. Hinn, menningin, er frjálslynd, djörf og ögrandi. Hún virðist ekki eiga sér málsvara í þessu máli og augljóst að hennar þarfir hafa ekki verið skilgreindar á við makann.
Þetta samband verður stormasamt frá upphafi þar sem aðilar þess eiga fátt sameiginlegt og langt er frá að jafnræði ríki í hjúskapnum. Kirkjan fer inn í sambandið af því að hún þarf á heimanmundinum að halda en menningin af því að hún hefur ekki málsvara til að forða sér frá þessu ólánsbandi.
Ef Mosfellingar vilja greiða fyrir safnaðarheimili með menningarívafi af skattpeningum sínum þurfa þeir allavega að hafa völina. Það þarf að kynna málið fyrir bæjarbúum á réttum forsendum og helst að bjóða upp á tvær til þrjár skipulagstillögur til að velja úr.
Að öðrum kosti verður húsið eingöngu kirkjumenningarhús.

Kristín Pálsdóttir,
íbúi í Mosfellsbæ

Um miðbæjarskipulag á vef Mosfellsbæjar:

http://www.mos.is/default.asp?sid_id=43447&tre_rod=006|002|&tId=1


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á strandstað í Mosfellsbæ

Eitt dagblaðanna birti á dögunum áhugaverða grein eftir Ara Skúlason hagfræðing hjá Landsbankanum. Í greininni kvartar Ari yfir því að á undanförnum árum hafi ekki verið hægt að treysta opinberum gögnum um byggingarstarfsemi. Skort hafi á samstarf milli sveitarfélaga og áætlanir þeirra um framboð á lóðum og framkvæmdir verið óljósar. Í þeim tilgangi að varpa ljósi á stöðu mála hafi bankinn því staðið fyrir eigin greiningum á ástandinu.

Nú eftir efnahagshrunið er komið fram að óráðsían í byggingariðnaði átti sér lítil takmörk. Samkvæmt nýjum upplýsingum Landsbankans slær óraunsæið þó öll met í Mosfellsbæ en þar voru íbúðir í byggingu og tilbúnar lóðir hvorki meira né minna en 37,9% af fjölda íbúða í öllu sveitarfélaginu. Til samanburðar má geta þess að hlutfallið var 10,4% í Kópavogi og 18,7% í Garðabæ sem þó kemst næst Mosfellsbæ.

Hvernig má þetta vera?

Samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1998-2024 er gert ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 2814 í nýjum hverfum í Mosfellsbæ á þessu 26 ára tímabili. Sé tímabilið hins vegar stytt um 12 ár er búist við að íbúðum fjölgi um 1196 til 2012.

Nokkur hverfi eru nú í byggingu í Mosfellsbæ en það eru Krikahverfi, Helgafellshverfi, Leirvogstunga, Hulduhólar og miðbær Mosfellsbæjar. Á byggingarsvæðum í Leirvogstungu og Helgafellslandi einum sér er skv. skipulagsáætlunum gert ráð fyrir um 1600 nýjum íbúðum, þ.e. mun fleiri íbúðum en ofangreindar áætlanir fyrir sveitarfélagið í heild gera ráð fyrir til ársins 2012.

Auðvitað geta áætlanir breyst en engu að síður blasir við að sú uppbygging sem fór af stað í Mosfellsbæ var með öllu óraunhæf. Skipulagsáætlanir byggðu ekki á raunhæfu mati á þörf, heldur óskhyggju sem fyrst og fremst virðist eiga rætur að rekja til þrýstings frá lóðahöfum og verktökum - enda var bærinn í raun búinn að framselja þeim skipulagsvaldið. Það sem eftir stendur eru yfirgefin og hálfköruð byggingarsvæði sem eru talandi dæmi um þá óráðsíu sem leiddi til þess að þjóðarskútan sigldi í strand í október 2008.

Hér á bæ hæla menn sér af því að hafa gert samninga við einkaaðila um “uppbygginguna” sem leiði til þess að kostnaður falli ekki á sveitarfélagið. En hver borgar þá brúsann nú þegar allt er hrunið? Það fyrsta sem kemur í hugann eru þjónustufyrirtæki í eigu ríkis- og sveitarfélaga, s.s. hita- og rafmagnsveitur og svo auðvitað bankarnir sem sitja uppi með gjaldþrota fyrirtæki og fjölskyldur sem keypt hafa hér hús og lóðir. Ergo, skuldir sem stofnað var til í tengslum við framkvæmdir í  Mosfellsbæ falla á þjóðina. En leysir það sveitarfélagið undan allri ábyrgð?

Félagar í Varmársamtökunum hafa um tveggja og hálfs árs skeið reynt að spyrna við fæti til að forða sögulegum byggðakjörnum og útivistarperlum í Mosfellsbæ undan skefjalausum gröfukjöftum. Í dag situr bæjarfélagið uppi með sviðna jörð og byggingar sem draugar fortíðar hýsa.

Sveitungum mínum er ekki öðruvísi farið en öðrum Íslendingum. Þeir spyrja á strandstað í Mosfellsbæ hvernig þetta gat gerst og hvort enginn ætli hér að axla ábyrgð. Verkstjórar þessa ráðabruggs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Haraldur Sverrisson, skulda bæjarbúum skýringar. Okkur nægja ekki þau rök að Lehman Brothers hafi farið á hausinn. Við viljum vita hvernig þessar áætlanir urðu til og hvernig samskiptum stjórnarherra í Mosfellsbæ við athafnamennina var yfirleitt háttað.

Nýja Ísland hefur sagt ólýðræðislegum stjórnarháttum stríð á hendur. Lausnarorðið er þátttaka almennings í ákvarðanatöku og krafa um gegnsæi. Líka í Mosfellsbæ.

P.s.

Sjá einnig sjónvarpsviðtal: http://www.inntv.is/Horfaáþætti/Kolfinna/Kolfinna17022009/tabid/726/Default.aspx


Sigrún Pálsdóttir


Björninn unninn í umhverfismálum

Mikill áfangi náðist í umhverfismálum á Íslandi á dögunum þegar ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ákvað að fullgilda Árósasamninginn en með innleiðingu hans fá m.a. umhverfisverndarsamtök skýlaust umboð til að hafa áhrif á ákvarðanir...

Ég á ammæli - ég ræð! - segir forsetinn

“Lýðræði bæjarbúa felst fyrst og fremst í því að kjósa bæjarfulltrúa til að taka [...] ákvarðanir”, - segir á Moggabloggi forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í gær. Tilgangur skrifanna er sem endranær að gera lítið úr áhuga félaga í...

Kynning á miðbæjarskipulagi í Mosfellsbæ kl. 5 í dag

Varmársamtökin minna á fund um deiliskipulag miðbæjar Mosfellsbæjar eftir vinnu kl. 17 í dag miðvikudaginn 11. febrúar í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna. Bæjarstjóri setur fundinn og lýsir aðdraganda tillögunnar og útskýrir arkitekt miðbæjarskipulagsins...

Úrskurðarnefnd knýr Mosfellsbæ svara vegna kæru

Mosfellsbær viðurkennir í bréfi til Varmársamtakanna að hafa gefið leyfi fyrir framkvæmdum á hverfisverndarsvæði við bakka Varmár og Skammadalslækjar án samráðs við fagnefnd sveitarfélagsins í umhverfismálum. Ennfremur er ljóst að Mosfellsbær leitaði...

Búsáhaldabylting í Mosfellsbæ?

Í dag birtist frétt um að Mosfellsbær ætli í samstarfi við Arkitektafélag Íslands að stofna til samkeppni um hönnun kirkju og menningarhúss í miðbænum. Arkitektarnir eru ekki af verri endanum og allt gott um þá að segja. Vandinn er hins vegar sá að verið...

Í trássi við skipulag

Hvernig er hægt að efna til samkeppni um skipulag sem ekki hefur farið í gegnum lögbundið skipulagsferli? Gerir Arkitektafélag Íslands ekki þá kröfu til sveitarfélaga að hönnunartillögur standist aðal- og deiliskipulag? Hvernig væri að Mosfellbær breytti...

Kynningarfundur um Álafosskvos

Mosfellsbær ætlar að halda fund um breytt deiliskipulag Álafosskvosar með íbúum og fasteignaeigendum nk. þriðjudag, kl. 16.30. Endurskoðun á skipulaginu hefur staðið yfir í nokkur ár. Ljóst var í upphafi uppbyggingar í Helgafellslandi að lagning...

Helgafellsvegur lagður að nýju

Verktakar á vegum Mosfellsbæjar vinna nú við að taka upp Helgafellsveg. Vegna mistaka við lagningu tengibrautarinnar þarf að lækka veginn í landinu til að tengja hann við Álafosskvos. Íbúar í Álafosskvos hafa um langt skeið beðið eftir frágangi á...

Fólk í Fílabeinsturnum ekki gefið góða raun

Varmársamtökin óska félögum og öðrum landsmönnum gleðilegs árs og þakka fyrir uppbyggileg samskipti á liðnu ári. Atburðir síðasta árs hafa fært okkur heim sanninn fyrir því að við þurfum að efla lýðræði og taka virkan þátt í mótun samfélagsins....

Varmársamtökin óska landsmönnum gleðilegra jóla

Myndin er tekin á fögrum vetrardegi í landi Hlíðar við Varmá í Mosfellsbæ.

Bútasaumur í Álafosskvos leiðir til mistaka

Bútasaumur í skipulagsmálum kann ekki góðri lukku að stýra - eins og dæmin sanna í Álafosskvos. Mistök voru gerð við lagningu Helgafellsvegar og því ekki hægt að tengja veginn við vegakerfi Kvosarinnar. Að mati íbúa á svæðinu má rekja mistökin til þess...

Lagning Helgafellsvegar stenst ekki skipulag

Á mánudag sendu Varmársamtökin eftirfarandi erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar: Varmársamtökin fara þess á leit við bæjarráð Mosfellsbæjar að ráðið beiti sér fyrir gagngerri endurskoðun á deiliskipulagi Helgafellsvegar og aðalskipulagi sama svæðis. Skv....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband