Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Deiliskipulag Augans: vönduð umhverfismótun?

Helgafellshverfi Augað

Áður en deiliskipulag Augans í Helgafellshverfi var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á sl. ári fóru Varmársamtökin þess á leit við bæjaryfirvöld að endurskoða skipulagstillöguna til að tryggja betur velferð íbúa í fyrirhuguðu hverfi. Ábendingar samtakanna voru þær helstar að í ljósi mengunar- og slysahættu væri afar óheppilegt að staðsetja grunnskóla hverfisins á umferðareyju, þ.e. í Auganu; að dýrar og fyrirferðarmiklar hljóðvarnir í nýbyggðum hverfum samræmdust illa kröfum um vandaða umhverfismótun og bæri því að forðast; að skoða ætti hverfin undir hlíðum Helgafells sem eina samliggjandi heild og gæta þess við hönnun skipulagsins að fyrirkomulag bílaumferðar væri með þeim hætti að börn og fótgangandi gætu átt greiða leið um svæðið. Að lokum settu Varmársamtökin fram þá kröfu að bæjaryfirvöld gættu þess við gerð áætlana að samhljómur væri milli skipulagsáætlana og þeirra markmiða sem sett eru fram í greinargerð að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.
Varmársamtökin telja að það hefði þjónað mun betur hagsmunum bæjarfélagsins að skoða þessar athugasemdir en bæjarstjórn Mosfellsbæjar leit málið öðrum augum og tók þær ekki til greina við afgreiðslu skipulagsins. 

Fjórir aðilar gerðu upphaflega tillögu að skipulagi í Helgafellslandi og geta áhugasamir fengið að skoða þær á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar.

P.s. Ekki er að marka staðsetningu vega á myndinni hér að ofan. Tengibraut um Álafosskvos fer mun nær byggðinni og enn er ekki ljóst hvernig fyrirkomulagi umferðar verður háttað frá Vesturlandsvegi inn í miðbæ Mosfellsbæjar.

Sjá athugasemdir Varmársamtakanna í heild:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tengibraut um Álafosskvos: Kostir og gallar

Sígrún PálsdóttirVarmársamtökin hafa undanfarið ár unnið að því hörðum höndum að afstýra þeirri ráðagerð bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ að leggja tengibraut úr Helgafellshverfi um Álafosskvos. Samtökin telja að bæjaryfirvöld hafi ekki upplýst íbúa um varanleg neikvæð áhrif af legu hennar heldur miklu fremur reynt að slá ryki í augu almennings með gerð myndbanda og útlitsteikninga sem birta mynd sem er víðsfjarri öllum raunveruleika. Til að meta áhrifin sem lega tengibrautarinnar hefur fyrir bæjarfélagið gerðu fulltrúar Varmársamtakanna samantekt á kostum hennar og göllum:

GALLAR:

  • Umferðaröngþveiti myndast á álagstímum við hringtorg við þjóðveg 1 og langar biðraðir bíla þegar helgarumferð er í hámarki á sumrin
  • Slysahætta eykst til muna við gatnamótin vegna aðlíðandi brekku sitthvoru megin hringtorgsins
  • Umferð er beint ofan í kvos þar sem heilsuspillandi útblásturs- og svifryksmengun sest fyrir í stillum. Heilsu skólabarna er með þessu stefnt í voða þar sem helsta íþróttasvæði Mosfellsbæjar liggur í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá hringtorgi
  • Lega tengibrautarinnar frá Auga að Vesturlandsvegi eykur slysahættu og torveldar umferð barna og fótgangandi milli hverfa.
  • Tvískipting bæjarfélagsins í byggð vestan og austan Vesturlandsvegar verður áþreifanlegri en áður
  • Bílaumferð um tengibrautina veldur viðvarandi umferðarhávaða, loft- og sjónmengun í Kvosinni sem er vinsælasta útivistarperla bæjarfélagsins. Mengunin rýrir með afgerandi hætti lífsgæði íbúa á svæðinu
  • Mosfellsbær tapar dýrmætasta menningarsögulega sérkenni sínu sem er þorpsstemning á gömlum grunni í Álafosskvos
  • Viðvarandi umferðarhávaði og útblástursmengun skaðar atvinnu- og listastarfsemi í Álafosskvos og kemur í veg fyrir að hægt verði að nýta einstakt umhverfi hennar fyrir útimarkaði, leikhús og tónlistarflutning. Náttúruhljóð hverfa í umferðarnið
  • Lífríki spillist og vatnsmagn minnkar í Varmá, þ.m.t. í Álafossi sem stendur til að friðlýsa

KOSTIR:

  • Bílaumferð úr og í Helgafellshverfi verður greið - utan álagstíma

Af þessari upptalningu má ráða að gallar skipulagsins vega mun þyngra en eini kosturinn sem kom til álita eftir umfangsmikla leit.  Það blasir við að fórnarkostnaðurinn sem þessar löngu úreltu skipulagshugmyndir hafa í för með sér er of hár. Sú byggð sem nú er fyrirhuguð í Helgafellslandi á lítið sameiginlegt með upphaflegum áætlunum sem bæjaryfirvöld þó nota til að réttlæta legu tengibrautarinnar. Íbúafjöldi hefur 15-20 faldast og flatarmál hverfisins þrefaldast síðan 1983. Stefnuleysi í umhverfismálum setur mark sitt á skipulagsgerð og þvermóðska einkennir viðbrögðin við vísbendingum íbúa og eftirlitsstofnana í umhverfis- og skipulagsmálum. Einstefna bæjarstjórnarmeirihlutans í samskiptum við íbúa er farin að valda Mosfellsbæingum skaða. Við í Varmársamtökunum segjum að nú sé mál að linni. Finna þarf Helgafellsbraut stað sem lágmarkar skaða samfélagsins af legu hennar. Það verður hér eftir aðeins gert í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila s.s Vegagerð ríkisins.

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
varmarsamtokin@gmail.com


Vel heppnuð dagskrá á Álafossi

Bjarki leiðsögn 18.03.07Mikið var um dýrðir í Álafosskvos í dag þar sem allar dyr stóðu opnar upp á gátt fyrir gesti og gangandi sem steymdu í Kvosina. Íbúar og fyrirtæki við Álafoss buðu upp á fjölbreytta dagskrá sem hófst á fögrum tónum Álafosskórsins.  Í Þrúðvangi voru sýndar gamlar og nýjar ljósmyndir og fróðleg myndbönd sem endurspegluðu þá ótrúlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Kvosinni undanfarin ára. Berglind Björgúlfsdóttir söng sig inn í hjörtu áheyrenda í stigagangi gamla verksmiðjuhússins, málverk Björns Roth voru til sýnis á vinnustofu listamannsins, Palli hnífasmiður var við vinnu á verkstæði sínu, Ásgarðsmenn buðu upp á gómsætar veitingar, stúdíó Sigur Rósar stóð öllum opið og Gunnlaugur ATORKUMAÐUR  og Gigga hómópati kynntu starfsemi sína o.fl., o.fl. Bjarki Bjarnason leiddi gesti um svæðið og sagði sögu uppbyggingar á Álafossi frá lokum nítjándu aldar. Frásögn hans af Sigurjóni Péturssyni og lífinu í verksmiðjunni var bæði fróðleg og skemmtileg.
Eftirfarandi frásögn af einni fyrstu skemmtun í Mosfellsbæ í febrúar 1896 er birt með góðfúslegu leyfi sagnfræðingsins.

Var veður blítt, en vott á jörð

Árið 1896 var fyrsta verksmiðjuhúsið að Álafossi tekið í notkun. Húsið var þá stærsta hús sveitarinnar  ásamt Lágafellskirkju sem Mosfellingar höfðu reist nokkrum árum fyrr. Á þeim árum var ekkert stórt samkomuhús til í Mosfellssveit og því kjörið tækifæri fyrir sveitungana að koma saman í tóvélahúsinu.
2. febrúar 1896, um það leyti sem verksmiðjuhjólin tóku að snúast að Álafossi, efndi Lestrarfélag Lágafellssóknar til mikillar samkomu á Álafossi sem stóð í um það bil hálfan sólarhring og var ein fyrsta almenna skemmtunin sem efnt var til í Mosfellssveit. Um 140 manns sótti mannamótið og var aðgangseyririnn 25 aurar.
   
Farandblað lestrarfélagsins, Umfari, greindi frá samkomunni og er frásögnin stórskemmtileg og ómetanleg heimild um tíðarandann í Mosfellssveit seint á 19. öld.  

„(2. febr. 1896) var að tilhlutun Lfl. Lfs., eða stjórnarnefndarinnar, haldin almenn samkoma að Álafossi, í hinu nýbggða ullarvinnuvélahúsi þar, sem húseigandinn, hr. Björn Þorláksson léði fyrir væga borgun, og með hinni liðlegustu framkomu við félagsstjórnina og gestina gjörði dvölina þar svo þægilega, sem unnt var.
Samkoman byrjaði kl. 6. e.h. með því, að flokkur karlmanna söng nýtt kvæði, Mótið, fjórraddað (eptir að Björn frá Reykjahvoli, er af hendi félagsstjórnarinnar stýrði samkomunni, hafði opnað hana með fám orðum). Því næst sté Ólafur Gíslason í ræðustólinn og flutti fyrirlestur um „þjóðlífið fyrr og nú“ mikið liðlega saminn. Þá var tíu mínútna hlé. Svo söng flokkurinn tvö alþýðleg lög (3var hvort). Þá var settur málfundur, og hverjum manni leyft að bera upp hvert það mál, er hann lysti. Einar í Miðdal talaði þá erindi nokkurt um barnakennslu til sveita. Björn á Reykjahvoli talaði um að taka upp líkamlegar æfingar, einkum böð og sund. Eggert Hólm vék að fyrirlestri Ólafs (en boðið var til umræðu um hann þegar honum var lokið, og kom þá enginn fram). Af konum tók engin þátt í umræðum þessum, nema Vilborg húsfreyja í Miðdal. Nú stakk Björn á Reykjahvoli upp á, að lesa húslestur að heimasið, og bar undir atkvæði hvort svo skyldi gera. Urðu miklu fleiri atkv. með því. Las þá Kristrún húsfreyja á Reykjahvoli dagsins lestur í Pálspostillu, „um köllunina“, dáðhvetjandi þjóðhagsbóta-fyrirlestur. Sungið var „Þú, Guð, sem stýrir stjarna her“ fyrir, en „Við freistingum gæt þín“ á eptir. Má álíta að þetta hafi mikið prýtt samkomuna, og kastað yfir hana friðsamlegum heimilisblæ, eins og slíkar skemmtisamkomur eiga að hafa. - Nú var enn, eptir stutt hlé, sungið eins og fyr. Þá flutti Björn á R.hv. fyrirlestur alllangan „um illgresi í þjóðlífs-akrinum.“  Umræður út af honum hóf Mattías frá Móum, þó byggðar á misskilningi sumpart. Svaraði Björn honum. Eggert Hólm talaði einnig út af fyrirl. fyrst, en síðan alllangt erindi um Árnakrók, er eigi var tóm til að ræða frekar, því sumt unga fólkið var orðið óþreyjufullt að bíða eftir danzinum. Var nú enn sungið (3 lög) og að síðustu  „Í danz - í danz“, og skiptust menn þvínæst svo, að danzfólkið skipaði sér í stærstu stofuna en hitt í hinar. Var þá kl. nálægt 12, er hljóðfærin tóku að kveða danzlögin. Þeir, sem eigi dönzuðu, tóku nú að spila, („kött“, vist, gosa) sumir „upp á aura“, aðrir sungu, ræddu saman, keyptu kaffi, vindla eða „cocolade“ hjá Guðlaugi frá Helgafelli, sem veitti vel og myndarlega alla nóttina (tók að sér að gera það, að öðrum frá gengnum). Eggert Hólm vildi sýna leiki; voru þá reynd hástökk jafnfætis. Tóku nokkrir þátt í því og mun Jónas Ásgrímsson, Rvík, og Björn á Rhv. hafa þótt stökkva liðlegast, en hæzt stukku þeir E. Hólm og Jónas Ás. Þá var reynt að slíta 3 punda línu lúna milli handanna í lófalykkju, en eigi tókst það öðrum en Guðsteini í Lvtungu, af þeim fáu, er reyndu. Þá fóru menn að togast á með snærinu 3földu í lykkju, og spyrnti sinn hvorumegin í dyra-umbúning; komust í það flestir karlmennirnir. Munu þeir Magnús í Lambhaga og Eiríkur í Miðdal hafa þótt togast hraustlegast. Nokkrir glímdu, og mun bræðrunum Ingvari frá Reykjahvoli og Guðm frá Lambhaga hafa farizt það liðlegast, enda jafnir. Söng var haldið uppi öðru hvoru. Honum stýrði Björn á Álafossi (flokkstjóri). Kl. 6 ½ morgun var samkomunni sagt slitið, og fóru þá allir að týgja sig. Var veður blítt, en vott á jörð.

Eftirmáli
„Einar í Miðdal missti staf, á samkomunni á Álafossi í nótt er leið, úr bambusreiri, ljósgulan að lit. Er húnninn skrúfaður á og við hann fest stika, sem gengur ofan í rörlegginn. Hafi hann verið misgripinn í dimmunni eða finnist, er beðið að koma honum til skila.
Annan staf missti Guðm. yngri í Elliðakoti, útlendan lágstaf úr birki, er hann biður skilað, ef finnst.  --------------------------
Varla mun unnt að segja annað, en að samkoman í Álafossi hafi tekizt vel eptir öllum ástæðum. Hið helzta, sem glepja vildi fyrir, var óþreyja danzfíknustu unglinganna að hlíða á síðari fyrirlesturinn, sem sérstaklega var þó gjörður þeirra vegna; en slíkan ungdóms-breyskleika verður að virða á hægra veg.“

Úr bók Bjarka Bjarnasonar og Magnúsar Guðmundssonar: Mosfellsbær saga byggðar í 1100 ár. Pjaxi ehf. 2005.


Varmársamtökin fagna sigri í þriðja sinn á mánuði

VS_i_tengslumFélagar í Varmársamtökunum  fagna þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að setja tengibraut úr Leirvogstungulandi yfir Köldukvísl og Varmá að Skeiðholti í mat á umhverfisáhrifum. Er þetta þriðji sigur Varmársamtakanna í umhverfismálum í Mosfellsbæ á innan við mánuði.
Í lok janúar kærðu samtökin þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28.12.2006 til umhverfisráðherra að vegurinn sem til stendur að leggja yfir verndarsvæði í grennd við friðlýsta ósa Varmár skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Hefur ráðuneytið kæruna enn til meðferðar en í henni er þess m.a. krafist að allar framkvæmdir sem nú eru í farvatninu við bakka Varmár verði metnar sameiginlega og heildaráhrif þeirra á verndarsvæðið meðfram bökkum Varmár og Köldukvíslar skoðuð.
Í fundargerð bæjarstjórnar á vef Mosfellsbæjar frá því í morgun (15. mars) er þess getið að ákvörðunin hafi verið tekin í ljósi nýrra laga um umhverfismat áætlana, - en þau voru innleidd í íslenska löggjöf skv. tilskipun Evrópusambandsins í júní í fyrra. Ennfremur sé með samþykktinni verið að rétta íbúum sáttahönd sem er auðvitað sérstakt fagnaðarefni fyrir Varmársamtökin sem hingað til hafa þurft að leita ásjár löggjafans til að koma á úrbótum í umhverfis- og skipulagsmálum í bæjarfélaginu. Er þess skemmst að minnast að Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála felldi í febrúar sl. þann úrskurð í kjölfar kæru samtakanna að vafi léki á lögmæti deiliskipulags tengibrautar um Álafosskvos þar sem ekki hefði verið tekið tillit til laga um umhverfismat áætlana við gerð skipulagsins. Í framhaldi af úrskurðinum felldi Mosfellsbær deiliskipulagið úr gildi sem síðan varð til þess að Skipulagsstofnun ákvað að byrja þyrfti skipulagsvinnuna frá grunni með tilliti til ofangreindra laga um umhverfismat áætlana.
Einn fulltrúi minnihlutans í bæjarstjórn bar upp þá tillögu í bæjarstjórn sl. sumar að tengibrautin úr Leirvogstungulandi yrði sett í mat á umhverfisáhrifum burtséð frá lagaskyldu og var sú tillaga kveðinn í kútinn af meirihlutanum með miklu háreisti.
Það er mikill áfangi að upplifa nú þessa stefnubreytingu í átt til lýðræðis hjá bæjarstjórnarmeirihlutanum Mosfellsbæ. Er ekki bara ómissandi fyrir lýðræðið að boðað sé til kosninga á fjögurra ára fresti?

varmarsamtokin@gmail.com


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Allar dyr upp á gátt í Álafosskvos

Opið hús á Álafossi

Laugardaginn 17. mars kl. 14-17 standa íbúar, listamenn og vinnustaðir í Álafosskvos í Mosfellsbæ fyrir skemmtilegum uppákomum í Kvosinni gestum og gangandi til fróðleiks og yndisauka. Álfyssingar hafa sett saman fjölbreytta dagskrá en hún verður sem hér segir:

  • Kl. 14.00 syngur Álafosskórinn nokkur lög.
  • Kl. 15.00 verður Bjarki Bjarnason, sagnfræðingur með leiðsögn um svæðið sem hefur að geyma merka iðn- og menningarsögu Mosfellsbæjar.
  • Í Þrúðvangi standa Álfyssingar fyrir ljósmyndasýningunni "1920-2007".
  • Leikfélagið M.A.S sér um kaffigallerí í Ásgarði þar sem handverk Ásgarðsmanna verður til sýnis og sölu.
  • Mannræktarstöðin ATORKA kynnir starfsemi sína í Þrúðvangi og verður Guðrún Ólafsdóttir hómópati einnig til viðtals á sama stað.
  • Ullarvöruverslunin Álafossbúðin verður opin gestum en þar eru auk þess söguminjar frá blómatíma ullariðnaðarins á Álafossi til sýnis.  Í stóra verksmiðjuhúsinu verða nemendur í málun hjá Myndlistarskóla Mosfellsbæjar við störf. Á sömu hæð er Tómstundaskólinn og verður Helga Jóhannesdóttir leirkerasmiður þar með opna vinnustofu og á hálfa tímanum mun Berglind Björgúlfsdóttir bræða hjörtu áheyrenda með flutningi ORF söngva í stigagangi gamla verksmiðjuhússins.
  • Í gamla Tóvinnsluhúsinu verða sýnd myndbönd sem segja sögu uppbyggingar á svæðinu sl. ár og margt fleira.
  • Ofar í brekkunni munu dyr listamanna og handverksfólks standa upp á gátt. Hjá Palla hnífasmið gefur t.d. að líta einstakt handverk, úr sérstæðum efniviði. Þeir sem komast alla leið upp brekkuna geta síðan gengið út frá því sem vísu að fá kaffi og með’í á smíðaverkstæðinu Íshamri og á vinnustofu Björns Roth.

Um morguninn, utan dagskrár, býður Berglind Björgúlfsdóttir, sem hefur sérhæft sig í tónlist og skapandi hreyfingu fyrir börn,  foreldrum, öfum og ömmum að taka þátt samverustund 3-5 ára kl. 10-11. Einnig er fólki velkomið að mæta í sérstakan kynningartíma í Rope Yoga hjá  Gunnlaugi B. Ólafssyni ATORKUMANNI kl. 11.15-12.15.

Allar nánari upplýsingar veitir Guðrún Ólafsdóttir hómópati í síma 848 9712 eða Berglind Björgúlfsdóttir í síma 660 7661.


Valkostir verði bornir saman

GunnlaugurMeð nýjum úrskurði Skipulagsstofnunar er ljóst að bæjarstjórn Mosfellsbæjar ber að setja tengibrautarmálið fram með þeim hætti, að það sé ofar öllum vafa að besti kostur hafi verið valinn. Tilgreint er í h-lið að eftirfarandi þurfi að vera í umhverfisskýrslu; “yfirlit yfir ástæður fyrir vali stefnu þar sem valkostir hafa verið bornir saman og lýsing á því hvernig umhverfismatið var unnið…” . Í því er ekki nóg að horfa til fortíðar um ákvörðunina, heldur líka til nútíðar og helst til framtíðarmöguleika bæjarins.
Þetta hefur verið meginþráður í málflutningi samtakanna að málið hafi ekki verið skoðað í heild og að það vanti faglegan samanburð á valkostum. Sérstaklega þarf að skoða tengingar Mosfellbæjar við Vesturlandsveg. Það þarf að breyta áherslum frá bútasaumi í skipulagsmálum í átt að heildarsýn, ásamt því að fagna en ekki tortryggja virkni bæjarbúa á þessu sviði. Varmársamtökin eru tilbúin að hafa samvinnu við Mosfellsbæ og Vegagerðina um leit að niðurstöðu sem líklegust væri til sátta meðal íbúa sveitar í borg.
Varmársamtökin munu tryggja það, fast og klárt, að bæjarstjórn komist ekki upp með neinn kattarþvott við gerð umhverfisskýrslunnar og við mat á áhrifum framkvæmda. Þessi lög gilda innan Evrópusambandsins og þar er komin hefð á hvernig á að standa að slíkri vinnu. Auk þess sem leiðbeiningar um framkvæmd umhverfismatsins hafa verið gefnar út  hjá Skipulagsstofnun. Ferlið er því skýrt og framkvæmd þess vel vörðuð.


Deiliskipulag Helgafellsbrautar ólögmætt

Gröfur við ÁlafosskvosBarátta Varmársamtakanna fyrir mati á áhrifum tengibrautar um Álafosskvos hefur borið ríkulegan ávöxt. Skipulagsstofnun hefur ákveðið að deiliskipulag tengibrautarinnar skuli háð lögum um umhverfismat áætlana. Með þessari ákvörðun tekur stofnunin undir úrskurð Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá miðjum febrúar um að vafi leiki á lögmæti deiliskipulagsins .
Niðurstaða Skipulagsstofnunar er ótvíræð, þ.e. að deiliskipulag Helgafellsbrautar sé ólögmætt. Með ákvörðuninni er bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ gert að vinna umhverfisskýrslu áður en tekin er endanleg ákvörðun um legu tengibrautarinnar.

Í gerð umhverfisskýrslu felst að gera verður umfangsmiklar rannsóknir á áhrifum tengibrautarinnar á umhverfið sem í lögum er skilgreint sem samheiti fyrir "samfélag, heilbrigði manna, dýr, plöntur, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, eignir, menningararfleifð, þ.m.t. byggingarsögulegar og fornleifafræðilegar minjar, og landslag og samspil þessara þátta."
Lögin segja m.a. til um að gera verður ítarlega úttekt á áhrifum framkvæmdarinnar á aðra áætlanagerð, þ.e. aðrar skipulagseiningar, lýsa þarf þeim umhverfisþáttum sem líklega verða fyrir verulegum áhrifum og umhverfisvandamálum sem framkvæmd veldur á svæðum með sérstakt náttúruverndargildi, veita upplýsingar um samþykkt umhverfisverndarmarkmið og að hve miklu leyti tekið er mið af þeim við skipulagsgerð, bera saman valkosti og veita upplýsingar um mótvægisaðgerðir.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar er mikið fagnaðarefni fyrir Varmársamtökin sem barist hafa fyrir því að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ vinni faglega úttekt á áhrifum tengibrautar á náttúru Varmársvæðisins, íbúa og atvinnustarfsemi í grennd við Helgafellshverfi og afleiðingum skipulagsins fyrir menningarsögu Mosfellsbæjar. Hafa samtökin jafnframt ítrekað skorðað á bæjarstjórn að gera fagleg úttekt á öðrum valkostum varðandi legu tengibrautarinnar.


Kynning á tengibraut - misskilningur leiðréttur

VS_i_tengslumMótmæli við lagningu tengibrautar um Álafosskvos hófust við endurskoðun á aðalskipulagi Mosfellsbæjar árið 2002. Sú söguskýring að mótmæli hafi fyrst hafist þegar verkið var komið á framkvæmdastig á þvi ekki við rök að styðjast. Engin skipulagsáætlun á að hafa verið betur kynnt íbúum. Sé málið skoðað kemur í ljós að ekki er heldur fótur fyrir þeirri staðhæfingu.

Það er sérkennileg staða að íbúar í Mosfellsbæ skuli hvað eftir annað þurfa að upplýsa fulltrúa bæjarstjórnarmeirihlutans í Mosfellsbæ um lagaumhverfið sem þeir eiga að vinna eftir. Ennfremur óþolandi að þeir skuli endurtekið halla réttu máli til að afvegaleiða heilbrigða umræðu um málið meðal íbúa.

Á fundi í Hlégarði um miðjan febrúar steig formaður skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson,  í pontu og lýsti því yfir að engin framkvæmd hafi verið jafn vel kynnt íbúum. Tíndi hann til fundi sem ýmist komu málinu ekki við, haldnir voru fyrir hans tíð í bæjarstjórnarmeirihluta eða aðeins ætlaðir þröngum hópi íbúa.
Fyrsti og eini almenni fundurinn átti sér stað í febrúar 2002 en hann var haldinn í tengslum við kynningu á tillögum að nýju aðalskipulagi. Fjöldi íbúa safnaði undirskriftum gegn lagningu tengibrautar um Álafosskvos og sendi bæjaryfirvöldum athugasemdir sínar skriflega. Voru þær afgreiddar úr nefnd í byrjun árs 2003 eða meira en hálfu ári eftir að nýr bæjarstjórnarmeirihluti tók við. Það er skemmst frá því að segja að ekkert tillit var tekið til mótmælanna.
Miklar breytingar hafa átt sér stað á aðalskipulagi síðan þá, íbúafjöldi í Helgafellslandi hefur m.a. margfaldast en ekki einn einasti fundur verið haldinn til að kynna þessar umfangsmiklu breytingar fyrir íbúum.

Annar fundurinn sem Haraldur tiltók var kynning á tillögum að nýju rammaskipulagi fyrir Helgafellsland sem haldinn var í mars 2005. Skv. upplýsingum frá Skipulagsstofnun telst þessi fundur ekki vera hluti af kynningarferli Helgafellslands enda deiliskipulagning enn ekki hafin og ekki ljóst hversu mikið vægi rammaskipulagið fengi við gerð skipulagsáætlana.

Þriðji fundurinn sem formaður skipulagsnefndar benti á kemst kannski næst því að uppfylla skilyrði um kynningu en samt ekki. Þessi fundur var haldinn í Varmárskóla í febrúar 2006 eða um það leyti sem fyrstu deiliskipulög Helgafellslands voru auglýst til kynningar. Skv. upplýsingum frá skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar var hann kynntur með dreifibréfi til íbúa í Helgafellshverfi og nágrenni. Fundurinn var því ekki almennur eins og Haraldur heldur fram. Enginn íbúi í Álafosskvos kannast við að hafa fengið fundarboð og hefur undirrituð aðeins hitt einn mann sem man eftir fundinum en hann er íbúi í Landahverfi. Sagði hann örfáar hræður hafa mætt á fundinn sem staðfestir ennfrekar þá skoðun mína að fundurinn hafi verið illa kynntur. Þessu til sönnunar er vert að skoða fundargerðir Mosfellsbæjar en það er ekki minnst á fundinn í einni einustu fundargerð á vef sveitarfélagsins. Þar er heldur ekki að finna neina auglýsingu um fundinn.

Fjórði fundurinn var haldinn í núorðið þjóðþekktu safnaðarheimili Lágafellssóknar 12. maí 2006 eða fjórum dögum eftir stofnun Varmársamtakanna. Var fundarboð borið í hús af starfsmönnum Mosfellsbæjar kvöldið fyrir fundinn og aðeins til þeirra íbúa sem gert höfðu athugasemdir við deiliskipulag tengibrautarinnar. Hafði það verið samið í miklum flýti því bréfið var ódagsett og ekki ritað á bréfsefni Mosfellsbæjar.

Þeir fundir sem haldnir voru eftir gildistöku deiliskipulagsins 2. janúar 2007 teljast ekki vera kynningarfundir í skilningi laga þar sem deiliskipulagið var frágengið og íbúar hafa ekki lengur tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri en það er tilgangurinn með kynningu á skipulagsáætlunum að tryggja lýðræðislegan rétt íbúa til að taka þátt í skipulagsferlinu og koma á framfæri mikilvægri þekkingu á umhverfi sínu.

En af hverju þarf formaður skipulags- og byggingarnefndar að slá ryki í augu fólks undir því yfirskyni að vera að leiðrétta misskilning*? Er það vegna þess að hann veit upp á sig skömmina eða vegna þess að hann hefur ekki kynnt sér í hverju hlutverk hans sem fulltrúi bæjarbúa í skipulagsnefnd er fólgið?
Það er ekki í mínum verkahring að geta hér í eyðurnar en sé atburðarás síðustu daga skoðuð er ljóst að fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa verið neyddir til að horfast í augu við að vinnubrögð þeirra stangast á við lög og góða siði lýðræðissamfélagsins.

Það fullnægir t.d. ekki lagaskyldu að kynna sumt og annað ekki fyrir íbúum. Framkvæmdir í Helgafellslandi hafa verið kynntar í bútum og ekkert fjallað um ruðningsáhrif einstakra framkvæmda á aðrar skipulagseiningar. Heildaráhrif tengibrautar um Álafosskvos á bæjarfélagið hafa hvergi komið fram í kynningu en fyrirhuguð staðsetning Helgafellsbrautar kallar t.d. á stórfelldar vegaframkvæmdir við Vesturlandsveg og nýjan veg samhliða tengibrautinni í Kvosinni sjálfri. Svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif af legu hennar á atvinnustarfsemi, útivist og  samgang milli hverfa í og við Helgafellsland.

Öflug barátta Varmársamtakanna fyrir því að fá að taka þátt í undirbúningi skipulagsáætlana í Mosfellsbæ  á sér augljósa skýringu og hún er sú að bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hefur í öllu þessu ferli haft að engu leikreglur lýðræðisins. Það gefur auga leið að við slíkt ástand verður ekki unað nú 200 árum eftir að lýðræði var fyrst kynnt til sögunnar.

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum

varmarsamtokin@gmail.com

* Haraldur birti grein um kynningu á Helgafellsbraut í Mosfellingi 23. febrúar undir yfirskriftinni: "Helgafellsvegur - misskilningur leiðréttur".


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband