Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
31.3.2007 | 12:15
Virkjum lýðræðið í stjórnsýslunni
"Blessuð sértu borgin mín" er yfirskrift borgaraþings íbúasamtaka á höfuðborgarsvæðinu sem hefst í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 13 í dag laugardag. Tilgangurinn með þinginu er að skapa umræðu um íbúalýðræði og skipulagsmál. Framsöguerindi eru fjögur og munu stjórnmálamenn hjá ríki og borg sitja í pallborði að erindum loknum.
- Ákvarðanataka í borgarskipulagi: Snorri Freyr Hilmarsson
- Demokrati og deltagelse í byplanlegging i Norge og Europa: Audun Eng frá Noregi
- Lýðræði og borgarskipulag: Einar Eiríksson
- Manneskjan og maskínan: Bryndís Schram
- Pallborð
Fundarstjóri er Gísli Þór Sigurþórsson
Allir hjartanlega velkomnir!
30.3.2007 | 00:30
Hveri aftur upp á yfirborðið í Mosó?
Það tæki hverina í og við Varmá aðeins eitt ár að komast aftur upp á yfirborð jarðar ef Orkuveitan hætti dælingu jarðhitavatns úr iðrum Mosfellsbæjar til Reykjavíkur, var svar Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings við fyrirspurn Varmársamtakanna á fyrirlestri sem hann hélt undir yfirskriftinni "Nýting og afturkræfni háhitasvæða" í Háskóla Íslands í gær.
Í fyrirlestrinu kynnti hann jarðfræðirannsóknir sem nú standa yfir á vegum Orkuveitu Reykjavíkur á jarðhitavatnsforða svæðisins í og við eldstöðina Hengil. Kom fram í máli Gríms að ágeng vinnslustefnu gæti leitt til ótímabærrar eyðileggingar á jarðhitasvæðum. Öllum væri fyrir bestu að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í tengslum við jarðhitanýtingu þar sem ofnýting ynni í raun gegn hagsmunum eigenda jarðhitasvæða. Sumpart væri erfitt að sjá fyrir áhrifin af jarðhitanýtingu á háhitasvæðum vegna þess að lítil reynsla væri komin á nýtinguna og nauðsynlegt að vitneskja bærist frá kynslóð til kynslóðar til að auðvelda greiningu á áhrifum hennar.
Taldi Grímur af hinu góða að mat á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar skipti sífellt meira máli þegar teknar væru ákvarðanir um staðsetningu mannvirkja sem tengjast virkjunum.
Sagði Grímur að ofgnótt vatns væri að finna undir yfirborði jarðar og að auðvelt væri að komast í forðabúrið í jarðskorpunni á Íslandi. Vatnið af háhitasvæðinu á Hellisheiði væri auk þess mjög gott. Lítið um steinefni og gas.
Sömu sögu er reyndar að segja um gæði vatnins af Varmársvæðinu sem flokkast undir lághitasvæði. 60% af vatninu sem rennur um hitaveitulagnir Reykjavíkur á sér upptök í iðrum Mosfellsbæjar.
Hvernig litist ykkur annars á að endurheimta þessa einstöku auðlind upp á yfirborð jarðar í Mosfellsbæ? Er ekki bara tími til kominn að njóta lífsins í þessu bæjarfélagi og svamla um í Varmá, opna hér tyrknesk böð og heilsulindir á heimsmælikvarða - svona um það leyti sem vatn af Hellisheiði fer að renna um hitaveitulagnir í Reykjavík? Eigum við ekki bara að gera ráð fyrir þessu strax í upphafi framkvæmda við Hengil?
sp
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.3.2007 | 02:07
Varmársamtökin á fund VG
"Það er mín skoðun að allar framkvæmdir á borð við tengibraut um Álafosskvos eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum burtséð frá lagaskyldu" - sagði Álfheiður Ingadóttir frambjóðandi Vinstri grænna í komandi Alþingiskosningum á kosningafundi í Mosfellsbæ í gærkvöldi.
Fulltrúar Varmársamtakanna mættu á fundinn til að spyrjast fyrir um af hverju forystusveit Vinstri grænna í Mosfellsbæ beitti ekki pólitískri oddastöðu sinni í bæjarstjórn til að koma á endurbótum á sviði umhverfis- og skipulagsmála í sveitarfélaginu þar sem nú á sér stað gríðarleg uppbygging.
Á fundinum lýstu fulltrúar Varmársamtakanna undrun sinni á áhugaleysi VG á skoðunum íbúa en eftir að flokkurinn hóf meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn sl. vor hafa fulltrúar hans verið nánast ósýnilegir í bæjarfélaginu og neitað að eiga samstarf um þau mál sem helst brenna á bæjarbúum þessa dagana en það eru einmitt umhverfis- og skipulagsmál. Hefur flóttalegt atferli fulltrúa flokksins í Mosfellsbæ skapað þeim viðurnefnið Vinstri týndir. Fram kom á fundinum að trúverðugleiki VG í augum kjósenda í Mosfellsbæ væri í húfi því boðuð stefna flokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar væri úr öllum takti við efndirnar eftir kosningar. Fulltrúar VG tækju m.a. þátt í að virða umsagnir Umhverfisstofnunar að vettugi og reyndu að sneiða hjá lögum um náttúruvernd í stað þess að setja umbætur í umhverfismálum á oddinn eins og yfirlýst stefna flokksins segir til um. Í ljósi þeirrar stefnu sem frambjóðendur VG sögðust ætla að framfylgja fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor væri óþolandi að íbúar þyrftu að leita ásjár lögfræðinga með tilheyrandi kostnaði til að hafa áhrif á gang mála í bæjarfélaginu.
Fram kom á fundinum að illa væri staðið að undirbúningi framkvæmda á vegum sveitarfélagsins s.s. eins og lagningu gervigrasvallar sem byggður var án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis sem leiddi til þess að hluti vallarins fer inn á helgunarsvæði Vegagerðar ríkisins við Vesturlandsveg. Einnig að búið væri að leggja vinnuveg undir hlíðum Helgafells að Þingvallavegi án deiliskipulags.
Ólafur Gunnarsson fulltrúi VG í skipulags- og bygginganefnd sagði að mikil endurskoðun ætti sér nú stað á framkvæmdaáætlunum í bæjarfélaginu. Í augum Varmársamtakanna er ljóst að hafa þarf samráð við íbúa um þá endurskoðun og vilja samtökin að lýðræðislegur réttur íbúa til virkrar þátttöku í gerð skipulagsáætlana verði virtur í framtíðinni.
Í dag verður til umfjöllunar í bæjarráði tillaga Varmársamtakanna um að eiga samstarf við Mosfellsbæ um að bera saman fleiri valkosti varðandi legu tengibrautar um Álafosskvos. Hvert svarið við þeirri tillögu samtakanna verður mun gefa afgerandi vísbendingu um framhaldið.
sp
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.3.2007 | 10:11
Af pólitísku siðferði Vinstri grænna
Í kvöld miðvikudag standa Vinstri grænir fyrir pólitískum umræðufundi á Draumakaffi í Mosfellsbæ. Liðsmenn Varmársamtakanna hvetja Mosfellsbæinga eindregið til að mæta á fundinn sem hefst kl 20.00 og varpa fram fyrirspurnum. Til undirbúnings fyrir fundinn birtum við tilvitnanir í yfirlýsingar frambjóðenda VG fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Ljóst er að stefnan sem fulltrúar Vinstri grænna boðuðu fyrir kosningar á ekkert skylt við stefnuna sem þeir framfylgja í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Á fundinum ætla Varmársamtökin að fara fram á að fulltrúar VG gefi kjósendum útskýringar á þessum sinnaskiptum.
Í Mosfellsbæ eru óþrjótandi möguleikar segir Karl Tómasson efsti maður á lista VG og núverandi forseti bæjarstjórnar
... Kvosin er alveg einstakur staður sem ber að varðveita og huga að.
Nú hefur vegtengingin framhjá Álafosskvosinni verið talsvert til umræðu. Hvað viltu segja um hana?
-Bæjaryfirvöld mega ekki gera slík mistök sem vegurinn inn í Helgafellslandið er. Það er ótrúleg skammsýni að ráðast í þessa framkvæmd en í raun samt talandi dæmi um yfirganginn, þröngsýnina og smekkleysið sem einkennir svo margar framkvæmdir, bæði hér og á landsvísu. Græðgi, yfirgangur og tillitsleysi gagnvart einu og öllu virðist því miður allsráðandi. ...
Vinstri grænn sveitungi 4. tbl. 2. árgangur, 28.apríl 2006.
Enginn fær rönd við reist - leiðari eftir KT
... Á einu augabragði á að fjölga íbúum um helming. Svo virðist sem máltækið góða um að góðir hlutir gerist hægt sé að vettugi virt og enginn fær rönd við reist.
Vart þarf að ræða breytinguna á bæjarmyndinni og bæjarbragnum við svo öra fjölgun og öll vandamálin sem geta komið upp. Það getur tekið áratugi að ná jafnvægi þar á.
Það vekur einnig spurningar að svo virðist sem allmargir hafi fest kaup á lóð sem aldrei hafi haft í hyggju að búa á staðnum, heldur einungis keypt til að selja og þá að sjálfsögðu með hagnaðarvon í huga. ...
Vinstri grænn sveitungi 27. janúar 2006
Miðbæinn þarf að efla og styrkja segir Bryndís Brynjarsdóttir 2. maður á lista VG
... Það er ýmislegt sem mætti betur fara hér í Mosfellsbæ og má þar nefna eina af perlum bæjarins sem er Álafosskvosin. Hún er einstakur staður með sögu og sjarma og verður að fá að njóta sín í þeirri mynd sem hún hefur núna sem blanda af vinnustofum listamanna, hverskonar þjónustu og íbúðum. Ýmislegt hefur verið gert hin síðari ár til að bæta yfirbragð kvosarinnar en miðað við núverandi deiliskipulag liggur við stórslysi. Það er ótrúlegt ef bæjarfulltrúar ætla að sýna þá skammsýni, miðað við nýtt deiliskipulag, að þrengja svo að kvosinni, meðal annars með tengibraut inn í Helgafellslandið, að töfrar svæðisins verða kæfðir með tröllauknu vegamannvirki.
Vinstri grænn sveitungi 2.tbl. 2. árg., 24. febrúar 2006
Skylda og ábyrgð sveitarfélaga í umhverfismálum - eftir Jóhönnu B. Magnúsdóttur 3. maður á lista VG
... Hvernig stendur á því að stjórnvöld hverju nafni sem þau nefnast, virðast telja það of kostnaðarsamt að sinna umhverfismálum? Hvað er talið með í þeim útreikningum? Og hversu langt fram í tímann er horft? ...
Viðurkennt er að til þess að breyta heiminum þurfum við að byrja á okkur sjálfum. Því var talið árangursríkast að fela því stjórnvaldi sem næst er íbúunum að vinna að sjálfbærri þróun. ...
Þessar breytingar eru ekki sjálfsprottnar, það verður að vinna markvisst að þeim og það er hlutverk sveitarfélagsins að gera það. Sveitarfélaginu ber að veita veita ráðgjöf, hvatningu og fræðslu og stuðla þannig að betri og bjartari framtíð. Til þess að ná árangri í Staðardagskrá 21 er samráð við íbúana algjört grundvallarskilyrði. Hver einstaklingur þarf að finna fyrir ábyrgð sinni á umhverfi sínu, bæði nær og fjær.
Vinstri grænn - Sveitungi 2. tbl. 2. árg. frá 24. febrúar 2006
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
28.3.2007 | 08:33
Hugleiðingar um Varmá
Hvers virði eru ár eiginlega? Flestum finnst aldeilis fínt að beisla fallorku þeirra og margir eru hrifnir af því að geta veitt í þeim fisk og borga fyrir það háar upphæðir. Þetta eru að sjálfsögðu mikil verðmæti en árnar eru einnig auðlindir af öðrum toga sem ekki er eins auðvelt að meta í krónum. Meira að segja litlar og ómerkilegar lækjarsprænur geta reynst uppspretta ófárra ánægjustunda.
Flestir fíla ár- og lækjarnið og náttúrulegt umhverfi en pæla kannski ekki í því hversu dýrmæt þessi fyrirbæri eru sér í lagi svona rétt við húsgaflinn ...
Síðasta sumar sá ég urriða svamla í Varmánni. Hann var fyrir ofan Álafoss svo hugsanlega hefur hann ekki komist þangað af sjálfsdáðum - og mér skilst reyndar að einhver gutti hafi sett seyði í ána einhverntímann. Sumum finnst þessi eldisfiskur óttalega ómerkilegur (þar sem hann er ekki náttúrulegur stofn) en mér finnst bara svakalega gaman að sjá syndandi fiska í ánni, hvaðan sem þeir eru ættaðir. Ekki af því að þá sé soðningu að fá, svo að segja úr bæjarlæknum - nei - það er bara einhvern veginn bráðskemmtilegt OG það gefur til kynna að áin sé ekki mjög menguð þrátt fyrir allt.
Sigrún Guðmundsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
27.3.2007 | 08:42
Röng staðsetning tengibrauta skaddar bæjarmynd
Varmársamtökin eru ekki ein um þá skoðun að sýna þarf aðgát þegar teknar eru ákvarðanir um legu tengibrauta í bæjarfélaginu. Um möguleg áhrif þeirra á umhverfið má lesa í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024:
Tengibrautanet Mosfellsbæjar er mjög umfangsmikið. Tengibrautir hafa mikil áhrif á umhverfi sitt, m.a. vegna hraða og eðlis umferðarinnar (gegnumakstur) ... . Óviðeigandi hár útfærslustaðall tengibrauta (miðað við umhverfi eða stærð hverfis) hefur víða ýtt undir gisnun byggðar og skaddað bæjarmynd og yfirbragð þéttbýlis. Tillagan felur í sér möguleika á útfærslu sem er sveigjanleg eftir því umhverfi sem göturnar fara um og stuðlar þannig að bættu umferðaröryggi og fallegra bæjarumhverfi.
Stefna Mosfellsbæjar viðvíkjandi náttúruvernd tekur ennfremur af öll tvímæli um hvað hafa skal að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana en í kaflanum um náttúruvernd segir:
Mosfellsbær leggur áherslu á umhverfisgæði og vernd náttúru og verðmætra útivistarsvæða. Þess er gætt að íbúðarbyggð gangi ekki á slík svæði og sé í góðum tengslum við þau. Umfangsmikil hverfisvernd er lögð á árnar í sveitarfélaginu og umhverfi þeirra svo og fossa, gil og önnur kennileiti í umhverfinu.
Liggur ekki ljóst fyrir hvernig standa skuli að skipulagsmálum í Mosfellsbæ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.3.2007 | 11:25
Uppbygging án umhverfisspjalla
Hér á blogginu okkar viljum við gjarnan koma upp umræðuvettvangi um uppbyggingu án umhverfisspjalla. Er ekki öllum fyrir bestu, til lengri tíma litið að meta umhverfisáhrif framkvæmda áður en út í þær er farið? Hvaða áhrif hafa íbúar sveitarfélaga á skipulagsáætlanir sveitarfélaga? Hversu mikið íbúalýðræði viljum við? Varmársvæðið er útivistarsvæðið okkar - af hverju eigum við að fórna því? Hver á að standa vörð um iðnsögu Íslands, nánar tiltekið iðnaðarsögu Mosfellsbæjar? Og svo mætti áfram telja. Uppbygging án umhverfisspjalla hlýtur að vera bæði möguleg og æskileg, og það er von okkar að um þessa hugmynd náist bæði sátt og fjörugar umræður á þessum vettvangi og víðar og það á breiðum grundvelli. Eitt af þeim atriðum sem við hljótum að velta fyrir okkur í þessu samhengi er spurningin, hvers vegna erum við að þessu? Hvers vegna er okkur svona umhugað um Varmána?
Sigrún Guðmundsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökinum
24.3.2007 | 10:22
Náttúru- og minjavernd í Mosfellsbæ
Eins og flestir bæjarbúar hafa orðið varir við eru meðlimir Varmársamtakanna ekki sáttir við bygginga- og vegaframkvæmdir við Varmá. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir okkur sem hér erum fyrir ekki síður en þá sem setjast munu að í Helgafells- og Leirvogstunguhverfum og vegfarendur sem eiga leið í eða um bæinn. Eins hefur verið bent á að stóraukin umferð um Álafosskvosina hafi a.m.k. takmarkandi áhrif á starfsemi Reykjalundar en hluti af heilsueflingu stofnunarinnar fer einmitt fram á Varmársvæðinu. Aukið svifryk og útblástursmengun hefur sérlega slæm áhrif á fólk með öndunarfærasjúkdóma. Jafnframt er íþróttasvæðið og Varmárskóli skammt undan umferðarþunganum. Íslendingar hafa hingað til lítið þurft að glíma við mengunarvandamál vestrænna iðnaðarþjóðfélaga en með þéttingu byggðar, stóraukinni bílaeign og illa skipulögðu gatnakerfi stefnir óðfluga í sama óefnið hér og þar. Varmársamtökin vilja stuðla að heppilegu skipulagi þannig að sem minnst fari forgörðum af þeim lífsgæðum sem við erum svo lánsöm að búa við í dag.
Sigrún Guðmundsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
23.3.2007 | 09:38
Gróskumikið mannlíf og tengsl við náttúru
Sveitarfélög setja fram stefnu sína um áherslur í mikilvægum málaflokkum í svokallaðri greinargerð með aðalskipulagi. Skipulagið er endurskoðað með ákveðnu millibili og því breytt eftir þróun mála í sveitarfélaginu þegar þurfa þykir. Aðalskipulag hefur samt ígildi laga og er sveitarfélögum skylt að framfylgja þeirri stefnu sem þar er lýst við gerð skipulagsáætlana. Við rákumst á eftirfarandi lýsingu í greinargerð ákveðins bæjarfélags á Íslandi. Gaman væri að vita hvort lesendur vita hvaða skipulag hér um ræðir.
Byggðin
Markmið aðalskipulagsins er að í ?bæ fái að þróast fjölbreytt byggð í góðum tengslum við umhverfið. Með uppbyggingu þéttbýlis í ?bæ verði stefnt að því að allir íbúar njóti nálægðar við opin svæði, bæði mótuð útivistarsvæði og ósnortna náttúru. Gætt verði hagkvæmni í landnotkun og byggðin skipulögð þannig að hún stuðli að gróskumiklu mannlífi þar sem tekið er tillit til umhverfissjónarmiða, m.a. hvað snertir umferð og orkunotkun. Stefna ber að góðu búsetuumhverfi með fjölbreytilegum húsagerðum og aðlaðandi bæjarmynd. Leggja skal áherslu á að móta þéttbýlisumhverfi sem hvetur til útiveru og stuðlar að fjölbreyttu bæjarlífi. Tryggt verði að aðgengi frá byggð til fjalls og fjöru verði tryggt þannig að tengsl manns og náttúru haldist eins og nú er. Ímynd bæjarins sem útivistarbæjar verði viðhaldið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.3.2007 | 09:23
Þörf á aðgæslu við Varmá
Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) gerði í október sl. könnun á gróðri í vegstæði tengibrautar milli Leirvogstungu og Skeiðholts. Niðurstaða rannsóknarinnar er þeim annmörkum háð að á þessum tíma liggja plöntur í vetrardvala og er það tiltekið í skýrslunni. Veiðimálastofnun kannaði fiskgengd og Umhverfisstofnun lagði mat á undirbúningavinnu Mosfellsbæjar og veitti ráðgjöf. Við birtum hér nokkra valda kafla úr skýrslunum þar sem m.a. er fjallað um mikilvægi þess að verktakar sýni aðgát og leiðbeini starfsmönnum sínum áður en framkvæmdir hefjast:
Náttúrufræðistofnun Íslands bendir á að þar sem Varmárósar eru friðlýstir og áin í heild á Náttúruminjaskrá ber að umgangast hana og vatnasvið hennar af fyllstu virðingu og nærgætni. Við þéttingu byggðar verða sífellt meiri líkur á að vatn í ánni spillist, í hana safnist rusl og að árbakkarnir verði fyrir skemmdum vegna ágangs manna eða vinnuvéla. Á þeim stutta kafla við Varmá sem skoðaður var vegna gróðurrannsókna haustið 2006 var áberandi hversu mikið drasl var í ánni og við árbakkana. NÍ telur brýnt að hafist verði handa sem fyrst við að hreinsa rusl úr ánni.
Friðað svæðið við Varmárósa er skammt utan við fyrirhugað vegstæði og getur auðveldlega orðið fyrir áhrifum af völdum framkvæmda ef verktakar sýna ekki aðgát við verkið. ... .
Umhverfisstofnun tekur undir það álit NÍ að brýnt sé að hreinsa Varmá, ekki einungis við fyrirhugað framkvæmdasvæði heldur allsstaðar í ánni og við hana þar sem þörf er á. (Bréf 22. des.)
Búsvæði fitjasefs í Varmárósum er eitt af náttúrudjásnum Mosfellsbæjar. Áríðandi er að mikilvægi svæðisins í náttúru landsins sé kynnt íbúum t.d. með kynningarspjöldum, á heimasíðu bæjarins og í skólum. Með því móti eru minni líkur á að svæðið verði fyrir raski vegna ónógra upplýsinga. (Skýrsla NÍ. okt. 2006, bls. 9)
Veiðimálastofnun gerði ennfremur rannsóknir á fiskgengd í Varmá þar sem fram kemur að gæta þurfi ítrustu varúðar komi til framkvæmda á þessu svæði.
Að lokum er rétt að benda framkvæmdaaðilum á að gera þá starfsmenn sem koma til með að vinna við þessa framkvæmd meðvitaða um ábyrgð þeirra gagnvart lífríkinu með fræðslu eða vettvangsferð því umhverfisslys verða sjaldan af beinum ásetningi heldur vegan aðgæsluleysis sem oftasta á rætur að rekja til ónógrar þekkingar.
Það lífríki og þar með fiskstofnar sem nýta sér vist í Köldukvísl og Varmá er dýrmætt fyrir svæðið í heild sinni. Fjölbreytt lífríki gefur útivist á svæðinu aukið gildi og óröskuð vatnakerfi eru einnig mælikvarði á heilbrigt umhverfi.
Í dag rennur mikið magn af aur og drullu frá framkvæmdasvæði í Helgafellshverfi út í Varmá. Stofnar þetta lífríki árinnar í mikla hættu. Það sætir furðu að þetta skuli gerast í ljósi þeirra ábendinga sem Mosfellsbær fékk frá ofangreindum stofunum áður en framkvæmdir hófust við tengibraut um Álafosskvos.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni